141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Já, sá sem er ekki hagfræðingur ætlar að halda áfram að hætta sér út á þessa braut að ræða um málefni hagfræðinnar. Ég er nú svo mikill einfeldningur að halda að ef maður rekur fyrirtæki, sem ríkissjóður er — við verðum að vísu að taka ákveðin verk út fyrir sviga sem eru heilbrigðiskerfið, menntakerfið og félagslegu grunnstoðirnar. Þegar komið er að öðrum verkefnum og stefnumótandi ákvörðunum hljótum við að spyrja okkur að því — ef maður rekur fyrirtæki sem glímir við mikla vaxtabyrði hljóta menn að velta því fyrir sér hvort það sé skynsamlegt að eyða fjármununum í eitthvað sem skilar auknum tekjum inn til fyrirtækisins, til að mynda að kaupa nýja framleiðslulínu eða eitthvað slíkt, eða þá að eyða fjármununum í það að mála þakið á húsunum. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég sakna þess að þessar tillögur væru annaðhvort að setja meira í velferðarkerfið eða setja fjármunina (Forseti hringir.) í verkefni sem fælu í sér, þá eins og í fyrirtæki, að kaupa nýja framleiðslulínu.

Ég hef á tilfinningunni, og það er kannski (Forseti hringir.) einfeldni mín, að það sé ekki mikil hagfræðileg hugsun á bak við þessar tillögur. Hv. þingmaður er hagfræðingur (Forseti hringir.) og getur kannski komið inn á það.