141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áður en ég kem að spurningu hv. þingmanns vil ég segja að þegar hv. þingmaður mærir árangur sitjandi ríkisstjórnar hefði hann átt að hlusta vel á upphaf ræðunnar hjá þeim sem hér stendur. Þar var talað um að áætlað er að vaxtagjöld ríkissjóðs að verði 84 milljarðar á árinu 2013. Gert ráð fyrir að þeir verði 76 milljarðar á árinu 2012. Þeir voru 68 á árinu 2010 og 65 árið 2011 þannig að vaxtagjöld ríkissjóðs eru að hækka. Það er gert ráð fyrir því að það verði hækkun á vaxtagjöldum ríkissjóðs sem nemur um 8 milljörðum á milli áranna 2012 og 2013. (Gripið fram í.)

Í ljósi þess verðum við að setja það í samhengi við það þegar menn tala um verkefni sem verið er að ráðast í. Ég kom inn á ýmis verkefni í ræðu minni sem verið er að ráðast í og ég tel að séu ekki hluti af grunnstoðum samfélagsins, þ.e. heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, löggæslunni, (Gripið fram í.) — ég er að koma inn á það, hv. þingmaður ef ég gæti fengið orðið — og ekki heldur verkefni sem munu skila hagvexti fyrir ríkissjóð á næstunni. Ég nefni til að mynda íslenska upplýsingasamfélagið, Netríkið ísland, grænkun ríkisstofnana og Náttúruminjasafn Íslands, hálfur milljarður. (Gripið fram í.) Við horfum upp á verkefni koma inn og auknir fjármunir fara til verkefna eins og lista- og menningarsjóða sem ég held að muni ekki skila sér á næstunni. (Gripið fram í.) Ég geri fastlega ráð fyrir því að íbúar Suður- og Norðausturkjördæmis verði jafngrimmir í að sækja þá fjármuni eins og aðrir. Heilt yfir erum við að (Forseti hringir.) tala um verkefni, án þess að ég sé að kjördæmaskipta þeim því það mun í sumum tilfellum gerast síðar, sem munu ekki (Forseti hringir.) skila sér í hagvextinum á næstunni.