141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hér hefur nokkuð verið rætt um lengd fjárlagaumræðunnar en því miður ekki mikið um innihald hennar. Vonandi verður bætt úr því þegar líður á daginn. Staðreyndin er sú, eins og bent hefur verið á, að það er um fjölmargt að tala í þessari umræðu. Við í stjórnarandstöðunni höfum bent á marga galla, eyður og vankanta á því fjárlagafrumvarpi sem liggur fyrir en í raun hefur verið fátt um svör.

Við höfum velt fyrir okkur ýmsum þáttum í því sambandi. Ég nefni sem dæmi að ég hef ítrekað spurt um skiptingu þess fjár sem merkt er undir hina og þessa liði fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar. Þar fundust allt í einu peningar til að setja í ýmis verkefni sem hafa á sér grænan blæ, ef svo má segja. Nægir peningar til í það á sama tíma og menn eru í mestu vandræðum með að fjármagna margvíslega grundvallarþjónustu á vegum ríkisins. Það er dæmi um atriði sem við höfum nefnt. Við höfum líka kallað eftir nánari upplýsingum um hvað meiri hlutinn hyggist fyrir varðandi stóra fjárlagaliði eins og nefnt hefur verið hér, Íbúðalánasjóð, Landspítala – háskólasjúkrahús, LSR og fleiri liði þar sem um er að ræða milljarða eða tugi milljarða sem geta gert stöðu ríkissjóðs verri en lítur út í fjárlagaumræðunni þar sem hún er stödd núna.

Við höfum ítrekað kallað eftir því en fátt hefur verið um svör. Vonandi greiðist úr því þegar líður á umræðuna og vonandi koma svör við þeim athugasemdum og fyrirspurnum sem fram hafa komið þannig að fjárlaganefnd gefist kostur á að taka málið til meðferðar milli 2. og 3. umr. Ég er ekki úrkula vonar um að það geti gerst innan skamms en svo að til þess skapist forsendur (Forseti hringir.) þurfa margir þættir að skýrast verulega í umræðunni frá því sem nú er.