141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að dvelja við fortíðina aftur. Ég veit að það var ekki meining hv. þingmanns að reyna að gera lítið úr vandanum núna með því að benda á að hann hafi líka verið til staðar áður, en eins og ég fór aðeins yfir var á vissan hátt komið til móts við þessar stofnanir á sínum tíma þó það væri ekki gert með fullnægjandi hætti.

Það var hins vegar öllum ljóst að staða þessara skóla var ekki leyst og ef við skoðum Hvanneyri sem dæmi, þá höfðu verið lagðar fram 70 millj. kr. í sérstaka aukafjárveitingu til skólans til þess að rétta hlut hans árið 2007, en sú fjárveiting hefur síðan verið tekin til baka tvöfalt. Séu allir sammála um, sem ég hygg að allir séu, að rekstrarstaða þessara skóla hefur verið mjög erfið var það náttúrlega ekki mjög líklegt til árangurs til að bæta rekstrarstöðu skólans að taka til baka sem svaraði tvöfaldri þeirri aukafjárveitingu sem menn töldu að væri nauðsynleg fyrir skólann. Það lýsti að mínu mati ekki miklum skilningi á þörfum þessa skóla.

Þess vegna er það þannig, eins og ég nefndi áðan í ræðu minni, að það er eins og menn hafi sett kíkinn fyrir blinda augað, látið bara eins og ekkert sé. Þessi vandi er til staðar, það er margbúið að fara yfir hann til dæmis með þingmönnum kjördæmisins, okkur er þetta öllum ljóst. Við hv. þm. Jón Bjarnason erum að ég hygg algjörir bandamenn í þessu máli eins og svo sem ýmsum öðrum málum, ekki öllum þó.

Það á líka við um menntamálaráðuneytið, það er búið að gera ráðuneytinu mætavel grein fyrir þessari stöðu og ég geri ráð fyrir því að hv. þingmenn fjárlaganefndar geri sér grein fyrir því að þessi vandi er til staðar. Það er eins og menn neiti samt sem áður að horfast í augu við raunveruleikann, setji kíkinn fyrir blinda augað og vonist til þess að þetta reddist einhvern veginn, það verði nú ekki svona slæmt. Ég held að það sem búi að baki sé einfaldlega þetta: Menn hugsa með sér: (Forseti hringir.) Við skulum afgreiða þetta svona og síðan kemur annar tími og við þurfum ekki að afgreiða fjárlagafrumvarpið með meiri halla en raun ber vitni um og svo látum við þetta reka einhvern veginn á reiðanum fram í framtíðina.