141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að ræða allt annað mál í störfum þingsins en get ekki orða bundist þegar hæstv. ráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kemur hingað yfirlætisfullur og önugur í hæsta lagi og byrjar að tala niður til okkar þingmanna. [Kliður í þingsal.] Hæstv. ráðherra talar um að þetta sé fordæmalaust, að umræðan um fjárlög hafi núna staðið lengur en nokkru sinni áður í þingsögunni. Þá verð ég að segja að það er mjög margt annað fordæmalaust að gerast í þingstörfum þessa dagana. Má ég nefna meðferðina á stjórnarskrá Íslands? Má ég nefna fiskveiðistjórnarfrumvörpin sem hæstv. ráðherra er að koma með í þriðja eða fjórða sinn núna án samráðs við hagsmunaaðila, án samráðs við sérfræðinga, án samráðs við stjórnarandstöðuna? Það er að vísu ekki fordæmalaust vegna þess að þannig hefur þessi ríkisstjórn unnið.

Ráðherrann vogar sér að koma hingað og segja að þetta fjárlagafrumvarp sé það langbesta og auðveldasta sem við höfum verið að vinna með í fimm ár og að ríkissjóður sé nánast hallalaus. Já, það er vegna þess að öllu er sópað undir teppið í þessu fjárlagafrumvarpi, frú forseti, og gæluverkefnum mokað út af einhverri ímyndaðri fjárfestingaráætlun sem fjármögnun er mjög ótrygg um.

Ég var að koma af fundi ofan úr háskóla þar sem norskur lögreglumaður fór yfir voðaverkin í Noregi 22. júlí 2011. Hann endaði ræðu sína á að spyrja: Við erum búnir að læra margt af þessu. Eruð þið viðbúin? Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, svaraði spurningunni nánast með þeim orðum að við værum það alls ekki. Af hverju skyldi það vera? Meðal annars út af einu atriðinu sem er verið að sópa undir teppið í þessum fjárlögum, (Forseti hringir.) fjárveitingum til löggæslumála. Ef við þingmenn eigum ekki að fá að ræða það í löngu máli spyr ég: (Forseti hringir.) Hvenær eigum við þá að fá að ræða málin hér?