141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég skal útskýra aðeins betur hvað ég meinti í fyrra andsvari mínu. Til dæmis er gerð tillaga um 280 millj. kr. framlag til að standa undir ýmsum verkefnum sem ráðgerð eru samkvæmt þingsályktun um eflingu græna hagkerfisins og á öðrum fjárlagaliðum er svo gert ráð fyrir fjármögnun sérstakra tillagna, m.a. á sviði grænna fjárfestinga, og þar er um að ræða óskiptan lið sem ætlað er að fjármagna tillögur sem lúta meðal annars að grænkun fyrirtækja, uppbyggingu þekkingar og fjölgun grænna starfa, hvað sem það þýðir.

Þess vegna spyr ég: Er ekki óeðlilegt að veita svona háar upphæðir í gegnum fjárlög í óskilgreind verkefni þar sem búið er að búa til einhverja græna kúlu sem er kölluð græna hagkerfið og þangað er dælt tugum og hundruðum milljóna án þess að nokkur einasti þingmaður hafi hugmynd um hvað ríkisstjórnin er að hugsa eða hvaða verkefni þetta eru? Það var raunverulega grunnurinn í spurningunni.