141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:09]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hagfræðingar. (Gripið fram í: Hagfræði er sagnfræði.) Nú ætla ég aðeins að blanda mér, virðulegi forseti, inn í þessa umræðu um hagfræðina. Mér er það minnisstætt þegar verið var að ræða Icesave-málið á sínum tíma og kallaðir voru til hagfræðingar, þeir eru nú í öllum flokkum hygg ég. Ég náði að sitja og hlýða á samræður þeirra um Icesave-frumvarpið og möguleika þess. Ég held að hagfræði sé eins og aðrar fræðigreinar, þannig að vissulega geta menn dregið ýmsar ályktanir og þær geta verið jafnfjölbreytilegar og fræðimennirnir eru margir. Hins vegar eru það grunngögnin og grunnforsendurnar sem hagfræðingarnir allir eru að vinna út frá. Ég ætla að hætta mér út í þessa umræðu þrátt fyrir að vera ekki með BA eða masterspróf í hagfræði.

Þegar maður skoðar vaxtagjöld ríkissjóðs kemur í ljós að á árinu 2013 er gert ráð fyrir því að vaxtagjöld ríkissjóðs, að frádregnum vaxtatekjum, verði 63 milljarðar. Á árinu 2012 er gert ráð fyrir því að það endi í 55 milljörðum og heildarvaxtagjöldin séu þá 84 milljarðar. Þá hlýtur maður að segja að allt sem við erum að eyða fyrir þessa 84 milljarða erum við þá í rauninni að borga vaxtagjöld af, höfuðstóllinn, þetta eru vaxtagjöldin.

Þá hlýtur maður að velta fyrir sér, þegar verið er að ráðast í ákveðnar framkvæmdir og verið að setja fjármagn í ákveðin verkefni, að það hljóti að vera forsenda í fyrsta lagi að annaðhvort séu þau hluti af grunnstoðunum, heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu eða öðru, eða þá að um sé að ræða verkefni sem skili meiri hagvexti en vaxtabyrðin er. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þær tillögur meiri hlutans sem hafa verið gefnar hér út í kiljuformi, séu (Forseti hringir.) til þess fallnar að stuðla að auknum hagvexti í landinu eða umfram það sem vaxtabyrðin á þessum fjárhæðum er.