141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri að við erum sammála um þessa hluti.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni og gerði athugasemdir við það hvernig væri staðið að svokallaðri fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Við göngum svo langt í minnihlutaáliti 1. minni hluta að við köllum þetta skóflustunguloforð — skóflustunguáætlun væri réttara orð yfir það, þ.e. ráðist er í ákveðnar framkvæmdir og ríkið skuldbundið inn í næsta kjörtímabil. Reyndar eru uppi ákveðin varúðarsjónarmið þar sem tekjuöflun sé ekki nógu traust, en maður setur spurningarmerki við það þegar menn ætla að fara að byggja hús íslenskra fræða fyrir tæpa 4 milljarða. Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér að gert verði ef í ljós kemur eftir eitt ár þegar búið er að bjóða út verkið, byrjað er á framkvæmdunum og farið að grafa? Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að við lendum í sama ferli og með Hörpu, þ.e. að við höfum ekkert val, að við verðum að halda áfram? Síðan getum við auðvitað nefnt þekkingarsetur og hugmyndir. Þegar framkvæmdir eru settar inn á áætlun er í raun verið að taka ákvarðanir inn í næsta kjörtímabil. Ríkisstjórnin hefur verið með alla fjárfestingu í algjöru frosti allt kjörtímabilið, ekki einungis hjá ríkissjóði heldur hefur hún líka gengið þannig fram að atvinnulífið hefur ekki þorað að gera nokkurn skapaðan hlut.

Síðasta verk ríkisstjórnarinnar er náttúrlega að ráðast á eina af þremur mikilvægustu atvinnugreinunum, ferðaþjónustuna. Margsinnis er búið að ráðast á sjávarútveginn og stóriðjuna og síðan varð ríkisstjórnin auðvitað að klára kjörtímabilið með því að ráðast líka á ferðaþjónustuna.

Ég kalla eftir skoðunum hv. þingmanns á því hvort hún telji það eðlileg vinnubrögð á þeim tímum sem nú eru, þegar kosningar eru fram undan, að menn ætli að taka skóflustungur að nýjum verkum en svo eiga aðrir að sjá um áhyggjurnar af því að framkvæma þau.