141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Í tengslum við þá umræðu sem hér er í gangi um fjárlagaumræðuna langar mig að vitna í fréttatilkynningu sem var að berast frá Landspítalanum. Í henni kemur fram að á þessu ári hafi 254 hjúkrunarfræðingar í 193 stöðugildum sagt upp störfum á Landspítalanum. Það kemur líka fram að samdrátturinn á Landspítalanum nemi um 23% af heildarútgjöldum spítalans sé miðað við árið 2007.

Setjum þetta í samhengi við það sem er að gerast. Við erum að horfa upp á að okkar góða heilbrigðisstarfsfólk flyst núna í miklum mæli til Noregs, Danmerkur og annarra landa. Í Noregi vantar 28 þús. hjúkrunarfræðinga til starfa á næstu 20 árum og þar bjóðast mun betri tekjur. Svo skoðar maður þær tillögur við fjárlagafrumvarpið sem verið er að ræða og ég kalla eftir því að fleiri stjórnarliðar komi í þessa umræðu og fjalli um það af hverju sú forgangsröðun er ofan á sem kemur meðal annars fram í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar þar sem er búið að gefa út í kiljuformi breytingartillögur meiri hluta sem virðast snúast að mestu leyti um að veita fjármuni í gæluverkefni hingað og þangað í kringum landið á meðan grunnstoðir samfélagsins eru sveltar, heilbrigðiskerfið þar á meðal. Þarf einhverjar aðrar fréttir úr heilbrigðiskerfinu en þær sem ómuðu í hádeginu?

Hér hefur verið komið inn á löggæslumálin. Af hverju eru grunnstoðir samfélagsins sveltar á kosningaári þegar gullvagninn er látinn fara hringinn í kringum landið og sinna alls kyns gæluverkefnum? Ef þetta eru ekki umræður sem skipta máli fyrir þjóðina alla veit ég ekki hvað á erindi. Og, hæstv. ráðherra, þetta á ekkert skylt við málþóf, þetta eru málefnalegar umræður (Forseti hringir.) um grunnstoðir samfélagsins. (Gripið fram í: Hvar eru þínar breytingartillögur?)