141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:07]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hrósar sér af hagfræðikunnáttu sinni og vek ég þó athygli hans á því að sá sem hér stendur hefur fjallað um þau efni og önnur á löngum fjölmiðlaferli og er ágætlega inni í hagfræði. Hefur t.d. fylgst með hagfræðikenningum sjálfstæðismanna sem gjörsamlega fóru á hvolf og hrundu með óhugnanlega ógeðfelldum afleiðingum fyrir örfáum árum og við erum enn þá að bíta úr nálinni með.

Hér nefnir hv. þingmaður örfá hundruð milljóna, á meðan ég hef heyrt þá tillögu sjálfstæðismanna að þeir vilji skera niður sem nemur á að giska um 80 milljörðum kr. til þess að slá á vaxtagjöld ríkissjóðs og annað í þeim dúr. Fá hundruð milljóna duga skammt upp í þá upphæð. Hvar á raunverulega að skera niður? Hvar ætlar Sjálfstæðisflokkurinn, ef svo óheppilega vill til að hann komist í stjórn á næstu áratugum, (Forseti hringir.) hvar ætlar hann að skera rækilega niður? Í hvaða flokkum?