141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að þeir sem þiggja laun frá ríkinu geri sér grein fyrir því að það er engin hætta á því að ekki verði staðið við launagreiðslur þann 1. janúar. Það er nauðsynlegt að taka þetta fram vegna orða hæstv. atvinnuvegaráðherra. Þetta þarf að vera alveg skýrt.

Það er líka nauðsynlegt að átta sig á því að það er ástæða til þess að ræða þessi fjárlög. Nú hefur umræðan staðið tíu tímum lengur en hún gerði 2007. Eitt af því sem hér hefur verið rætt og hv. þm. Bjarni Benediktsson benti á er að forseti ASÍ hefur sagt: Þetta eru verðbólguhvetjandi fjárlög. Það þýðir að lán heimilanna í landinu munu hækka. Það þýðir að kaupmátturinn mun skerðast. Og ekki bara það, forseti ASÍ segir líka: Það er hætta á því að kjarasamningar náist ekki vegna þess að þetta frumvarp étur upp, eins og hann orðaði það, virðulegur forseti, svigrúm fyrirtækjanna til að standa undir launahækkunum. Þetta var mat forseta ASÍ.

Skyldi vera ástæða til að ræða slíkt frumvarp, virðulegi forseti? Já, það er ástæða til að ræða slíkt frumvarp og hvort sem sú umræða tekur fimm tímum lengur en hún gerði fyrir nokkrum árum eða tíu eða 12 eða 14 skiptir ekki máli. Það skiptir máli hver niðurstaðan verður. Hún skiptir máli fyrir heimilin í landinu, hún skiptir máli fyrir þá sem skulda peninga, að lánin hækki ekki og að hægt verði að standa við kjarasamninga. Þess vegna skiptir umræðan máli.

Ég skal þola að talað verði um málþóf. Það kemur mér ekkert við, en ég hef engar áhyggjur af því að þessi umræða klárist ekki í tæka tíð. Af því að við erum að ræða dagsetningar og hafa áhyggjur af launagreiðslum vil ég líka benda á, til að ekki sé bara farið í nýliðna sögu, að síðast (Forseti hringir.) þegar hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon var í ríkisstjórn, 1990, lauk 2. umr. um fjárlög 12. desember og 1. janúar árið eftir voru greidd út laun. (Gripið fram í.) Þetta var ómerkilegur áróður (Forseti hringir.) af hálfu hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar, (Forseti hringir.) að hræða fólki með því að ekki verði greidd út laun.