141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt að minna þingheim á það að skipulag þingstarfa hvað snertir fjárlög er með öðrum hætti en önnur mál. Hvenær umræða á að fara fram er skipulagt og sett niður í starfsáætlun þannig að menn geti gengið að því sem vísu hvenær 1. umr., 2. umr. og 3. umr. á að fara fram. Þannig eru fjárlögin ólík öllum öðrum þingmálum.

Ég átti satt að segja von á því að við þingmenn gætum komið okkur saman um að setja þann ramma utan um fleiri mál þannig að menn gætu í upphafi þingvetrar áttað sig á því hvenær 2. umr. um stór og mikilvæg mál, stjórnarskrármál, rammaáætlun o.s.frv., mundi eiga sér stað frekar en að tækjum skrefið til baka og settum fjárlög og umræðu um þau í fullkomið uppnám eins og nú hefur gerst. Að því leytinu til hefur Alþingi stigið skref til baka í uppbyggingarstarfi sínu.

Þegar maður gæti átt von á því að við gætum sett ramma utan um almenna umræðu um önnur stór mál erum við að setja umræðu um fjárlög í fullkomið uppnám. Þetta hefur ekki gerst áður á Íslandi og er fordæmalaust. Einungis á einum stað í heiminum gerist þetta og það er hjá hinni bandarísku teboðshreyfingu.

Nú erum við hins vegar stödd á þessum stað, ágæti þingheimur, og nú er mikilvægt fyrir okkur að við tökum okkur saman og breytum þessu. Ég minni í þessu sambandi á að engar breytingartillögur hafa enn þá litið dagsins ljós um þetta fjárlagafrumvarp. (Gripið fram í.) Þetta er besta fjárlagafrumvarp sem þessi ríkisstjórn hefur kynnt. Við höfum horfið frá því að þurfa að skera niður og erum byrjuð á uppbyggingarfasanum. Þá ákveður stjórnarandstaðan að grípa málið í málþóf. Þetta er með hreinum endemum, það eru hrein og klár vonbrigði fyrir Alþingi Íslendinga að stjórnarandstaðan skuli stíga þetta skref. Við erum að taka skref til baka í endurreisn virðingar Alþingis með framkomu stjórnarandstöðunnar að þessu leyti og það er miður, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)