141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Nú er 2. umr. fjárlaga á fjórða degi. Ég tók eftir því að á fyrsta og öðrum degi umræðunnar var hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson á mælendaskrá báða dagana. Hann var færður reglulega niður á mælendaskránni eftir því sem gert er en hékk inni til að vera með nafnið sitt á skránni, svona til að einhver sómi væri að mælendaskrá Sjálfstæðisflokksins, þ.e. að lengdinni til.

Nú sé ég að prófessor í hagfræði og þingmaður Norðausturkjördæmis hefur verið á ferðalagi um Norðausturland að bregða birtu á framtíð Norðurlands á þeim sömu dögum, þ.e. fimmtudaginn 29. og föstudaginn 30. nóvember, og var með fundarhöld bæði í Hrísey, á Akureyri, í Eyjafjarðarsveit og Grímsey. Mig langaði að vita hvort það er sami maðurinn og hefur jafnframt verið á mælendaskrá í þinginu og þá haldið henni vakandi og látið færa sig reglulega niður. Eða hvort um annan mann er að ræða og þá, virðulegi forseti, hvort það sé ekki eitthvað sem forsætisnefnd og forseti þarf að taka upp, að þingmenn sem eru ekki í húsi, ekki einu sinni á svæðinu heldur í öðrum landshluta, séu á mælendaskrá í umræðu á þinginu eingöngu til að halda henni sem lengstri.