141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég skora á fulltrúa þingflokkanna að setjast niður og semja um þinglok og leyfa okkur hinum þingmönnum að ræða mál sem brenna á fólkinu fyrir utan þennan þingsal. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ég er komin hingað upp til að ræða aukna misskiptingu og fátækt í samfélaginu. Nú er svo komið að Íbúðalánasjóður þolir ekki misskiptinguna í samfélaginu sem var búin til með fullri innstæðutryggingu og verðtryggingu. Eignafólkið greiðir upp lán sín hjá sjóðnum og nýtir sér betri kjör í bankakerfinu. Á sama tíma lendir eignalausa fólkið í vandræðum með að greiða af lánum og missir fasteignir sínar til sjóðsins vegna þess að laun hafa lækkað, kaupmáttur rýrnað og vegna verðtryggingarinnar.

Ört stækkandi hópur fólks býr við fátækt eftir hrun. Í hópi öryrkja, meðal eldri borgara og þeirra sem hafa verið lengi atvinnulausir eru margir svo illa staddir að þeir eiga hvorki í sig né á. Þessum hópum var lofað árið 2009 að skerðingin á bótum og lífeyri yrði bætt um leið og færi að birta. Nú fullyrða stjórnarliðar að það sjái til sólar en engar tillögur hafa komið fram um að bæta kjör þessara hópa. (Gripið fram í: Jú.) Þess í stað er lofað að hækka bætur barnafólks til að það geti haldið áfram að borga bönkunum. Ungt, skuldsett fólk með börn er svo sannarlega í slæmri fjárhagsstöðu en það eru líka allir þeir sem eru á lágum launum og þurfa að lifa á atvinnuleysisbótum eða lífeyri.

Frú forseti. Það á að vera forgangsmál að útrýma fátækt. Það er óásættanlegt (Forseti hringir.) að í jafnríku landi og Íslandi búi stöðugt fleiri við fátækt.