141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ræðuna. Hún fór yfir málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Ég og hv. þingmaður höfum verið baráttukonur fyrir því að þær aðgerðir og sú starfsemi sem þar hefur farið fram undanfarið héldi velli en lenti ekki undir niðurskurðarhnífnum sem ríkisstjórnin beitti í Hafnarfirði. Ég fór yfir það í ræðu minni í gær, að þetta væri svolítið skrýtið. Ég kallaði eftir krötunum í Hafnarfirði og ég kallaði eftir krötunum í ríkisstjórninni vegna þess að búið væri að slá þessa starfsemi af.

Hv. þingmaður minntist á 6. gr. heimildina. Hér stendur hvorki meira né minna en að leitað sé eftir heimildum ríkisstjórnarinnar til að selja eignarhlut ríkisins í St. Jósefsspítala. Ekki er nóg með að reksturinn sé lagður niður heldur á bara að loka þessu; lok, lok og læs, skulum við segja. Þar með verða fingraför ríkisins afmáð af þeirri góðu starfsemi sem þarna var rekin og líka úr húsnæðinu. Þetta voru nú öll loforðin. Fyrst átti að skera niður nokkrar deildir og hagræða, svo var þetta smám saman allt sett inn á Landspítalann og nú er verið að afmá allan ríkisrekstur í þessu góða húsi. Þetta var innskot.

Þingmaðurinn fór aðeins yfir þá tekjuöflunar- og fjárfestingarleið sem ríkisstjórnin kynnti á dögunum. Hér eru gerðar tillögur um miklar úrbætur og mikið lagt í græna hagkerfið og annað í breytingartillögum meiri hlutans. Finnst þingmanninum rökin ekki léttvæg vegna þess að í tillögu eftir tillögu kemur fram þessi setning, með leyfi forseta:

„Þar sem þessi tekjuöflun felur í sér nokkra óvissu, svo sem um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og fjármálafyrirtækja, er (Forseti hringir.) gert ráð fyrir að framlögin geti tekið breytingum við endurskoðun fyrir fjárlög hvers árs.“

Er þetta ekki óklár fjármögnun?