141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fjárlögin sem við ræðum eru fyrir margra hluta sakir merkileg. Þetta eru líklega síðustu fjárlög þessarar ríkisstjórnar, í það minnsta á þessu kjörtímabili. Við höfum svo sem öll okkar skoðanir á því hvort við viljum að hún fái tækifæri aftur til að leggja fram fjárlög eða ekki, ég er í þeirri deild sem vil það helst ekki.

Það er rétt, sem hefur komið fram í umræðum, að fjárlaganefnd hefur verið að reyna að gera ákveðnar tilraunir til að breyta vinnubrögðum og bæta og er að myndast einhver vísir að því. Ég held hins vegar, og það sést svolítið í gegnum þær breytingartillögur sem koma, að það markmið að færa safnliðina frá Alþingi í það sem menn kölluðu faglegra ferli hafi ekki gengið sem skyldi. Í það minnsta sér meiri hluti nefndarinnar ástæðu til að bregðast við á nokkrum stöðum. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við það að meiri hlutinn bregðist við. Ég geri hins vegar athugasemdir við að þetta skuli yfirleitt hafa verið reynt og gert. Ég var alltaf á móti því. Ég tel að Alþingi eigi að hafa ákveðið svigrúm. Það á ekki að ofurselja þessa hluti framkvæmdarvaldi, embættismönnum eða meintum sérfræðingum eða hvernig menn orða það.

Margar af þeim tillögum sem eru settar fram eru ágætar, aðrar eru að mínu viti óþarfar. Ég hef áhyggjur af því að forsendurnar fyrir því að fjármagna þær séu ekki nógu sterkar, að það vanti í raun grunninn undir þær. Ég ætla aðeins að rökstyðja það.

Í fyrsta lagi er í texta undantekningarlítið talað um að þessu sé mætt með veiðigjaldi og sölu á eignum. Ég hef miklar efasemdir um að á næsta ári verði hægt að innheimta það veiðigjald sem ríkisstjórnin ætlar sér. Í fyrsta lagi held ég að aðstæður, og kannski er það meginástæðan, í sjávarútvegi verði miklu erfiðari en þær eru í ár. Við sjáum það á okkar helstu viðskiptalöndum, okkar helstu mörkuðum með afurðir sjávarútvegsins, að þar er mikil krafa um verðlækkanir og samdráttur verður í kaupum. Ég hef áhyggjur af því að það eitt og sér muni leiða til þess að greinin verði minna aflögufær og geti þar af leiðandi greitt lægra veiðigjald til ríkisins sem á að standa undir þessu. Veiðigjald er svo hins vegar alveg sérkapítuli og hvernig það er sett fram en það er annað mál. Ég hef áhyggjur af þessu, grunnurinn fyrir þessum verkefnum er veikur.

Í öðru lagi finnst mér óljóst hvað á að selja af eignum eða annað til að standa undir þessu líka. Það kann að vera að verið sé að ræða um hlutabréf eða hlut í bönkum eða eitthvað slíkt. Þá veltir maður fyrir sér: Er góður tími til að selja það núna? Ég verð að viðurkenna að ég hef kannski ekki vit á því að segja til um það hvort það er gott eða slæmt en það hlýtur að minnsta kosti að vera einhverjum vafa undirorpið hvað fæst fyrir slíkt.

Hér er líka rætt um að fyrirtæki eða stofnanir sem ríkið á, eða á að hluta til, eigi að skila ákveðnum aurum í arð. Nægir þar að nefna Seðlabankann og Landsbankann, ÁTVR, Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða. Vel má vera að eitthvað af þessu geti gengið upp en það er alveg ljóst að t.d. ef Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins á að greiða meiri arð en verið hefur þarf hún væntanlega að selja meira eða innheimta meira og ef hækka á áfengi og tóbak þá endar það sjálfsagt í vísitölunni. Ég hef áhyggjur af því að þetta sé á veikum grunni.

Það er eitt sem ég hef ekki fengið svar við enn þá og ætla að nefna það, frú forseti, þ.e. hvar eigi að taka þennan hagnað í Seðlabankanum. Það mun væntanlega skýrast þegar við ræðum þetta við 3. umr. fljótlega, þá mun það væntanlega koma í ljós.

Ég hef áhyggjur af því að mér finnst landsbyggðin enn og aftur ekki njóta mikils í þessu fjárlagafrumvarpi. Enn kem ég að veiðigjaldinu sem er fyrst og fremst landsbyggðarskattur eða útgjöld. Ég tel að mjög harkalega hafi verið skorið niður. Vissulega var skorið niður út um allar trissur en það bitnaði ekki síst á stofnunum úti á landi hjá ríkisvaldinu en þar hefur verið barist fyrir því árum saman að fjölga störfum. Hvert eitt opinbert starf skiptir svo miklu í þessum litlu plássum sem eru víða um land, skiptir miklu upp á breidd í samfélaginu, skiptir miklu upp á tekjur og annað þó það séu bara örfá störf. Þarna hefur verulega mikið verið skorið niður.

Þannig var nú að víðast hvar missti landsbyggðin af svokölluðu góðæri, missti af uppsveiflunni miklu. Þá var ekki hægt að auka við út af verðbólguhættu. Ekki var hægt að fjölga störfum, ekki var hægt að fara í vegaframkvæmdir og guð má vita hvað. Síðan skellur kreppan á og þá er ekki hægt að fara í vegaframkvæmdir og ekki hægt að fjölga í störfum af því að ekki eru til peningar. Við hljótum að spyrja okkur: Er eitthvert jafnvægi til í þessu?

Þær hugmyndir hafa heyrst að það sé mikilvægt fyrir landsbyggðina að fá stærri hlut af þeim tekjum sem þar verða til og er svo deilt aftur út til byggðanna. Ég minni á að framsóknarmenn lögðu á sínum tíma til að veiðigjaldið, eða hluti þess, rynni að hluta til til ríkissjóðs, annars vegar í sjóð til að efla sjávarútveginn, rannsóknir og þróun og hins vegar til byggðarlaganna til að standa undir frekari atvinnuþróun og atvinnustarfsemi. Ég hefði gjarnan viljað sjá breytingu í þessa átt samhliða þessu frumvarpi þegar verið er að innheimta veiðigjaldið nú að fullu. Það kann vel að vera að það komi síðar, ég ætla ekki að útiloka það. En eins og þetta er í dag er gjaldið innheimt að fullu og það rennur í ríkissjóð og á að standa undir hinu og þessu.

Það sem maður hefur séð af tekjuöflunarfrumvörpunum, sem við ræðum að sjálfsögðu síðar, finnst mér kannski vanta meiri framtíðarsýn og festu um hvernig afla eigi tekna. Það á að hækka gjöld og ýmislegt þess háttar og margir telja að með því séu menn að bíta í skottið á sér.

Ég vil nefna annað sem kom hér fram varðandi fjárlögin. Stjórnarþingmaður sagði að niðurskurðarstefnu væri lokið, að niðurskurðarfjárlög heyrðu sögunni til. Ég held, frú forseti, að þar sé nokkuð ofmælt. Ef þingmenn trúa því að ekki þurfi að skera niður og kalla það að eftir eigi að hagræða — að mínu viti er ekki alltaf langt á milli hagræðingar og niðurskurðar. Ég held því að kannski séu menn óafvitandi — og ég ætla ekki að saka menn um að gera það viljandi, alls ekki — búnir að telja sér trú um að hlutirnir séu svolítið öðruvísi en þeir eru, ekki síst ef tekjurnar eru byggðar á veikum grunni eins og ég nefndi áðan.

Við sáum líka fyrir nokkru að einhverjir forustumenn ríkisstjórnarinnar lýstu yfir að kreppunni væri lokið en aðrir hafa sagt að henni sé ekki endilega lokið. Þá veltir maður fyrir sér hvort viturlegt sé að vekja væntingar um eitthvað sem er jafnóljóst og það hvernig staðan er. Það hefði verið skynsamlegra að leita eftir meira samráði, samræðum og mögulega samstarfi, við stjórnarandstöðuna um að búa til fjárlög sem tækju á vandanum eins og margir telja að hann sé, að við mundum alla vega mætast í tekjum og gjöldum. Ég veit að það var ágætt samstarf í fjárlaganefnd en það er ljóst að það náði ekki alla leið.

Ég hef nefnt það áður að að mínu viti á Alþingi sjálft að fara algerlega í gegnum fjárhagsramma og gera þær tillögur af sjálfsdáðum.