141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég hef farið yfir það í ræðum mínum og andsvörum í 2. umr. og reyndar einnig í 1. umr. Ég hef gríðarlega miklar áhyggjur af þessu vegna þess að mér finnst mjög alvarlegt að ríkisstjórnin geti komið fram korter í kosningar með einhverja fjárfestingaráætlun sem enginn trúir á og ríkisstjórnin sjálf trúir nánast ekki á því að allt er bundið svo mikilli óvissu. Eins og ég fór yfir í ræðu minni er þar alltaf neðanmálsákvæði þar sem segir að fjárfestingaráætlunin sé háð mikilli óvissu.

Skóflustunguloforðaleið er ágætisnafn á þessa leið því að við virðumst ekki ætla að læra af þeim atburðum sem urðu á haustdögum 2008 þegar allt hrundi. Það sem komið er til framkvæmda undir stjórn þessarar ríkisstjórnar er ekki bara sú framtíðarsýn og þær breytingartillögur sem birtast í þessu nefndaráliti, heldur á að taka skóflustungu að fangelsi á Hólmsheiði, eins og ég fór yfir þegar ég ræddi fangelsismálin áðan. Verið var að undirrita samninginn um Vaðlaheiðargöng í gær, sem Ríkisábyrgðasjóður neitaði að ábyrgjast og sagði að það mætti ekki fara í það verk og hann gæti ekki samþykkt að gefa meðmæli með því. Uppi eru miklar draumahugmyndir varðandi Landspítalann í Reykjavík o.s.frv.

Ef það nær fram að ganga, ef við getum ekki á einhvern hátt stoppað það að þetta verði að lögum verður að taka lögin upp um leið og ný ríkisstjórn tekur við. Íslenska þjóðin hefur ekki efni á fimm til tíu Hörpum sem standa galtómar sem minnismerki um slæma hagstjórn vinstri stjórnarinnar.