141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:55]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að koma hér og tala um frumvarp til fjárlaga 2013. Ég segi ánægjulegt, sem hljómar kannski að einhverju leyti skringilega því að það eru ekki mikil gleðitíðindi í fjárlagafrumvarpinu fyrir íslenska þjóð. Mér finnst hins vegar ánægjuefni að fá að tjá hugsanir mínar og skoðanir um fjárlögin sem fulltrúi minnar kynslóðar, sem einhver nefndi hina sjálfhverfu kynslóð. Þessi ræða er dæmisaga minnar kynslóðar eftir hrun.

Atvinnuleysi meðal ungs fólks er gríðarlegt áhyggjuefni. Við erum að missa unga fólkið af landi brott en flestir þeirra sem flust hafa burtu eru á aldrinum 25–34 ára. Það er einmitt fjölmennasti hópurinn á atvinnuleysisskrá eða rúmlega 30% allra atvinnulausra. Þetta er verulegt áhyggjuefni enda er mannauðurinn ein helsta auðlind okkar. Þessar tölur eru skýr skilaboð um að ungt fólk er að sækja atvinnutækifæri sín utan landsteinanna, sem þýðir aftur að fjöldi fólks metur það svo að ákjósanlegra sé að búa annars staðar en á Íslandi.

Ísland á að vera ákjósanlegur staður fyrir ungt fólk að búa á og við verðum að búa svo um hnútana að það finni kröftum sínum farveg hér heima. Atvinnumálin þola enga bið og ef ekkert verður gert blasir við að þeim mun fjölga sem velja að flytjast af landi brott. Ég held að margir hér á Alþingi geri sér að einhverju leyti ekki grein fyrir því við hvaða stöðu ungt fólk býr sem er að stofna fjölskyldu. Þetta segi ég sem fulltrúi minnar kynslóðar. Því miður finnur almenningur harkalega fyrir því hversu miklir áhrifavaldar stjórnmálamenn eru í raun í lífi okkar og hversu miklu þeir hafa yfir að ráða þegar kemur að ráðstöfunartekjum okkar frá mánuði til mánaðar.

Það er búið að taka alla hvata úr kerfinu. Ef ég vinn meira borga ég meiri skatt. Svört atvinnustarfsemi er farin að margborga sig. Það er kannski óviðeigandi að segja það hér, en þetta er staðreynd og sannleikur. Fólk bjargar sér, það er innbyggt í íslensku þjóðina, íslensku þjóðarsálina. Íslendingar gefast ekki upp. En nú þegar stjórnmálamenn taka sér svo mikið vald með skattheimtu eykst svört atvinnustarfsemi, það gefur augaleið. Svört atvinnustarfsemi skilar sér ekki í ríkiskassann og það vitum við.

Ég held að mín staða sé ágætt dæmi um stöðu sem fólk á mínum aldri er að kljást við. Ég er 35 ára í sambúð með tvö börn, nokkurs konar vísitölufjölskylda. Ég keypti mína fyrstu íbúð í janúar árið 2008, á versta tíma mundi einhver segja. Tveimur árum síðar eða í lok árs 2010 seldi ég íbúðina bæði til að koma í veg fyrir frekari skuldasöfnun og þar sem fjölskyldan var að stækka. Ég eignaðist mitt fyrsta barn árið 2011 en fyrir átti ég sex ára stjúpdóttur. Þá var að sjálfsögðu búið að lækka greiðslur í fæðingarorlofi og lá fyrir að það ætti að stytta orlofið, sem var reyndar dregið til baka.

Ég er með BS-gráðu og meistaragráðu, fimm ára háskólanám að baki og námslán í samræmi við það. Ég er heppin, ég er í góðri vinnu með góð laun og í samanburði við marga félaga mína er mín staða mjög góð. Það eru ekki allir jafnheppnir að vera með góð laun í dag, því að fyrirtækin í dag geta ekki borgað það há laun, það er líka erfið staða hjá þeim.

En hver er staðan? Greiðslubyrðin hefur hækkað gríðarlega undanfarin fjögur ár. Hjá mér stendur hún í 300 þús. kr. á mánuði. Inni í því er ekkert sófasett og enginn flatskjár, þetta er bara leigan, tryggingar og annað slíkt og námslánin. Ekki einu sinni litli Pólóinn er þarna, hann á ég alveg skuldlaust.

Hverjar eru ástæðurnar? Því miður er allt of margar af ástæðunum fyrir hækkun þessarar greiðslubyrði að finna hér inni. Þetta er ekki bara af því að verðlag hafi hækkað eða að krónan féll heldur er ástæðurnar að finna hér inni, vegna aðgerða þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr alla daga og þyngir byrðar fjölskyldunnar í landinu.

Nú ætla ég að taka nærtækt dæmi af því að ég þekki það, mitt eigið dæmi. Ég borga 180 þúsund kr. í leigu, plús hita, og enn borga ég af íbúðinni sem ég seldi 2010. Af hverju er ég að nefna þetta hér, af hverju er ég að deila svona persónulegum upplýsingum í þingsal? Ástæðan er sú að margir eru í mínum sporum og ég veit að þannig er það. Þetta er kannski ekki hávær hópur, en hann er alla daga að reyna að kljúfa reikningana, vinna og ná endum saman og hefur engan tíma til að banka hér upp á eða mótmæla fyrir framan Alþingishúsið því að hann þarf að hugsa um börnin og hvernig eigi að kljúfa þetta.

Önnur ástæðan er sú að það var einmitt í þessum þingsal sem forsendum lánsins sem ég tók var breytt, eins furðulega og það hljómar. Síðast þegar ég gáði var það ekki þingsalurinn sem ég samdi við heldur banki. Ég tók lán með höfuðstól upp á 4,5 milljónir, en því láni var einhliða breytt án þess að mitt samþykki kæmi til eða undirskrift mín. Það var gert í kjölfar lagasetningar Alþingis. Það var ekki verri maður sem stóð fyrir því en hæstv. fyrrv. ráðherra Árni Páll Árnason, mikill frændi minn sem mér þykir agalega vænt um, en lögin eru kennd við hann, Árna Páls lögin. Eftir að þau lög voru samþykkt var höfuðstólnum breytt í 5,4 milljónir. Það er svolítið einkennilegt að horfa í dag á lánið sem ég skrifaði undir, 4,5 milljónir í höfuðstól, ég fékk pappírinn sendan heim þó að ég hafi ekki skrifað undir hann, þar sem stendur að ég hafi tekið lán upp á 5,4 milljónir. Á því eru einhverjir vextir sem ég skrifaði ekki undir, hvort sem þeir eru óverðtryggðir eða verðtryggðir, það skiptir engu máli.

Mér er gróflega misboðið hvernig sú ríkisstjórn sem kennir sig við velferð kemur fram við þegna sína, lánþega. Mér finnst það raunar svolítið lýsandi, nafnið sem hún gefur lánþegum: skuldarar, umboðsmaður skuldara. Það er lýsandi fyrir þessa stjórn. Ég gerði mér ekki grein fyrir því þegar ég tók þetta lán að ég væri að gera þríhliða samning við ríkisstjórnina og bankann en það reyndist hins vegar staðreyndin. Ég ætla ekki að byrja að tala um neina skjaldborg, það veit enginn hvar sú borg er. Það er væntanlega auðveldari leikur að finna Atlantis en þessa blessuðu borg ríkisstjórnarinnar.

Hvernig brúa margir af minni kynslóð bilið? Einhverjir hafa gert það með séreignarsparnaðinum. Hvernig verður framtíð minnar skattpíndu kynslóðar? Fæst munu eiga stórt hús, eins og Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi þingmaður, talaði um, sem við getum selt þegar við verðum gömul. Það þarf eitthvað meiri háttar að breytast í samfélaginu til að sátt skapist, og því miður á ég ekki von á því að það gerist meðan þessi ríkisstjórn er við völd. Skattar virðast hækka í hvert einasta skipti sem fjármálaráðherra stígur í pontu.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í erindi sínu í Hörpu nú í nóvember að skattahækkanir frá árinu 2008 næmu 87 millj. kr. á verðlagi ársins 2013, það samsvarar 4,5% af vergri landsframleiðslu.

Annar mælikvarði á hækkanirnar er að þær nema árlega að meðaltali 270 þús. kr. á hvern íbúa eða 1 milljón á hverja fjögurra manna fjölskyldu. 1 milljón. Hver ræður við það? Það eru ekki margir sem ráða við það í dag.

Hátt á annað hundrað skattbreytingar hafa verið gerðar á undanförnum árum. Núverandi ríkisstjórn hefur tekist að gera skattkerfið eins ógagnsætt og mögulegt er. Það er ekki nokkur leið fyrir fólk að fylgjast með þessum breytingum. Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir og við erum að ræða er enn gefið í. Það á að hækka álögur enn frekar á skuldug heimili og fyrirtæki. Bensíngjald verður hækkað, áfengisgjöld hækkuð, vörugjöld og meira til. Og við vitum hvaða áhrif þetta hefur því að við erum búin að sjá það gegnumgangandi síðustu ár þar sem hækkanirnar hafa komið hverjar á fætur annarri. Þær hafa auðvitað bein áhrif á vísitöluna og vísitalan hækkar ekki bara lánin heldur líka leiguna hjá fjölskyldum í landinu sem mega ekki við auknum útgjöldum.

Til að taka dæmi um áhrif sambærilegra hækkana á undanförnum tveimur árum þá hefur leiga á húsnæði sem var 160 þús. kr. á mánuði í lok árs 2010 hækkað í 175 þús. kr. tveimur árum síðar, árið 2012. Það þýðir 15 þús. kr. hækkun bara í leigu. Maður getur því rétt ímyndað sér hvaða áhrif þetta hefur á lán einstaklinga.

Þetta er ágætisvísbending um hvernig skattahækkunum er velt yfir á heimilin og hvernig þær koma í raun beint fram hjá fjölskyldunum í landinu. Ég held að ríkisstjórnin telji sér trú um að þetta hafi ekki svo slæm áhrif á heimilin í landinu, eins og t.d. hækkun á áfengisgjaldi — fólk drekki þá bara minna, keyri minna, það verði minni mengun. Það er örugglega fullt af réttlætingum til. En þetta bara virkar ekki svona og allt hefur þetta áhrif.

Þetta hefur núverandi ríkisstjórn boðið heimilunum í landinu upp á, og nú ætlar hún að bjóða upp á auknar álögur á komandi ári. Því miður er það ekki þannig að fyrirtæki í landinu geti boðið launþegum sínum upp á sambærilegar hækkanir til að vega upp á móti þessu. Það þarf a.m.k. 30 þús. kr. hækkun bara til þess að standa undir þeirri hækkun sem hefur orðið á húsnæði og ég minntist á áðan. Fyrirtækin eru líka að kljást við vanda, þar hafa skattar verið hækkaðir duglega, ekki bara um nokkur prósent heldur tugi prósenta og kannski 100% í einhverjum tilvikum.

Ég ætla ekki að vera svartsýn, og það er fullt af kraftmiklu fólki sem er að berjast við að stofna og reka fyrirtæki á þessum tíma sem gefur manni von um betri tíð. Ég trúi því að það muni koma okkur út úr kreppunni, það er það sem skiptir máli. Og það skiptir máli að það sé ekki vöntun á vinnu, að það sé hægt að fá vinnu á Íslandi. Það er hins vegar sorglegt að vita af þeirri staðreynd að 8% ungmenna á aldrinum 16–24 ára séu án atvinnu. Það er erfið tilhugsun að horfast í augu við ungt fólk og segja því að við séum ekki að gera Ísland að landi tækifæranna, sem það svo sannarlega er. Við höfum allt sem til þarf. Það þarf bara svigrúm og að veita fólki athafnarými til þess að geta stofnað fyrirtæki og ekki þrengja að því úr öllum áttum.

Við verðum öll að leggja okkar af mörkum í uppbyggingu atvinnulífsins og samfélagsins því að nú ríður á að ný störf verði sköpuð. Ég sé ekki fyrir mér að ríkisstjórnin muni skapa störf, en hún þarf að gera umhverfið hagfellt, hún þarf að gera Íslendingum auðvelt fyrir að setja á fót fyrirtæki, en því miður hefur sú ekki verið raunin, og efnahagsleg endurreisn hefur gengið hægar en vonir stóðu til. Það er því löngu tímabært að við stjórnmálamenn horfum til framtíðar og vinnum saman að því að finna lausnir á þeim vanda sem blasir við og móta skýra framtíðarsýn þannig að Ísland verði áfram ákjósanlegur staður fyrir ungt fólk að búa á. Við viljum geta sagt við kynslóðirnar sem á eftir koma að hér séu tækifæri og þau þurfi ekki að leita til Noregs til að finna þau.

Ein lítil staðreynd. Ég kem úr litlu sveitarfélagi úti á landi og úr mínum hópi bekkjarfélaga hafa 25% flutt úr landi síðan kreppan skall á. Þetta er sorgleg staðreynd, en við verðum að horfast í augu við að þetta er að gerast og við þurfum að koma í veg fyrir að þetta gerist í ríkari mæli.

Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013. Það sorglegasta við þessi fjárlög er hversu gríðarlega há vaxtagjöldin eru, þau eru þriðji stærsti útgjaldamálaflokkurinn á eftir velferðarmálum og heilbrigðismálum, eða alls 84,1 milljarður kr. Vaxtatekjur eru 20,8 milljarðar og vaxtajöfnuðurinn því 63 milljarðar, tæplega 20 milljörðum hærri en hann var fyrir tveimur árum. Er það ásættanlegt? Það finnst mér ekki. Það er virkileg eftirsjá í þessum fjármunum, að við skulum láta allan þennan pening fara í vaxtakostnað. Við vitum að Íslendingar eru dugleg þjóð sem vinnur mikið og vinnur mun meira en aðrar þjóðir fyrir tekjum sínum. Lífsgæði okkar byggjast svolítið á því að við vinnum mikið og mun meira en Evrópuþjóðirnar í kringum okkur. Ef við berum okkur saman við þær og mundum vinna álíka mikið og þær værum við í svipuðum vandræðum og Grikkir, sýnt hefur verið fram á það.

Það sem þetta þýðir í raun er að stór hluti af því sem við vinnum hörðum höndum fyrir með löngum vinnudegi og fjarveru frá fjölskyldum okkar, skilar sér ekki í okkar vasa, hann skilar sér ekki einu sinni í sameiginlegu sjóðina, fer ekki til þeirra sem standa verr en við hin. Nei, hann brennur upp í vaxtakostnaði.

Ég geri mér grein fyrir því að skuldir ríkissjóðs eru miklar og af því leiðir þessi staða. Samkvæmt ríkisreikningi í árslok 2011 námu langtímaskuldir, lífeyrisskuldbindingar og skammtímaskuldir ríkissjóðs tæplega 1.916 milljörðum kr. Ef við drögum frá lífeyrisskuldbindingar námu skuldbindingarnar 1.543 milljörðum eða um 95% af landsframleiðslu þessa árs. Inni í þessum tölum eru ekki vandamál Íbúðalánasjóðs, ég ætla ekki að ræða það sérstaklega hér en við vitum að þar stöndum við frammi fyrir gríðarlegu vandamáli. Það virðist ekki einu sinni liggja fyrir hversu stórt það er. Það sem mér þykir alvarlegt er að menn virðast hafa haft nasaþef af þessu fyrir þó nokkuð löngu síðan án þess að gripið hafi verið inn í. Þessi vandi hleypur ekki á hundruðum milljóna heldur hleypur hann á tugum ef ekki hundruðum milljarða og það er algjörlega fráleitt að umfangið liggi ekki fyrir.

Á sama tíma og þessi staða blasir við er ljóst að menn eru ekki sammála um hagvaxtarspá fyrir næsta ár. Hagstofan og ASÍ spá 2,5% hagvexti, Seðlabankinn 2,9%. Því miður virðist hagvöxturinn ekki vera drifinn áfram af auknum fjárfestingum eins og maður vildi helst, hann er drifinn áfram af einkaneyslu þar sem heimilin virðast hafa gengið á innstæður sínar í bönkum. Núvirtar innstæður hafa lækkað um tæpa 300 milljarða á síðustu tveimur árum. Á sama tíma hefur verið stöðugt útflæði af séreignarsparnaðarreikningum einstaklinga. Það segir okkur að fólk er að ganga á sparnað sinn og ganga hratt á hann, en um 80 milljarðar hafa farið út af séreignarsparnaðarreikningum á þessum tíma. Það er mikið áhyggjuefni að gengið sé svona hratt á sparnaðinn á svo skömmum tíma.

Hvað gerir ríkisstjórnin? Forgangsröðun hennar kemur skýrt fram í fjárlögum. Hvað blasir við hverjum sem horfa vill? Það sem blasir við er að það er komið að kosningavetri. Nú á að nýta annars vegar sölu eigna og hins vegar arðgreiðslur til að útdeila fögrum fyrirheitum undir heitinu fjárfestingaráætlun, fyrir alls 5,6 milljarða. Þetta eru engar smáupphæðir. Þar eru meðal annars rekstrarstyrkir flokkaðir sem fjárfesting. Áhugaverðustu og jafnframt kostnaðarmestu fjárfestingarkostir núverandi ríkisstjórnar eru meðal annars bygging húss íslenskra fræða fyrir alls 800 milljónir. Mér finnst mjög einkennilegt að á þessum tíma skuli menn velja að setja enn eina ferðina fjármagn í steypu þegar við berjumst við halda innviðunum gangandi. Hvað horfum við núna upp á á Landspítala – háskólasjúkrahúsi? Það er sama hugmyndafræðin, að setja fjármagnið í steypu og láta innviðina grotna á meðan. Það er ekki hægt að búa við svoleiðis ástand til lengri tíma, við vitum það. Fólkið er að gefast upp. Ég sé ekki einu sinni lengur hverjir standa að baki þessari Landspítalabyggingu, það verður að minnsta kosti áhugavert að sjá hverjir það verða á endanum.

Önnur fjárfesting er sýning sem hlýtur að dæmast með dýrari sýningum Íslandssögunnar. Það eru kannski til einhverjar betri sögur úr góðærinu, ég er ekki með þær á takteinunum. Þetta er sýning fyrir Náttúruminjasafn Íslands. Eins skemmtilega og það hljómar erum við bara á þeim tímapunkti að mínu mati að við höfum ekki efni á því að leyfa okkur svona. Í sýninguna á að leggja 500 milljónir — það kemur ekki fram hvort þetta er ein sýning eða margar. Það er ansi vel í lagt á tímum þegar virkilega þröngt er í búi og verið að velta miklum byrðum yfir á fjölskyldur og heimili landsins.

Bygging þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri og grænkun íslenskra fyrirtækja. Þetta er virkilega skemmtilegt orð, grænkun, það hlýtur að vera eitthvert nýyrði sem hefur verið samið hér á þinginu, en í þessi tvö verkefni eiga að fara samtals tæplega 600 milljónir. Við hljótum að geta tekið okkur á og verið aðeins umhverfisvænni, íslensk fyrirtæki, án þess að í það þurfi að leggja tæplega 300 milljónir. Ég veit líka að þekkingarsetrið á Kirkjubæjarklaustri getur beðið betri tíma, við höfum ekki efni á að veita okkur svona munað á þessum tíma.

Svo eru það alls kyns sjóðir. Ég skil það vel, þetta er rosalega spennandi og þegar maður á nógan pening er gaman að gera vel við sig og fara á hvers kyns sýningar. Hér á að setja tugi milljóna í alls konar sjóði, þ.e. tugi milljóna í hvern og einn sjóð. Ég er að tala um Myndlistasjóð, tónlistarsjóð, sviðslistasjóð fyrir starfsemi atvinnuleikhópa, Útflutningssjóð tónlistar, handverkssjóð, hönnunarsjóð, bókmenntasjóði og svo mætti lengi telja. Maður getur rétt ímyndað sér hversu margar stjórnir þarf yfir þetta og margt fólk í umsýslu með öllum þessum sjóðum, einhver verður kostnaðurinn við það.

Ég held að eins og staðan er í dag getum við því miður ekki leyft okkur þetta. Við þurfum að spyrja okkur þessarar spurningar: Höfum við efni á þessu? Við þurfum stundum að líta á ríkisfjármálin eins og um sé að ræða okkar eigin peninga. Ég hef stundum á tilfinningunni að menn séu svolítið kærulausir af því að þetta kemur ekki beint úr þeirra eigin vasa. Menn eru að eyða annarra manna fé, taka og færa á milli án þess að hugsa um hvað hver þarf að borga á endanum.

Við vitum að ríkið í dag er orðið allt of stórt, allt of mikið bákn, ríkisstofnanirnar eru orðnar allt of margar. Ráðuneytunum hefur þó fækkað, það er fagnaðarefni og ríkisstjórnin á skilinn heiður fyrir það, þeim tókst að framkvæma þetta loforð okkar sjálfstæðismanna mun hraðar en okkur, þeir eiga alveg skilið gott fyrir það. Jafnframt hefur ríkisstjórninni tekist að fækka ríkisstofnunum að ég held um 30, það má hrósa fyrir það. Síðast þegar ég var inni á þingi voru hins vegar fjórar nýjar ríkisstofnanir settar á laggirnar á móti. En báknið er of stórt. Ef maður skoðar til dæmis yfirlit yfir hvar niðurskurður starfa hefur orðið hefur fækkað minnst í opinberri stjórnsýslu. Eitthvað hefur verið um hagræðingu og sameiningu stofnana og ráðuneyta eins og ég kom inn á, en menn hafa ekki sagt upp ríkisstarfsmönnum, opinberum starfsmönnum, og virðast mjög tregir til að ganga í þá átt. Því miður þarf það að gerast því að ansi marga starfsmenn þarf á einkamarkaðnum til að standa undir því kerfi sem við ætlum að reka í dag með alla þessa ríkisstarfsmenn. Ef allt er talið telja þeir örugglega tugi þúsunda, 20–30 þúsund starfsmenn. Það er spurning hvort maður telur starfsmenn sveitarfélaga og alla með. Svo leynast náttúrlega ansi margir starfsmenn líka hjá opinberum hlutafélögum sem eru ekki alltaf taldir með þegar átt er við ríkisstarfsmenn. Við höfum því safnað svolítið utan á ríkið undanfarin ár og við sjálfstæðismenn eigum stóran þátt í því, við erum ekki saklausir af því.

Það er enginn öfundsverður af því að þurfa að taka að sér það hlutverk að skera niður og minnka umsvifin, en það þarf að gerast. Ég veit að íslenskur almenningur mun skilja það og taka því fagnandi þegar og ef niðurskurður verður, það er bara nauðsynlegt og menn skilja það. Menn hafa þurft að takast á við þetta í einkafyrirtækjunum. Sjálfsbjargarviðleitnin er virkilega mikil og fólk finnur sér eitthvað að gera, það þarf bara að skapa því umhverfi til þess að það geti látið drauma sína rætast.

Ég tel að við höfum ekki efni á öllum þeim verkefnum sem ég nefndi áðan, ekki meðan við getum ekki rekið kjarnastarfsemi ríkisins. Í mínum huga væri réttast að greiða niður skuldir og lækka vaxtakostnað sem hleypur á tugum milljarða. Það er glapræði að ætla að verja þeim tekjum sem fást af sölu eigna og arði ríkisfyrirtækja í gæluverkefni. Kannski er ósanngjarnt að kalla þetta gæluverkefni, en þetta er alla vega ekki kjarnastarfsemi og við vitum það, t.d. þessar byggingar og ýmis útgjöld sem við getum ekki leyft okkur.

Síðan á að taka arð af ríkisfyrirtækjum eins og bönkunum. Ég tek undir með öðrum þingmönnum sem hér hafa komið inn á að það mætti alveg skoða, ef bankarnir skila þessum arði, hvort ekki megi setja hann í þá aftur og lækka gjöld á heimilin og viðskiptavinina. Er það ekki þaðan sem þessar tekjur koma? Eru það ekki fyrirtækin og heimilin í landinu sem mest dynur á? Er það ekki þau sem eru að eiga við bankana? Er ekki nærtækast að láta þau njóta góðs af arðinum?

Við höfum ekki efni á þessu. Við verðum að forgangsraða fyrir fjölskyldurnar og heimilin í landinu. Við getum ekki látið stjórnast af skammtímahugsun. Niðurgreiðsla vaxtagjalda ætti að vera mikilvægasta verkefni núverandi ríkisstjórnar. Ég geri mér grein fyrir því að slík ákvörðun er erfið á kosningavetri en hana verður að taka og ég trúi því að það sé skilningur fyrir því hjá almenningi að þessa leið þurfi að fara.

Með leyfi forseta, vil ég vitna í nefndarálit 1. minna hluta, en þar segir:

„Í nýjasta hefti Peningamála varar Seðlabankinn við því að aukins útgjaldaþrýstings gæti meðal annars í tengslum við komandi þingkosningar, auk þess sem óvíst sé hver aðkoma stjórnvalda gæti orðið að endurskoðun kjarasamninga í byrjun næsta árs ef af henni verður. Þá varar bankinn við því að ekki sé gert ráð fyrir útgjöldum í frumvarpinu vegna nýs Landspítala. Nokkur óvissa virðist ríkja um ýmsa tekjuliði og hætta sé á því að lagt verði í útgjöld þótt forsendur um eyrnamerktar tekjur standist ekki. Þetta geti meðal annars átt við fyrirhugaða eignasölu ríkisins sem áður hafi verið slegið á frest en sé nú búið að blása lífi í að nýju. Óvissa ríki um þróun fjármagnskostnaðar hins opinbera vegna þess að ekki hafi tekist að ná tökum á innlendri verðbólgu og óvissa sé um afnám gjaldeyrishafta. Ætla má að losun haftanna muni að öðru óbreyttu hafa í för með sér hækkun vaxtakostnaðar hins opinbera. Þá varar bankinn við óvissu sem tengd sé eiginfjárþörf Íbúðalánasjóðs í ljósi umfangsmikilla og vaxandi vanskila og ört fjölgandi yfirtekinna fasteigna og lakari horfa í grunnrekstri. Bankinn telur að nokkur óvissa sé um forsendur fjárlaga og hætt sé við að verr gangi að ná jöfnuði í rekstri hins opinbera en þar sé gert ráð fyrir, sérstaklega þar sem stjórnvöld hafi ekki innleitt formlegar fjármálareglur. Seðlabankinn leggur áherslu á að þær verði innleiddar til að styrkja fjárlagagerðina og efla aðhald og aga í rekstri hins opinbera.“

Þetta er það sem skiptir mestu máli núna, að stjórnmálamenn taki sér tak, séu hugrakkir, hugsi um ríkisfjármálin eins og sín eigin fjármál og falli ekki í þær gryfjur að hygla hinum og þessum sérhagsmunahópum í fjárlögum á tímum sem við höfum ekki efni á því. Ég veit að það er erfitt fyrir ríkisstjórnina, hún tók við á erfiðum tíma og hún er búin að vera í niðurskurði og skattahækkunum og hún á alla mína samúð varðandi það. En hún getur ekki leyft sér að fara í þessi útgjöld, ekki núna. Heimilin og fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu þola það ekki.