141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Annað sem hv. þingmaður nefndi áðan í ræðu sinni var niðurskurður og þá sérstaklega á landsbyggðinni. Ég get sömuleiðis verið sammála hv. þingmanni, niðurskurður og samdráttur í ríkisútgjöldum á undanförnum árum hefur víða komið hart niður þótt ég sé ekkert endilega viss um að þegar allt verður skoðað og er yfirgengið að það hafi komið harðar niður á landsbyggðinni en í þéttbýlinu. Hérna hafa verið teknar stórar tölur t.d. á suðvesturhorninu. Ég nefni Landspítalann, skattstofurnar og fleira í þeim dúr. Ég ætla ekki að deila um þetta, það kemur bara í ljós.

Kannski er það versta, og það sem olli manni mestum vandræðum, að það var af litlu að taka, þ.e. grunnurinn var slæmur, rétt eins og hv. þingmaður nefndi. Landsbyggðin naut ekkert endilega góðærisins, hún naut ekkert þess sem var að gerast. Það var meira að segja gripið til þensluhamlandi aðgerða á landsbyggðinni til að koma í veg fyrir þenslu annars staðar á landinu, m.a. á suðvesturhorninu. Það var ekkert af miklu að taka. Reyndar á það víða við, til dæmis var ekki af miklu að taka í menntakerfinu, í framhaldsskólum þar sem var stanslaus niðurskurður á árunum fyrir hrun og þeir lentu í miklu meiri vanda vegna þeirra óhjákvæmilegu aðgerða sem þurfti að grípa til vegna hrunsins.

Niðurskurður eða aðhald, á því er ákveðinn munur. Í venjulegum ríkjum er 1,5–2% aðhald í útgjöldum ríkisins á hverju einasta ári. Það er bara til að halda utan um ríkisfjármálin og mynda eitthvert smárými til að halda áfram, taka upp á nýjum hlutum o.s.frv. Ég tel ekki að kreppunni sé lokið en kreppuaðgerðunum er lokið, þ.e. niðurskurðinum er lokið og það eru að renna upp allt aðrir tímar hjá okkur núna en hafa verið áður. Það kemur meðal annars fram (Forseti hringir.) í fjárlagafrumvarpinu.