141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:49]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það virðist vera erfitt að ná nægilegum skýringum inn í stjórnsýsluna og að upplýsa og sannfæra hana um það mikilvæga starf og það mikla hlutverk sem þessar stofnanir hafa, eins og hv. þingmaður rakti hér og ég gerði líka í ræðu minni hér fyrr um fjárlagafrumvarpið. Þessir skólar eru ábyrgir fyrir grundvallaráherslumálum þessarar ríkisstjórnar sem lúta að grænni atvinnustarfsemi, að nýsköpun til sveita og á landsbyggðinni o.s.frv., sem enginn deilir um. Þetta eru grunnfræðastofnanir og rannsóknarstofnanir fyrir þá þætti.

Þess vegna harma ég það mjög og hef, skal upplýsa það hér, ýtt á það mjög, bæði meðan ég var í ríkisstjórn og eins líka í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að það verði tekið á stöðu þessara stofnana — þetta er ekki vansalaust hvernig þar er. Það er ómannlegt að leggja það á starfsmenn að finna leiðir út úr fjárvöntun, sem er ekkert hægt. Eins og með Hólaskóla, það liggur fyrir að það verði að loka þar deildum ef ekki verður úr bætt.

Ég veit að við hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson berum þetta mál mjög fyrir brjósti og þekkjum og vitum mikilvægi þessara stofnana, ekki aðeins fyrir nærumhverfi sitt heldur fyrir landið allt. Ég verð að segja og skora á hv. þingmann, að komi ekki viðunandi lausn við 3. umr. frá fjárlaganefnd og frá ríkisstjórn þá held ég að við þingmenn verðum að sameinast um átak fyrir þessar mikilvægu stofnanir sem þarna er um að ræða og ég árétta hér alvöru þessa máls.