141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:16]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Herra forseti. Við erum í umræðu um fjárlagafrumvarp til ársins 2013. — Virðulegi forseti, ég hef á tilfinningunni að fleiri en einn fundur sé í salnum. (Forseti hringir.)

(Forseti (KLM): Ég vil biðja þingmenn í sal að gefa ræðumanni hljóð til að flytja sitt mál. Má ég biðja þingmenn um að hafa hljóð í þingsal.)

Herra forseti. Ég held þá áfram máli mínu og geri ráð fyrir að mér verði bætt upp sú mínúta sem ég tapaði vegna annars fundar sem var hér í salnum.

Herra forseti. Ég flutti ræðu í gær þar sem ég fjallaði almennt um áhrif fjárlagafrumvarpsins á hinar dreifðu byggðir landsins og lýsti miklum áhyggjum af því hvernig ekki er komið til móts við vanda margra af strjálbýlli byggðunum. Ég sagði líka að mér væru hugleikin töluvert mörg önnur mál sem tengdust frumvarpinu. Fjárlagafrumvarpið sjálft er auðvitað stærsta mál hverrar ríkisstjórnar, er hvað mest stefnumótandi plagg stjórnvalda á hverjum tíma og snýst um hvernig við ætlum að afla tekna fyrir ríkissjóð og útdeila síðan þeim tekjum áfram til þjóðarinnar, hvernig við gerum það, um hvaða fjárhæðir er að ræða og svo framvegis.

Þess vegna verð ég að segja, áður en ég fer út í fleiri mál sem tengjast fjárlagafrumvarpinu, að það er óneitanlega ekki hægt að segja annað en að það fjúki aðeins í mann, svo ekki sé fastar að orði kveðið, þegar hæstv. ráðherrar koma hér upp áður en umræða um fjárlagafrumvarpið hefst í dag og finna að því að hv. þingmenn skuli ætla að fjalla á málefnalegan hátt um frumvarpið. Ég get sagt það við herra forseta að ég mun ekki tvítaka hér ræður eða eitthvað slíkt. Þetta snýst einfaldlega um að fjalla um þau grundvallarmál samtímans sem fjárlögin eru og hvernig fjármunum er úthlutað. Það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að sá sem hér standi tvítaki sig eða verði í einhverjum leik sem tengist fjárlagafrumvarpinu.

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að koma inn á sem flest af málum sem ég átti eftir og vitnaði til í gær. Ég ætla að byrja þar sem umræður enduðu hér áðan í andsvörum við hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson við stjórnarliða og sjálfan mig, um stöðu ríkissjóðs almennt. Ef við skoðum vaxtagjöld ríkissjóðs og þróun þeirra er staðan sú að vaxtagjöld ríkissjóðs á þessu ári eru um 84 milljarðar. Ríkissjóður Íslands mun greiða 84 milljarða í vexti árið 2013. Á þessu ári er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði um 76 milljarðar í vexti. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að árið 2013 verði vaxtatekjur 20 milljarðar og vaxtajöfnuður er þá rúmir 63 milljarðar á árinu 2013.

Virðulegi forseti. Þetta segir okkur að ríkissjóður Ísland er með gríðarlega háar fjárhæðir að láni og greiðir vexti af þeim. Við verðum að skoða allar fjárlagatillögur og forgangsröðun í ríkisfjármálum út frá þeirri staðreynd að þeir fjármunir sem við erum að forgangsraða, þeir fjármunir sem ríkissjóður veitir, eru að stórum hluta teknir að láni. Þá verðum við að velta fyrir okkur: Hvernig veitum við fjármagnið áfram og til hvaða verkefna? Ég vil skipta þessu í tvo þætti. Annars vegar grunnþjónustu hvers samfélags, svo sem heilbrigðismál, menntamál og annað því um líkt, þar sem við veitum fjármuni til að tryggja grunnþjónustu samfélagsins. Síðan eru það verkefni sem ríkissjóður setur fjármuni í, ýmist til þess að stuðla að bættri umgjörð atvinnulífs — það er hægt að gera það bæði með skattkerfinu og fleiri aðgerðum — til sóknar í atvinnumálum og svo framvegis. Þá verðum við að horfa á það út frá því sama sjónarhorni að þeir fjármunir sem við erum að nota eru að miklu leyti fengnir að láni. Við verðum að vega þetta og meta, stilla þessu upp hvert á móti öðru, hvort við setjum fjármuni í þessi verkefni eða höldum áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það í ræðu minni í gær að mér finnst fjármunum ekki nægilega vel forgangsraðað í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar. Ég hefði viljað sjá aukið fjármagn til heilbrigðis- og velferðarmála, svo dæmi sé tekið. Heilbrigðisþjónustan hefur tekið á sig gríðarlegan niðurskurð á undanförnum árum og við blasir mikill flótti heilbrigðismenntaðs starfsfólks frá landinu.

Núna síðast í hádeginu vorum við að fá fregnir af því að á þessu ári hafi 254 hjúkrunarfræðingar í 193 stöðugildum sagt upp störfum á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og þessar uppsagnir munu taka gildi 1. mars 2013 ef ekki verður gripið inn í. Staðreyndin er sú að á Landspítalanum í dag starfa um 1.350 hjúkrunarfræðingar. Það er ekkert óeðlilegt við það að þessir einstaklingar horfi í kringum sig og skoði möguleikana á því að leita starfa erlendis. Ég kom inn á það í morgun, þegar hæstv. ráðherra og formaður Vinstri grænna fann að því að þingmenn væru að tjá sig um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og fjárlagafrumvarpið, að í Noregi er slíkur skortur á hjúkrunarfræðingum að þeir gætu tekið við öllum hjúkrunarfræðingum frá Íslandi á einu bretti. Það vantar 2–3 þús. hjúkrunarfræðinga til starfa í Noregi og gert er ráð fyrir því að það muni vanta 28 þús. hjúkrunarfræðinga til starfa þar á næstu 20 árum.

Á sama tíma horfum við upp á það hér heima að færri hjúkrunarfræðingar útskrifast en þarf til starfa í íslenska heilbrigðiskerfinu og það er mikið áhyggjuefni. Ef við tökum þennan hóp heilbrigðisstarfsmanna sem dæmi, af því að hann hefur verið töluvert í umræðunni að undanförnu, og skoðum launakjör hjúkrunarfræðinga er staðreyndin sú að fari þessi starfsstétt til vinnu í Noregi þar sem norska krónan er yfir 20 á móti íslensku krónunni í dag þarf norska krónan að fara niður í 13 krónur til að launin þar séu þau sömu og á Íslandi. Það er ekki nema von að formaður Félags hjúkrunarfræðinga, forstjóri Landspítalans og fleiri hafi af þessu þungar áhyggjur og sendi frá sér yfirlýsingar nú við vinnslu fjárlagafrumvarpsins.

Staðreyndin er auðvitað sú að við erum búin að búa þannig að heilbrigðiskerfinu að við erum komin alveg inn að beini. Það blasir við, hægt er að lesa það út úr fréttum og það er hægt að skoða hver þróunin er. Það verður mikil mannekla í heilbrigðiskerfinu ef við grípum ekki til róttækra aðgerða.

Þá erum við komin að því í hvað sé skynsamlegt að veita fjármuni. Er skynsamlegt við þessar aðstæður að veita fjármuni til verkefna sem hér hafa verið nefnd sem ekki er útlit fyrir að muni skapa auknar tekjur fyrir ríkissjóð á næstu árum? Mörg þeirra verkefna sem ríkisstjórnin gerir hér tillögur um að setja fjármuni í svo milljörðum skiptir eru ekki þess eðlis. Þess vegna talar maður um gullvagninn. Þetta lítur út eins og gullvagn sé að fara hringinn í kringum landið og veita smávegis peninga hér og þar á meðan grunnstoðirnar eru sveltar. Er skynsamlegt að ráðstafa fjármunum þannig þegar við horfum upp á flótta heilbrigðisstarfsmanna úr landi? Er þetta skynsamleg forgangsröðun á fjármunum ríkissjóðs?

Nei. Þetta er ekki skynsamleg forgangsröðun á fjármunum ríkissjóðs og við eigum að skoða grunnstoðirnar. Hér hefur verið komið inn á löggæslumálin. Það eru engar tillögur um aukningu fjármuna til löggæslumála. Samt æpa löggæslustofnanirnar, lögreglan vítt og breitt um landið og lögregluembættin, og kalla eftir því að við þingmenn sem höfum fjárveitingavaldið hlýðum á þessar raddir og bregðumst við. Er tekið á þessu í tillögum meiri hlutans? Nei, það er ekki gert. Hins vegar eru enn og aftur tillögur um að veita fjármuni til ýmissa verkefna sem svo sannarlega eru brýn, sem svo sannarlega væri gaman að geta veitt fjármuni til, en því miður eigum við ekki þá fjármuni. Ef við ætlum að veita fé í verkefni sem ekki teljast til grunnstoða eins og heilbrigðisþjónusta, menntakerfi, löggæslumál og fleira sem er grunnur hvers samfélags verðum við að spyrja okkur: Hverju skilar þessi fjárveiting ríkissjóði til baka? Við verðum að horfa á það eins og gert er í fyrirtækjarekstri.

Ef við ætlum að setja 500 milljónir í ákveðið afmarkað verkefni sem ekki flokkast undir grunnþjónustu hvers samfélags eins og heilbrigðisþjónustu verðum við að spyrja okkur að því: Á hve löngum tíma skilar þessi fjárfesting sér til baka fyrir ríkissjóð? Hér er nefnd sýning á náttúruminjum í Perlunni. Vissulega væri gaman að geta sett upp öfluga sýningu á náttúruminjum Íslands sem hafa verið á miklum hrakhólum alveg frá því að lög um Náttúruminjasafn Íslands voru sett fyrir nokkrum árum. Það væri gaman að geta sýnt íslenskri náttúru, þessari glæsilegu náttúru sem við eigum og hundruð þúsundir erlendra ferðamanna heimsækja á hverju ári, þá virðingu að setja upp safn. En mun það skila sér til baka? Munu 500 milljónir í náttúruminjasýningu skila sér til baka í auknum tekjum fyrir ríkissjóð? Með hvaða hætti? Ég held að það muni ekki gera það.

Svona verðum við að taka hverja og eina tillögu og vega og meta. Þetta er það sem ég hef áhyggjur af þegar ég sé í frumvarpinu forgangsröðun og sýn ríkisstjórnarinnar. Sá sem hér stendur er ekki hagfræðingur og ætlar ekki að reyna að halda því fram að hann hafi einhverjar ofurþekkingu á hagfræði, en þetta eru bara mjög einföld lögmál. Þetta er eins og að reka lítið fyrirtæki, sem ríkissjóður er í raun, ríkissjóður Íslands er lítið fyrirtæki samanborið við stórfyrirtæki á heimsmarkaði. Það verður að huga að því hvernig maður veitir fjármuni og hvernig þeir skila sem mestu til baka. Taka síðan út fyrir sviga grunnstoðir samfélagsins og setja þær í algjöran forgang. Það sem er síðan umfram verðum við að skoða út frá þessu. Það er ekki skynsamlegt að mála þakið og veggina á húsinu þegar við höfum ekki tekjur til þess að viðhalda framleiðslulínunum. Það er staðreynd. Þess vegna lítur þetta út eins og kosningavagn, gullvagn ríkisstjórnarinnar sem er verið að keyra með hringinn í kringum landið og dreifa úr honum örlitlu af gulli á hverjum stað og svo eru grunnstoðirnar, stóru mikilvægu verkin eins og heilbrigðiskerfið, algjörlega sveltar.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki sú forgangsröðun sem við eigum að viðhafa í samfélagi sem á að geta, með öllum sínum auðlindum og tekjumöguleikum, haldið uppi sómasamlegri grunnþjónustu á öllum sviðum, sómasamlegri heilbrigðisþjónustu og svo framvegis.

Þegar rýnt er í tillögur meiri hlutans er auðvitað mörg skynsamleg verkefni þar að finna og ekki hefur skort á að ég sé tilbúinn til að viðurkenna slíkt. Veittir eru umtalsverðir fjármunir til framhaldsskólanna enda hafa þeir verið sveltir á undanförnum árum og veittir fjármunir til ýmissa verkefna sem munu skila sér til baka fyrir ríkissjóð.

Ég ætla að nefna eitt lítið dæmi sem mörgum kann að finnast að skipti ekki máli, en ég ætla að rökstyðja það hvernig sú fjárveiting mun skila sér til baka í ríkissjóð og hversu óskynsamlegt var að skera niður í þeim málaflokki, þ.e. refa- og minkaveiðum. Töluvert hefur verið fjallað um þetta og reyndar hafa flestallir fulltrúar landsbyggðarsveitarfélaga sem hafa komið fyrir fjárlaganefnd gert athugasemdir við þann niðurskurð og óskað eftir því að gripið yrði til aðgerða og ríkissjóður kæmi á ný með mótframlag til eyðingar á ref og mink. Margir velta því fyrir sér: Er þetta þá ekki gæluverkefni? Er þetta ekki svipað og önnur gæluverkefni ríkisstjórnarinnar?

Þegar þessi fjárveiting var skorin niður á sínum tíma af hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra Svandísi Svavarsdóttur, sem þá var umhverfisráðherra, var bent á að þetta mundi að öllum líkindum hafa í för með sér að tekjur ríkissjóðs mundu minnka. Af hverju? Þær fjárveitingar sem ríkissjóður veitti í þetta voru óverulegar, þær voru ekki greiddar út nema með mótframlögum frá sveitarfélögunum, sveitarfélögin urðu að greiða mótframlag á móti greiðslum ríkissjóðs. Síðan var greiddur virðisaukaskattur af refaveiðum til ríkissjóðs og í flestum tilfellum var það svo að mótframlag sveitarfélaganna var miklu hærra en ríkissjóðs og virðisaukaskatturinn af þessu kom til baka í ríkissjóð. Margir vöruðu við því að þetta mundi hafa í för með sér að sveitarfélögin mundu skera niður fjárveitingar til þessa málaflokks, sérstaklega þar sem mikið hefði verið um sameiningar sveitarfélaga og þéttbýliskjarnarnir hefðu kannski ekki mikinn skilning á mikilvægi þess að taka á þessum málum.

Nú er komin inn tillaga um auknar fjárveitingar til þessa málaflokks. Ég vil hrósa fjárlaganefnd og formanni fjárlaganefndar fyrir að hafa tekið á þessum vanda, þó fyrr hefði verið. Hv. þm. Björn Valur Gíslason á hrós skilið fyrir að hafa tekið á þessu máli og fjárlaganefnd öll og veitt fjármuni til veiðanna, því að margir hafa bent á að á mörgum svæðum þar sem ref hefur fjölgað hefur fuglalíf farið mjög illa út úr því. Við sjáum líka meira af dýrbitnu fé koma af fjalli sem er tjón af, meðal annars fyrir ríkissjóð vegna þess að töluvert er flutt út af þessum hágæðaafurðum og það sem refurinn étur er ekki hægt að flytja út og ekki getum við snætt það hér.

En ef þessi málaflokkur er sérstaklega tekinn fyrir þá hefur legið ljóst fyrir töluvert lengi að það var óskynsamleg ákvörðun á sínum tíma að hætta fjárveitingum til refaveiða. Hæstv. umhverfisráðherra virðist þó ekki hafa skilning á þessu máli og hefur verið í forustu fyrir ríkisstjórnina í málinu og viljað ganga nánast alla leið og friða refinn. Hæstv. umhverfisráðherra sagði í umræðum fyrir ekki löngu síðan að ekki væri hægt að meta hvert fjárhagslegt tjón af fjölgun refs væri, rannsaka þyrfti það betur og hún hefði í hyggju að skipa sérstaka nefnd sem ætti að fara betur yfir málið og skoða það og kryfja til mergjar hvort fjölgun refs hafi valdið einhverju tjóni eða skaða.

Staðreyndin er sú að refastofninn hefur stækkað mikið á undanförnum árum. Hann var í kringum 1980 um 1 þús. dýr sem ég held að sé of lítil stofnstærð og er í dag kominn kannski upp í 12–14 þús. dýr. Það er gríðarlegt magn sem þessi dýr éta og mjög mikilvægt að halda stofnstærðinni innan eðlilegra marka. Með því mundum við ná meiri ágóða. Í fyrsta lagi er þetta ekki hátt framlag, um 30 millj. kr. til refaveiða með mótframlögum frá sveitarfélögunum, og virðisaukaskatturinn sem kemur til baka er að öllum líkindum hærri en sem þessu nemur því að sveitarfélögin eru yfirleitt með hærra mótframlag. Síðan er það tekjuágóðinn fyrir þjóðarbúið í heild af fjölgun fugla, af færra dýrbitnu fé og svo framvegis. Ég held að það hafi legið nokkuð ljóst fyrir að skynsemin mundi sigra öfgana í þessu máli eins og svo mörgum öðrum.

Ég skrifaði nýlega grein sem birtist í fjölmiðlum um þetta mál og endaði greinina á þessum orðum, með leyfi herra forseta:

„Á meðan öfgarnar ráða för þá fjölgar refnum áfram, fugli fækkar og dýrbitið fé verður algengari sjón. Skynsemin mun sigra öfgana í þessu líkt og öðru, það er spurning hvort það gerist við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2013 eða með alþingiskosningum í apríl á næsta ári.“

Hið jákvæða hefur gerst að skynsemin hefur sigrað öfgarnar í þessu máli fyrir tilstilli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar og fleiri hv. þingmanna meiri hlutans í fjárlaganefnd, sem tekið hafa á öfgunum hjá hæstv. umhverfisráðherra í þessu máli. Ég held að það væri mjög skynsamlegt og jákvætt ef hv. þingmenn mundu taka á öfgunum í fleiri málum en þessu. Þá er ég sannfærður um að til að mynda (Forseti hringir.) hagvaxtarspár þjóðarinnar mundu batna svo um munar.