141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Eins og hv. þingmaður veit hef ég reynt að vekja athygli á þeirri martröð sem Farice-sæstrengurinn hefur valdið ríkinu frá hruni. Þarna var um algjöra einkaframkvæmd að ræða. Svo þegar fjárfestingar hrundu hér á haustdögum 2008 fékk ríkið þennan streng skyndilega í fangið. Ríkið hefur lagt fyrirtækinu til mjög háar upphæðir. Umsvifalaust var sett ríkisábyrgð á sæstrenginn þegar ríkið fékk hann í fangið. Við skulum ekki gleyma því að Landsvirkjun er líka eigandi, þannig að ríkið, Landsvirkjun, Glitnir og Arion banki eiga hlut í fyrirtækinu. Bankarnir fljóta með og njóta góðs af því að ríkið og Landsvirkjun eiga þarna meiri hluta. Bankarnir eru tryggir með fjárfestingu sína þarna inni vegna ríkisábyrgðarinnar.

Það er ekki í fyrsta sinn sem málið kemur fyrir fjárlaganefnd. Reksturinn er að mínu mati ekki nógu góður vegna þess að verðinu er haldið svo háu að við Íslendingar höfum ekki verið, erum ekki og verðum kannski ekki í nánustu framtíð samkeppnishæf varðandi gagnaver í Evrópu og á Norðurlöndunum.

Ég tek undir það. Svo ég svari nú spurningunni er þetta afar einkennilegt orðalag, en þarna virðist vera opin gátt inn í fjárlög. Ekki er nóg með að fjármagnið sem fara á úr Fjarskiptasjóði í Farice sé um 416 millj. kr. á fjárlögum fyrir næsta ár, heldur er gert ráð fyrir að fjárþörfin verði jafnmikil árið 2014. Það er alvarlegur hlutur (Forseti hringir.) að bara á tveimur árum sé ríkisábyrgðin virkjuð fyrir tæpan milljarð.