141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:31]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fellst á það með hv. þingmanni að hinn gullni meðalvegur er sá vegur sem við eigum öll að reyna að rata, en það getur oft verið erfitt að hitta á hann. Ég get líka verið sammála hv. þingmanni um að tillögurnar eru óraunhæfar, þær ná ekki yfir öll þau áhrif sem þingmaðurinn taldi upp. En ég tel reyndar tíma okkar mun betur varið í að ræða hin alvöruþrungnu mál og það er það fjárlagafrumvarp sem ríkisstjórnin hefur sett fram sem á köflum er óraunhæft og leiðir til hluta sem eru þjóðhagslega skaðlegir, samfélagslega skaðlegir og eru vanhugsaðir.

Ég hefði frekar viljað ræða þá hluti við hv. þingmann hér kl. hálfeitt um nótt þótt auðvitað sé gaman að taka sprettinn, það er alltaf gaman að hleypa á skeið.

Mig langar til að spyrja þingmanninn: Hvað finnst honum um þau gæluverkefni sem er stillt upp? Það er líklegt að hv. þingmaður verði í næstu ríkisstjórn og muni gegna þar stefnumótandi embætti, hvað finnst honum um þá fjötra sem er verið að leggja á hann fyrir næsta tímabil eins og fram kemur í þessu fjárlagafrumvarpi?