141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram að ræða frumvarp til fjárlaga 2013. Það er augljóst að stjórnarliðar eru orðnir frekar órólegir yfir þessu máli en það verður að hafa það, því mikið er órætt og ég ætla í þessari ræðu minni að fjalla örlítið um ríkisábyrgðir og áhættuskuldbindingar.

Helstu beinu skuldbindingar sem ríkissjóður stendur frammi fyrir eru að sjálfsögðu skuldastaða hans og lífeyrisskuldbindingar, sem eru stærsta óbeina skuldbindingin sem snýr að ríkisábyrgðum. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur farið vel yfir það hvað áætlaðar ríkisábyrgðir af lífeyriskerfi opinberra starfsmanna eru miklar og talar þingmaðurinn þar um 400 milljarða. Þá skulum við snúa okkur að hinum hluta þessara skuldbindinga ríkissjóðs sem er skuldastaða ríkisins og skuldir ríkissjóðs sjálfs.

Það er talið og áætlað að heildarskuldir ríkissjóðs nú í árslok 2012 séu tæpir 1.500 milljarðar kr., þar af eru áætlaðar innlendar skuldir 1.070 milljarðar kr. og erlendar skuldir um 430 milljarðar kr. Það er áhætta til staðar, því ef ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hækkar mun það leiða til hærri vaxtakostnaðar. Þess ber að geta að hér í þessu fjárlagafrumvarpi er ríkissjóður að borga tæpa 90 milljarða bara í vexti á þessu ári og þá, virðulegi forseti, erum við alls ekki með Icesave-vextina inni í því. Ég man nú ekki lengur upphæðirnar varðandi Icesave-vextina, mig minnir að það hafi verið 30–40 milljarðar á ári, en við þingmenn Framsóknarflokksins og landsmenn komum í veg fyrir að sú ríkisstjórn sem nú situr og þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, gæti komið þeim skuldum líka yfir á herðar íslensku þjóðarinnar.

Ég hef alltaf haft áhyggjur af því hversu iðinn og duglegur hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefur verið við að dæla út ríkisábyrgðum á hina ýmsu hluti. Ríkisábyrgð verður einungis sett á samkvæmt lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, en staða ríkisábyrgða 30. júní síðastliðinn nam um 1.341 milljarði kr. og hafði þá hækkað um 134 milljarða á milli ára.

Það eru útskýringar í fjárlagafrumvarpinu sjálfu á því hvers vegna þessar hækkanir hafi orðið og talið er að hækkunin felist aðallega í yfirtöku ríkissjóðs á ábyrgðarskuldbindingum sem Reykjavíkurborg og Akureyrarbær voru með þegar þessi bæjarfélög seldu Landsvirkjun til ríkisins í ársbyrjun 2012. Þessi bæjarfélög voru ábyrgðaraðilar að 50% af skuldbindingum Landsvirkjunar en til þeirra var stofnað fyrir árslok 2006. Þegar 2. ársfjórðungur 2012 rann upp yfirtók ríkið alls skuldbindingar, ríkisábyrgðir, fyrir 104 milljarða kr.

Það er ágætistafla á bls. 467 í frumvarpinu þar sem farið er yfir skráðar ríkisábyrgðir og eftirstöðvar. Þar ber að sjálfsögðu hæst að nefna Íbúðalánasjóð, en það hafa orðið breytingar á Íbúðalánasjóði nú síðan þetta frumvarp var í fyrsta sinn lagt fram fyrir þingið og var verið að bæta hressilega við Íbúðalánasjóð nú um daginn. Byggðastofnun ber ríkisábyrgð, er hún nokkuð há. Svo erum við með E-hluta sameignar- og hlutafélaga, undir það fellur t.d. Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og eignarhaldsfélagið Farice, sem er með ríkisábyrgð upp á 7 milljarða, hvorki meira né minna — 7 milljarða 30. júní 2012. Þess vegna er mjög einkennilegt að sjá hvað er að gerast með þetta fyrirtæki í breytingartillögum meiri hlutans. Þar segir að það eigi að færa stofnkostnað frá fjarskiptasjóði, það er kallað stofnkostnaðarviðfang, yfir á rekstrarviðfang. Þar með er verið að viðurkenna að ríkið er að dæla inn í rekstur sæstrengsins sjálfs en er ekki að leggja til stofnkostnaðarframlag upp á 236 milljónir. Svo er að auki farið fram á 182 milljónir í viðbót, þannig að ríkið er að leggja þessu fyrirtæki til 416 millj. kr. samkvæmt þessari breytingartillögu. Svo er gert ráð fyrir því að önnur eins upphæð verði að fara inn í þetta fyrirtæki frá ríkissjóði á næsta ári vegna þess að illa gengur með reksturinn.

Það kemur fram í þessu frumvarpi — með leyfi forseta ætla ég að fá að lesa það hér beint upp, því ég tel að það hafi verið mikil afglöp gerð þegar ríkið tók þetta fyrirtæki í fang sér. Það voru tveir strengir á sínum tíma, Farice og Danice, sem voru sameinaðir undir nýju eháeffi og kallast nú Farice ehf. Nú hefst hin beina tilvitnun:

„Eignarhaldsfélagið Farice ehf. og dótturfélag þess Farice hf. fóru í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu árið 2010 og voru félögin sameinuð í eitt félag, Farice ehf. Stærstu hluthafar félagsins, íslenska ríkið og Landsvirkjun, lögðu félaginu til nýtt hlutafé að fjárhæð […] sem svarar til um 1,7 milljarða kr. […] Fyrir fjárhagslega endurskipulagningu á árinu 2010 var eiginfjárhlutfall Farice neikvætt. Í lok árs 2011 var hins eiginfjárhlutfallið komið í 48,3%. Töluvert tap var á rekstri síðasta árs en þá nam tapið […] sem svarar til um 1,3 milljarða kr. Tapið var þó öllu meira á árinu 2010 en þá nam það […] sem svarar til 2,6 milljarða kr.“

Svo kemur, með leyfi forseta:

„Tekjumöguleikar félagsins eru háðir gagnaversgeiranum hér á landi og vaxandi eftirspurn eftir bandvídd. Fjárhagsleg áhætta ríkissjóðs getur farið vaxandi ef tekjur Farice ehf. standast ekki áætlanir næstu árin og taprekstur heldur áfram. Komist uppbygging gagnaversiðnaðarins á skrið og umferð um sæstrengina eykst getur félagið hins vegar orðið ábatasamt.“

Þarna er beinlínis verið að gefa í skyn að það verði botnlaus taprekstur á þessu fyrirtæki sem hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, tók í fang ríkisins, veitti ríkisábyrgð og hefur dælt fjármagni inn í síðan. Að þetta komist tæpast á skrið vegna þess að þeir sem eru að reyna að fjárfesta í gagnaverum hér og líta til Íslands sem góðs gagnaverskosts, vegna þess að hér höfum við kuldaauðlindina, sjá ekki hag sinn í að staðsetja gagnaver hér á landi vegna þess að bandvíddin er verðlögð svo hátt og stenst ekki samkeppni við t.d. Norðurlöndin eða Bretland.

Það er ríkisábyrgð á Isavia. Það er ríkisábyrgð á Ríkisútvarpinu fyrir 3,5 milljarða. Á Íslandspósti. Það er ríkisábyrgð upp á tæpa 2 milljarða á Kaupþingi banka. Það er ríkisábyrgð á Norræna fjárfestingarbankanum. Svo eru innstæður í íslenskum bönkum sem njóta ríkisábyrgðar samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, en eru þó ekki meðtaldar í þessu yfirliti. Þá er jafnframt ekki litið á skaðleysisábyrgð vegna innstæðna í Spron sem Arion banki yfirtók.

Samtals, eins og ég sagði hér áðan, er búið að veita ríkisábyrgð á 1.340 milljörðum kr. og má segja að þetta séu allt ríkisábyrgðaloforð frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum, að undanteknum Íbúðalánasjóði og einhverju varðandi Byggðastofnun. Þess vegna er mjög einkennilegt að sjá í nefndaráliti að fjárlögin ættu að geta staðið, þ.e. ef eftirstöðvar hrunsins hætta að koma fram.

Virðulegi forseti. Hér hefur verið fjallað um að jafnvel hafi sú ríkisstjórn sem nú starfar valdið meira tjóni hér á landi en bankahrunið sjálft og miðað við fjárlög ársins 2013, virðulegi forseti, virðist (Forseti hringir.) svo vera.

Nú er tími minn búinn og ég á eftir að ræða óbeinar skuldbindingar ríkissjóðs, þannig að ég verð, virðulegi forseti, að biðja um að fá að komast á mælendaskrá á ný.