141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki svo stórar áhyggjur af því hvort 2. umr. stendur þrjá daga, fjóra daga, fimm daga eða sex daga. Við höfum nægan tíma til að klára fjárlögin, ég hef engar áhyggjur af því. Nú er ég búinn að koma hingað í nokkrar ræður og hef verið að kalla eftir félögum mínum í Norðvesturkjördæmi, hvernig þeir hv. þingmenn ætli að verja þá stöðu sem þar er.

Ég hef nefnt tvö dæmi, sérstaklega lokun heilsugæslustöðvarinnar í Snæfellsbæ. Á sama tíma var verið að gera ákveðna hluti. Ég hef ekki einu sinni fengið þá hv. þingmenn í andsvar. Ég vil eiga rökræður við hv. þingmenn um það hvernig þeir sjá að þetta sé þessi mikli góði árangur sem náðst hafi í ríkisfjármálum. Ég hef bara ekki fengið þetta fólk til að ræða við mig. Eini þingmaðurinn sem hefur að einhverju gagni tekið þátt í umræðunni um fjárlögin er hv. þm. Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar. Aðrir hafa gert mjög lítið af því og nánast ekki neitt.