141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég held hér áfram umræðu um fjárlögin. Ég get reyndar ekki orða bundist varðandi uppákomuna áðan undir liðnum störf þingsins. Ég verð að segja eins og er að það var algjörlega makalaust að verða vitni að eina innleggi hæstv. atvinnu- og nýsköpunarráðherra í þessa mikilvægu umræðu. Ég gat þess sérstaklega í minni fyrstu ræðu að fjárlögin eru stærsta pólitíska plagg sem við þingmenn gætum rætt á þingi af hálfu ríkisstjórnar, sem segir fyrir um stefnu hennar í sjávarútvegsmálum, menntamálum, rannsóknarmálum, landbúnaðarmálum, iðnaðarmálum; stefnumótun ríkisstjórnarinnar birtist í fjárlögum. Hæstv. ráðherra kemur hingað upp undir liðnum störf þingsins — atvinnu- og nýsköpunarráðherra, búið að húrra öllum helstu atvinnuvegaráðuneytunum inn til hans — og hefur lítið til málanna að leggja.

Ég er hér með ræðulistann, frú forseti. Hann hefur hvorki rætt breytingartillögu frá meiri hluta fjárlaganefndar né tekið þátt í umræðum um það hvernig hann sjái framtíð sjávarútvegsins sem stendur frammi fyrir stórauknum álögum, grunnatvinnuvegur okkar Íslendinga, hvaða áhrif það hafi á stöðu okkar á erlendum mörkuðum að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geti ekki með sama hætti og áður markaðssett sig, tekið þátt í sömu grimmu samkeppninni, sem er gríðarleg við Norðmenn og við Rússa, þar sem stóraukinn þorskur er að koma inn á markaðinn frá Barentshafinu. Eftir að hafa lesið viðtöl við ýmsa forustumenn í sjávarútvegi er mér ljóst að Íslendingar munu standa frammi fyrir grimmari samkeppni á sviði sjávarútvegs en nokkru sinni fyrr. Hvað gerir ríkisstjórnin? Hún leggur stórauknar álögur á sjávarútveginn.

Við sjálfstæðismenn höfum margoft sagt: Við erum ekki á móti veiðileyfagjaldi, en bara að það séu hóflegar álögur þannig að sjávarútvegsfyrirtækin geti haldið áfram að fjárfesta. (SER: Nefndu tölur.) Að sjávarútvegsfyrirtækin — (SER: Nefndu tölur.) margoft verið rætt, (SER: Nefndu tölur.) margoft verið rætt. Hæstv. forseti, ég hvet hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson einfaldlega til að setja sig á mælendaskrá. (SER: Ég er búinn að því.) — Það er fínt, það er glæsilegt að setja sig á mælendaskrá (Gripið fram í.) því að ég held að það skipti miklu máli. Það er greinilegt að þetta mál er síður en svo útrætt þegar svona mörg frammíköll eru af hálfu hv. stjórnarþingmanna.

Þetta hefur margoft verið rætt af hálfu okkar sjálfstæðismanna og einnig af hálfu hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Það er ekki hlustað á það. Bara út með ykkur, segir ríkisstjórnin. Hún heldur áfram af fullum krafti að leggja þessar miklu álögur á sjávarútveginn og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra lætur svo ekki mikið fara fyrir sér í 2. umr. um fjárlögin, segir ekkert um hvaða áhrif þau muni hafa til lengri tíma litið á þróun sjávarútvegs, stöðu okkar í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem við stöndum frammi fyrir.

Eigum við að fara yfir landbúnaðarmálin? Ég vil biðja hæstv. forseta að setja mig á mælendaskrá nú þegar því að ég þarf að ræða ýmis mál er tengjast landbúnaðinum. Ég hef ekki fengið að heyra sjónarmið hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra þegar kemur að landbúnaðinum.

Eigum við að tala um iðnaðinn? Eigum við að tala um þær álögur sem felast í fjárlagafrumvarpinu á matvælaiðnaðinn í gegnum hinn svonefnda sykurskatt? Eigum við að fara að ræða það? Hvaða áhrif það hefur á verðlag í landinu og þar með talið lán heimilanna. Þá vil ég rifja upp þau orð sem höfð voru eftir hæstv. forseta ASÍ hér áðan. Hann sagði að grundvöllur kjarasamninga væri brostinn ef þessar spár allar mundu ganga eftir. Hvað þýðir það?

Það hefði verið fróðlegt að heyra það frá hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hvaða skoðun hann hefur á áhrifum hækkunar á sykri, á álögum á iðnaðinn, á eflingu iðnaðarins til lengri og til skemmri tíma. Við fáum ekki að heyra bofs frá hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra annað en eitthvert tuldur sem margbúið er að reka ofan í hann og á sér enga stoð í raunveruleikanum.

Það er ekki þannig að ekki verði hægt að afgreiða fjárlög. Mikil ósköp. Auðvitað verður hægt að ræða og afgreiða fjárlög. Svo kemur hæstv. ráðherra hingað upp undir liðnum störf þingsins og segir að þetta sé einsdæmi. Það er einsdæmi í sögunni að stjórnarandstaðan sem við erum í núna búi við ríkisstjórn eins og nú situr á Íslandi. Hægt er að tiltaka mörg atriði sem sýna hversu óforskömmuð ríkisstjórnin er, ekki eingöngu í sambandi við fjárlögin, hægt er að tína til ýmis stórmerkileg mál, samt ótrúlega vond mál. Nefna má að fyrstu ógildu kosningarnar í landinu voru á ábyrgð þessarar vinstri stjórnar, svo að ég tali nú ekki um fyrstu pólitísku réttarhöldin.

Við erum ekki að ræða allt þetta en það undirstrikar engu að síður vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar. Talandi um reynslu þá man ég að það brást ekki að í hvert einasta skipti sem 2. umr. fjárlaga stóð yfir voru fagráðherrar kallaðir út, helst að nóttu til, að frumkvæði hæstv. innanríkisráðherra núverandi eða að frumkvæði hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, mitt um nótt. Ekki ætla ég að fara að ræða sérstaklega við hæstv. menntamálaráðherra, svo að dæmi sé tekið, sem er hér iðulega í salnum til að geta svarað spurningum. Aðrir ráðherrar mættu þá frekar taka það sér til fyrirmyndar að sá ráðherra er meira hér í þinginu og reiðubúinn til að svara ýmsum spurningum en þeir ráðherrar sem bara koma hingað undir liðnum störf þingsins. (Gripið fram í: Eða formenn stjórnarflokkanna.) Það eru nú einu sinni — já, eða formenn stjórnarflokkanna. Forsætisráðherra, það væri nú fínt ef hann mundi láta sjá sig endrum og sinnum fyrst þessi fjárlög eru svona merkileg að þeirra mati.

Ég hvet hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson til að setja sig á mælendaskrá því það eru ýmis málefni sem hægt er að ræða, meðal annars um eflingu og þróun heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Það hefði verið forvitnilegt að fá sjónarmið hæstv. velferðarráðherra, sem er yfirmaður heilbrigðismála, hér við 2. umr. fjárlaga. Ég fer aftur yfir listann, frú forseti, og sé að ekki einn einasti ráðherra hefur talað við 2. umr. fjárlaga, ekki einu sinni komið upp og svarað spurningum sem ég veit, eftir að hafa hlustað á margar ræður, að hefur verið beint til þeirra. Ég vil gjarnan forvitnast hjá hæstv. forseta hvort það verður raunin, eins og oft hefur tíðkast í gegnum tíðina, að hæstv. ráðherrar komi þá undir lok 2. umr. fjárlaga og svari ýmsum spurningum sem til þeirra hefur verið beint. Það væri mjög æskilegt að vita hvort menn ætluðu líka að bregða út af þeim vana. (Gripið fram í.) Það væri æskilegt, eftir að ég hef lokið máli mínu, að fá þau svör frá hæstv. forsætisráðherra.

Hægt er að taka margt til, en ég ætla sérstaklega að ræða 6. gr. heimild í fjárlögum. Af hverju geri ég það? Jú, meðal annars til að benda á þau málefni sem tengjast St. Jósefsspítala. Þessi ríkisstjórn, undir forustu Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra, undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur, og með stuðningi frá þingmönnum stjórnarflokkanna, eins og hv. þm. Lúðvík Geirssyni, hefur stuðlað að því að starfsemin á St. Jósefsspítala var lögð niður. Ég var tilbúin til að fara í hagræðingu. Ég var tilbúin til að stuðla að því að samþykkja hagræðingu í rekstri ef menn sæju virkilega fram á að úr yrði hagræðing, (Gripið fram í.) að störf mundu ekki tapast og menn sæju fram á að ákveðin starfsemi, sem væri hagkvæm, yrði á St. Jósefsspítala. Okkur var lofað öllu fögru, vorum tilbúin til að taka þátt í þessu átaki. En viti menn, ekki liðu nema nokkrar vikur og þá var hurðum læst á St. Jósefsspítala og nú er húsið eins og draugahús í bænum. Og það er ekkert frumkvæði af hálfu þeirra flokka, sem stjórna mínum heimabæ, Hafnarfirði, eða ríkisstjórnarinnar, undir forustu hæstv. fjármálaráðherra eða velferðarráðherra, að leggja fram tillögur um hvernig hægt er að nýta þetta merkilega hús.

Það er brýnt fyrir okkur Hafnfirðinga að tekið verði á málum St. Jósefsspítala, menn eru löngu búnir að sjá það. Biðlistar hafa lengst. Þjónustan sem sinnt var á St. Jósefsspítala snerti fyrst og fremst konur, þar var sérfræðiþekkingin að byggjast upp. Nú sjáum við að í kjölfar ákvörðunar hæstv. velferðarráðherra hafa biðlistar lengst á því sviði læknisþjónustunnar sem konur nýta sér helst. (Gripið fram í.) Þetta er ein af afleiðingum vondra fjárlaga fyrri tíðar og mér sýnist framhald vera á í þessum fjárlögum.