141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það sem ég vildi vekja athygli á í ræðu minni var sú umræðuhefð sem hefur verið í kringum fjárlögin. Ég held í raun og veru að við getum aldrei sagt að þetta sé eitthvert valdaframsal frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins vegna þess að það er auðvitað niðurstaða meiri hluta þingsins að afgreiða fjárlög eins og þau eru lögð fram. Síðan fara þau til meðferðar í hv. fjárlaganefnd og eru skoðuð þar og rýnd.

Það sem ég var að velta upp í ræðu minni var umræðuhefðin eða hvernig við nálgumst verkefnið. Væri ekki skynsamlegt fyrir okkur að taka dýpri umræðu? Ég held að það væri dálítið athyglisvert að þróa áfram það sem við byrjuðum á í 1. umr. sem heppnaðist vel að mínu mati með fagráðherrunum. Við þurfum einhvern veginn að komast áfram. Ég lít í raun og veru svo á að Alþingi, ef ég má nota þessa samlíkingu, sé eins og stjórn í fyrirtæki og ráðherrarnir séu framkvæmdastjórar. Þess vegna þurfum við að fara með gagnrýnum hætti yfir þetta.

Það kom fram í umræðunni fyrir helgi, hv. þm. Lilja Mósesdóttir benti á það og það hefur komið fram áður, að fjárlagafrumvarpið þyrfti að vera aðgengilegra plagg. Ég held að við þurfum að þróa það svo að auðveldara verði fyrir hv. þingmenn, ef þeir eiga ekki sæti í hv. fjárlaganefnd, að gera sér grein fyrir stöðunni og átta sig á hlutum. Það er ekkert auðvelt fyrir þá sem sitja í öðrum nefndum að átta sig á öllu sem þar er, ólíkt þingmönnum í hv. fjárlaganefnd sem eru með þetta í fanginu vikum saman. Það er ekki nógu aðgengilegt og hv. þingmaður nefndi það einmitt í ræðu sinni og ég er sammála því. Við þurfum að þróa vinnuna með öðrum hætti og taka gagnrýna umræðu í þingsal og gera þá kröfu til bæði stjórnarandstöðu og stjórnarliða á hverjum tíma að taka meiri þátt.