141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það má halda því fram að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 hafi stjórnarflokkunum ekki enn tekist að koma böndum á ríkisútgjöldin. Hallareksturinn er enn allt of mikill og það hefur sýnt sig að áætlanirnar sem gerðar hafa verið á liðnum árum hafa ítrekað ekki gengið eftir. Eins og við í 2. minni hluta fjárlaganefndar bendum á sýnir vinnan við frumvarpið og þær tillögur sem meiri hlutinn gerir, og reyndar líka breytingartillögur ríkisstjórnarinnar, það sannarlega svart á hvítu að ekki er nægilega faglega unnið að verkinu alveg frá A til Ö. Það verður að segjast eins og er að ríkisstjórninni hefur ekki gengið að koma böndum á reksturinn, á verkefni sitt.

Ég vil ræða umræðuna um vinnuna við fjárlagagerðina. Talsverð umræða hefur verið í þingsal, ekki bara í dag heldur hófst hún strax á öðrum degi eftir að farið var að ræða fjárlögin. Ég hef ítrekað bent á að mér hefur fundist skorta á áhuga hv. þingmanna á að ræða fjárlög, fjárhagsáætlun ríkisins. Allt of fáir þingmenn taka þátt í þeirri umræðu. Þegar umræðan fer fram verður hún því miður oft og tíðum of einhliða, þ.e. stjórnarandstaðan kemur sjónarmiðum sínum sannarlega á framfæri og nýtir rétt sinn og skyldu til að ræða slík mál á meðan meiri hluti stjórnarliða og jafnvel menn í fjárlaganefndinni eru ekki viðstaddir þingumræðuna, þeir eru ekki í salnum, taka ekki þátt í umræðunni og taka jafnvel ekki til máls. Það hefur líka vakið nokkra eftirtekt að enginn hæstv. ráðherra hefur tekið til máls við 2. umr. fjárlaga.

Því er ekki búið að breyta enn að ráðherrar eru jafnframt þingmenn og sitja í salnum, eins og kom til dæmis fram í dag þegar hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sá sig knúinn af einhverjum undarlegum ástæðum til að koma upp í störfum þingsins og tala í tvær mínútur um það sem hann taldi vera óhæfu. Hann var sjálfur með hræðsluáróður í fjölmiðlum þess efnis að hér væri allt að fara í uppnám vegna 2. umr. um fjárlög.

Mikil umræða er um þetta plagg, sem hæstv. ráðherra og ýmsir þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa kallað bestu og frábærustu fjárlög ríkisstjórnarinnar og hika ekki við að nota efsta stig lýsingarorðaskalans yfir eigin verk. Mér finnst nú vera drambi næst það sjálfshól að segja það því að í ljós kemur við lestur á frumvarpinu, breytingartillögum og niðurstöðum þess að það er ekki nægilega gott þrátt fyrir yfirlýsingar um að menn vilji taka upp nýtt vinnulag. Þeir hafa að einhverju leyti gert það, alla vega hefur formaður fjárlaganefndar komið hér ítrekað upp og lýst því yfir og það kemur líka fram í áliti 2. minni hluta framsóknarmanna að þess megi sjá stað í vinnu fjárlaganefndar við uppgjör fjárlaga 2010 að ákveðin eftirlitsvinna nefndarinnar sé betri en hún var.

Ef ég man rétt fór fjárlaganefnd til Svíþjóðar fyrr á þessu ári og komu allir nefndarmenn þaðan fullir af góðum hug og tillögum um hvernig hægt væri að vinna þetta með öðrum hætti. Ítrekað hefur verið talað um að taka upp það vinnulag sem tíðkast í norrænum löggjafarþingum. Ríkisstjórnin gekk nú svo langt að kalla sig norrænu velferðarríkisstjórnina, sem mörgum hverjum finnst orðin talsverð öfugmæli. Ég hef ítrekað komið hér upp og bent á að sú aðferðafræði sem ríkisstjórnin beitir í öllum stórum málum sem hún kemur með inn í þingið sé andstæða við aðferðafræði hinna norrænu ríkisstjórnanna, eins og varðandi samráð við stjórnarandstöðuna og samráð við ólíka hagsmunaaðila úti á markaðnum. Samvinna er lykilatriði þegar menn vinna að stórum og umdeildum málum. Það á auðvitað líka við um fjárlagagerðina. Betra væri ef vinnulagið væri til dæmis eins og það sem mörg sveitarfélög hafa tekið upp við fjárhagsáætlanagerð sína. Þar leggja menn öll spilin á borðið, óháð meiri hlutum og minni hlutum og setjast saman yfir fjárhagsáætlunina til að sjá hvað hægt er að gera og hvað ekki er hægt að gera og taka þá sameiginlega erfiðar ákvarðanir um niðurskurð. Fjárhagsáætlunin er þröng og erfið þessi misserin, það eru einfaldlega ekki til nægilega miklir peningar í kassanum til að gera allt það sem menn vilja

Hér hefur það aldrei verið gert þrátt fyrir markmið þar um. Oft og tíðum koma yfirlýsingar þess efnis að menn vinni að því að breyta verklaginu, það hefur t.d. komið fram hjá þeim sem sitja í fjárlaganefnd. Sá sem hér stendur á ekki sæti þar, en miðað við þær ræður sem komið hafa frá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, Kristjáni Þór Júlíussyni, Ragnheiði Ríkharðsdóttur og fleirum í fjárlaganefnd hefur það einmitt ekki verið raunin að verklaginu hafi verið breytt. Ekki hafa öll gögn verið lögð á borðið og jafnvel koma fjölmargar tillögur fram frá meiri hluta fjárlaganefndar sem ekki hafa verið ræddar í fjárlaganefnd.

Þá verður umræðan miklu erfiðari við 2. umr. Menn í stjórnarandstöðunni, ekki síst þeir sem ekki sitja í fjárlaganefnd, kalla þar af leiðandi eftir svörum við ákveðnum spurningum og umræðan verður bæði lengri og ekki eins markviss og ella. Mörgum fannst vera mjög góður bragur á 1. umr. þegar henni var skipt upp eins og gert var í fyrsta sinn í haust, þ.e. fagráðherrar voru viðstaddir sína umræðu og tóku þátt í henni og þingmenn gátu beint spurningum beint til þeirra.

Ég benti þá strax á að þó að það væri vissulega ágætt teldi ég jafnvel vera meiri þörf á slíku fyrirkomulagi við 2. umr. vegna þess að þá væru komnar fram meiri upplýsingar frá hinum ýmsu fastanefndum þingsins sem ekki hefðu verið komnar fram við 1. umr. Þá væri fyrst og fremst búið að kynna fjárlagafrumvarpið í fjárlaganefnd en ekki fyrir öðrum fagnefndum og menn hefðu mjög lítinn tíma til að undirbúa sig fyrir þá umræðu og kalla eftir svörum. En þegar sú vinna hefur farið fram og menn hafa haft tækifæri til að kynna sér hvernig fjárlög eru fyrir viðkomandi fagnefnd og sjá síðan hvernig fjárlaganefndin tekur á þeim tillögum eða hugmyndum að breytingum sem farið hafa fyrir fjárlaganefnd, er betri tími og tækifæri til að ræða við ráðherrana um einstakar tillögur.

Því hefur verið haldið fram af meirihlutamönnum að það sé óþarfi, málin séu þá komin til þingsins og meiri hluti þingmanna í fjárlaganefnd eigi að taka þá umræðu. Tvennt segir mér að það sé engan veginn nægilegt. Annars vegar er sú augljósa staðreynd að nú eru afar fáir, og eins og staðan er núna enginn fjárlaganefndarmaður úr meiri hlutanum staddur í þingsalnum, sem hægt væri að ræða við um tillögurnar. Og hins vegar, ef maður flettir nefndaráliti meiri hlutans er hver tillaga um breytingar ágætlega skýrð og sagt hvaðan hún kemur, en ég held að við nánast allar tillögurnar, eða við yfir 90% þeirra, standi að þær séu samþykktar af ríkisstjórn og að ríkisstjórnin hafi ákveðið þetta; tillagan er ákveðin af ríkisstjórn, samþykkt af ríkisstjórn og ríkisstjórn á að framfylgja tillögunni, þannig að meiri hlutinn hefur fyrst og fremst tekið tillögur framkvæmdarvaldsins og gert að sínum.

Það er fullkomlega eðlilegt að fagráðherrarnir svari og það sé tækifæri til að ræða það við þá. Við verðum að taka verklega þáttinn til umræðu og kanna hvort við getum gert vinnu þingsins við fjárlagagerðina markvissari og betri og umræðuna skýrari og hugsanlega á einhvern hátt einfaldari.

Varðandi frumvarpið í heild sinni er mjög eðlilegt að velta fyrir sér fyrst hver forgangsröðun verkefna er, hvernig forgangsröðun ríkisstjórnarinnar kemur fram í frumvarpinu. Það er sláandi að þar er ýmislegt sem ekki er búið að taka tillit til. Rætt var fyrr í dag um forgangsröðun í sambandi við háskólana. Þar eru til að mynda nokkrar breytingartillögur sem snúa að reiknilíkaninu og koma inn á flesta háskólana og framhaldsskólana líka. Þar eru sérstaklega tvær tillögur, annars vegar um Háskóla Íslands, sem fær um 800 millj. kr., og veitir örugglega ekki af ef við viljum bæta aðgengi að menntun og hækka menntunarstig þjóðarinnar, og hins vegar um Listaháskóla Íslands. Það vekur athygli að hann fær 60 millj. kr. til að taka inn fleiri nemendur, en enginn annar háskóli fær neitt slíkt framlag.

Þá veltir maður því fyrir sér hvort þarna sjáist forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, að þrengja enn frekar að háskólum sem standa höllum fæti í dag og kvartað hafa ítrekað undan því að reiknilíkanið sé ekki þeim í hag. Þeir eru með uppsafnaðan halla og þá vantar rekstrarfé, eins og fram kom í umræðum fyrr í dag á milli hv. þingmanna Einars K. Guðfinnssonar og Jóns Bjarnasonar um Háskólann á Hólum. Þar stefnir í að sú stofnun hafi ekki rekstrarfjármuni nema fram til september og þá er spurning hvort þeir eigi yfirleitt að taka inn nemendur á haustönn árið 2013.

Er það forgangsröðun meiri hlutans að skilja eftir alla aðra háskóla og að þeir séu þar með þvingaðir til einhverra þeirra aðgerða sem við höfum rætt hér, er þá ekki nauðsynlegt og skynsamlegt að fækka háskólum? Við framsóknarmenn höfum talað um að auka samstarf skólanna og skerða ekki sjálfstæði landsbyggðarháskólanna eins og til dæmis Háskólans á Akureyri sem hefur sýnt sig að vera sú byggðaaðgerð sem skilað hefur hvað mestum árangri í raun. Það má spyrja sig hvort það sé í raun forgangsröðun meiri hlutans.

Það má líka spyrja sig þeirrar spurningar gagnvart löggæslunni. Við framsóknarmenn höfum ítrekað lagt fram tillögur á þessum liðnum árum, á niðurskurðartímanum, um að auka fjármuni til löggæslunnar í landinu um allt að 500 millj. kr. Ég held að nú sé öllum ljóst að að minnsta kosti 300 millj. kr. þurfi að fara til löggæslunnar í heild á landinu til þess eins að hún geti rækt grunnþjónustuhlutverk sitt.

Ýmsar breytingar eru lagðar hér til og lagðar eru til lágar upphæðir til ýmissa sýslumannsembætta og ríkislögreglustjóra, til að mynda 32 millj. kr. sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli til að bregðast við ákveðnum vanda þar, en þau eru sláandi dæmin sem við höfum mörg nefnt hér, til dæmis um löggæsluna í Árnessýslu. Fram hefur komið í fréttum að lögreglan þar hafi þurft að keyra fram hjá slysstað vegna þess að hún var á leið í mikilvægara útkall og gat ekki sinnt því tilfelli því að enginn mannskapur var til þess. Lögreglan í Árnessýslu stendur frammi fyrir því að þurfa að segja upp starfsmönnum og getur engan veginn sinnt grunnþjónustunni lengur. Hvernig á að bregðast við því? Sést forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans í því sem ekki stendur í frumvarpinu? Það sama má segja um heilbrigðisstofnanirnar, um aðgerðaleysið til dæmis gagnvart þeim sem tekið hafa verðtryggð lán. Eru engar hugmyndir um hvernig bregðast á við því? Ég kem betur inn á það á eftir.

Ef við lítum aðeins á forsendur fjárlaganna í nefndaráliti 2. minni hluta á blaðsíðu 2 má sjá forsendurnar sem endurmetnar hafa verið af Hagstofu Íslands og er tafla þar með upplýsingum. Þar er sýnd hagvaxtarspá allt frá 2011 til 2017 þar sem hagvöxturinn rokkar á bilinu 2,6–2,8% og verðbólgan, eins og Seðlabankinn hefur ævinlega spáð fyrir um, hefur verið milli 4–5%. Því er alltaf spáð að eftir tvö til þrjú ár verði hún komin niður í 2,5–3%. Það hefur ekki gengið eftir hingað til en þó er því spáð áfram.

Spyrja má hvort staðan væri þessi í dag ef þær forsendur sem lágu fyrir fjárlagagerðinni 2009, 2010, 2011 hefðu gengið eftir, þ.e. ef ríkisstjórnin hefði sýnt það í forgangsröðun sinni að til þess að standa undir velferðarkerfinu, undir nauðsynlegum, opinberum fjárfestingum og undir þeirri grunnþjónustu sem ríkið þarf að standa fyrir væri nauðsynlegt að afla fjár. Í forsendum fjárlaga þau ár sem ég nefndi var ævinlega talað um álver í Helguvík. Það var forsenda fyrir hagvexti upp á 3,5% og það var forsenda fyrir því að aukið fé átti koma inn í samfélagið og færri yrðu á atvinnuleysisskrá og annað í þeim dúr.

Ekki hefur það gengið eftir og enn eru forsendur fjárlaganna þær að í dag eru stærstu atvinnuvegafjárfestingarnar stækkun álversins í Straumsvík sem og framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun. Á árunum 2013–2014 er reiknað með frekari stóriðjuframkvæmdum en um þær ríkir þó veruleg óvissa alveg eins og hingað til. Ef við skoðum hvernig stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið í atvinnuuppbyggingunni, ef við skoðum til að mynda rammaáætlun er augljóst að þar verður engin atvinnuuppbygging á næstu árum, hvorki til stóriðju né annarra góðra verkefna sem nauðsynleg eru, einfaldlega vegna þess að öll verkefni sem tengjast slíkri atvinnuuppbyggingu eru tekin út.

Einnig má fjalla um þær nauðsynlegu fjárfestingar sem ríkisvaldið hefur þó sagst vera tilbúið að fara í, eins og uppbyggingu innviða á Bakka. Eftir að menn slógu álvershugmyndir út af borðinu og hugðust fara í minni fjárfestingar, sem getur á margan hátt verið mjög skynsamlegt, bæði með tilliti til orkuöflunar og hægari og skynsamlegri atvinnuuppbyggingu á svæðinu og ekki eins stórri innspýtingu sem getur verið markvissari til lengri tíma, er viðurkennt að þá þurfi ríkisvaldið að koma að innviðauppbyggingunni. Það sé ekki hægt að láta það í hendurnar á einu litlu sveitarfélagi sem stendur auk þess ekkert allt of vel frekar en flest önnur sveitarfélög á landinu, ekkert frekar á landsbyggðinni en annars staðar. Það sama getur átt við um hugmyndir um orkufrekan iðnað á Suðurlandi, þ.e. uppbyggingu stórskipahafnar í Þorlákshöfn, þar þyrfti eitthvað slíkt að gerast en hugmyndirnar hafa ekki orðið að veruleika, ríkisvaldið er ekki enn tilbúið til að standa undir því. Menn hafa því velt fyrir sér hvort ríkisvaldið ætli að standa við það að setja fjármuni í uppbyggingu innviða á Bakka við Húsavík. Þess sér þó engan stað í frumvarpinu. Ekki er gert ráð fyrir því og því hlýtur öll sú uppbygging sem þar er fyrirhuguð og sú hagvaxtarspá sem liggur að baki því að vera í fullkominni óvissu. Varðandi rammaáætlun er rétt að minna á að ákveðnir erfiðleikar eru við orkuöflun á Suðurnesjum sem leiðir til þess að uppbygging á orkufrekum iðnaði á suðvesturhorninu er í óvissu, sem er óviðunandi. Óvissa ríkir um margt fleira sem tengist forgangsröðun og forsendum.

Við vorum á atvinnuvegafundi í morgun með fulltrúa frá Samtökum iðnaðarins, félögum úr Arkitektafélagi Íslands og Búseta vegna þess að fyrir liggur að fresta á gildistöku byggingarreglugerðar, sem sett var 5. janúar á þessu ári, til áramóta, 1. janúar 2013. Sú byggingarreglugerð mun hækka byggingarkostnað á bilinu 10–20% að mati þessara aðila og hafa þau áhrif á verðtryggð lán að höfuðstóll þeirra hækkar um 3–4%. Það á sem sagt að hækka lánastabba almennings, það á að gera húsnæðið miklu dýrara. Það mun hafa þau áhrif að menn treysta sér ekki til að fara í þær byggingarframkvæmdir sem menn sögðu þó að komin væri þörf á að nýju eftir hrunið. Það mun jafnframt hafa þau áhrif að húsnæði í framtíðinni verður allt of dýrt.

Sú forgangsröðun sem fram kemur hjá ríkisvaldinu slær mig þegar ég ber saman hvaða möguleika við höfum til að byggja upp samfélagið og til að standa undir velferðarkerfinu og þegar ég spái í hvort hér verði hagvöxtur og hver verðbólgan og atvinnuleysisprósentan verði á næstu árum. Allt snýr það að því að við þurfum að framleiða meira en við gerum í dag og flytja út meiri verðmæti en við flytjum inn. Aðeins þannig munum við ná í fjármuni til að standa undir allri þeirri grunnþjónustu sem við viljum vissulega hafa. Ég get ekki tekið undir að þessi fjárlög séu frábær eða að þau séu bestu fjárlögin hingað til. Þau eru kannski þau skástu sem þessi ríkisstjórn hefur lagt fram en þar er ekki úr háum söðli að detta.

Eitt atriði sem við framsóknarmenn höfum lagt áherslu á við gerð fjárlaga og umræðuna um fjárlögin snýr að byggðamálum. Fyrir tveimur árum var Byggðastofnun falið að vinna úttekt á áhrifum fjárlaga á byggð landsins. Með leyfi forseta ætla ég að lesa smá kafla úr nefndaráliti 2. minni hluta:

„Í því sambandi hafði 2. minni hluti sérstakan áhuga á áhrifum niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu landsmanna þar sem hann telur að núverandi stefnuleysi hafi skaðað kerfið varanlega. 2. minni hluti leggur áherslu á mikilvægi slíkrar úttektar og bendir á að hún er nauðsynleg til að meta þau áhrif sem stefna stjórnvalda hefur á byggðir landsins. 2. minni hluti hefur lagt fram þingsályktunartillögu þar sem ríkisstjórninni er falið að móta stefnu um jafnan rétt fólks um allt land til nauðsynlegra þátta, til að mynda aðgengis að læknum og heilbrigðisþjónustu. Nauðsynlegt er að fullmótuð byggðastefna sé fyrir hendi áður en stórar ákvarðanir eru teknar í fjárlögum landsins sem munu hafa áhrif á lífskjör almennings til framtíðar.“

Hvar í fjárlagafrumvapinu eða í breytingartillögum meiri hlutans leggja menn sérstaka áherslu á þessi mál? Það sést því miður hvergi. Við framsóknarmenn höfum talað mikið fyrir því að nauðsynlegt sé að endurskoða þá byggðastefnu sem Þórhallur Bjarnason prófessor benti á að væri rekin hér, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna. Hann sagði að við værum búin að vera með eina byggðastefnu í 150 ár. Hún væri sú að færa allar stofnanir ríkisvaldsins til höfuðborgarsvæðisins og byggja upp Reykjavík sem höfuðborg landsins. Þóroddur sagði að við gætum sannarlega sagt að við hefðum staðið okkur frábærlega í því að reka byggðastefnu öfugt við það sem menn hafa haldið fram, þ.e. að hér væri engin byggðastefna og að við stæðum okkur illa í þeim efnum, og kannski hefði engin þjóð staðið sig jafn vel í því að framfylgja byggðastefnu og við, enda væri þetta eina byggðastefnan sem verið hefði við lýði hér í 150 ár.

Við framsóknarmenn höfum talið að nú sé tími kominn á nýja byggðastefnu og höfum verið að vinna að því. Vonandi mun hún sjá dagsins ljós fyrr en seinna.

Ég hefði viljað sjá breytingartillögur varðandi jöfnun raforkukostnaðar, og þá er ég ekki bara að tala um húshitunarkostnað. Gerð er breytingartillaga hjá meiri hlutanum um hækkun á jöfnunarframlaginu um 175 millj. kr. og bent á að í framtíðinni megi nota þann skatt til jöfnunar sem ríkisvaldið setti á raforku og varma.

Það er ekki algjörlega í anda þess sem nefndin, sem ríkisstjórnin setti á laggirnar, lagði til þó að upphæðirnar séu kannski sambærilegar. Það tekur hins vegar eingöngu á húshitunarkostnaðinum. Eins og við þekkjum hafa 10% landsmanna ekki aðgang að jarðvarma og greiða allt að tífalt hærri upphæð en aðrir fyrir húshitunina, sem nemur að minnsta kosti einum mánaðarlaunum umfram aðra. Þeir hafa í rauninni bara 11 mánaða laun ef við berum þá saman við aðra í þessu tilliti.

Ég hefði viljað sjá að menn væru komnir aðeins lengra varðandi jöfnun raforkukostnaðar. Við höfum tekið þá umræðu nokkrum sinnum í þingsal í vetur, þ.e. um nauðsyn þess að jafna þann dreifingarkostnað. Við framsóknarmenn lögðum fram tillögu þess efnis að jöfnuðurinn ætti að vera algjör og að sett yrði á laggirnar nefnd sem skoðaði með hvaða hætti það yrði best gert. Við höfum bent á sambærilega hluti; olíugjöld og símamínútur, svo eitthvað sé nefnt, sem okkur finnst fullkomlega eðlilegt að sé sama verð á alls staðar á landinu. Af hverju er dreifingarkostnaður á raforku, innlenda orku sem við framleiðum? Hann er þar af leiðandi þjóðargersemi, þjóðareign. Af hverju þeim gæðum er svo misskipt með ákvörðun löggjafans? Á það hefur ekkert verið hlustað og þess sér hvergi stað í fjárlagafrumvarpinu að því eigi að breyta.

Talað hefur verið um nauðsyn þess að tryggja afhendingaröryggi raforku víða um land. Atvinnuveganefnd hitti forsvarsmenn helstu raforkufyrirtækjanna, í eigu opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, Landsnets og Rariks og Orkuveitu Reykjavíkur og fleiri, þar sem sýnin á hvað þarf til er mjög skýr. Ég hef nefnt það einu sinni og ég ætla að nefna það aftur núna að ef menn færu þá leið væri hægt að ná sparnaði í ríkisrekstri þar sem Landsnet og Rarik eru nú í eigu ríkisins.

Í dag rekum við fimm til sex sjálfstæðar rafveitudreifiveitur. Þær eru allar í opinberri eigu, allar með sérleyfi en það er ímynduð samkeppni á milli þeirra. Þær hafa opinbera gjaldskrá og reka kerfi sitt þvers og kruss, sérstaklega Landsnet og Rarik. Hefði ekki verið skynsamlegra að hafa eitt kerfi, þegar menn hafa verið að velta fyrir sér breytingu á stofnanakerfinu? Það gæti verið í eigu allra þessara mismunandi aðila samkvæmt þeim hlutföllum sem þeir mundu leggja inn í kerfið. Þar með væri það augljós sanngirniskrafa að það opinbera fyrirtæki dreifði rafmagni með jöfnum kostnaði til allra landsmanna.

Það sama má segja um netþjónustu. Kallað er eftir því, sérstaklega úti í hinum dreifðari byggðum þar sem er forsenda fyrir því að byggja upp öflugt atvinnulíf, að hafa grunnþjónustuna í lagi. Mundi nokkur nútímamaður sem ætlar að setja sig niður með fjölskyldu sína setjast að á svæði þar sem afhendingaröryggi raforku er ótryggt, þar sem útilokað er að fá þriggja fasa rafmagn og netsambandið er í molum og jafnvel símasambandið líka?

Sama má segja með netsambandið, þar eru öflug fyrirtæki. Ríkið á aðild að hinum svokallaða NATO-streng eða ljósleiðara sem er hringinn í kringum landið. Fyrirtækið Míla er með fimm strengi fyrir sig í þeim streng og leigir síðan aðgang til annarra fyrirtækja að því neti, ríkisvaldið á þrjá þræði, held ég. Fjölmörg fyrirtæki bjóða slíka þjónustu og er spurning hvort ekki væri skynsamlegt að sú grunnþjónusta væri undir einum hatti hjá einu fyrirtæki. Svo gætu mismunandi fyrirtæki, mismunandi aðilar með mismunandi eignaraðild komið að því, en þarna væri rekið öflugt grunnþjónustunet alls staðar á landinu sem gæti boðið öllum landsmönnum nægilega öruggar og tryggar tengingar á sama verði.

Upphæðirnar í því sambandi eru ótrúlega lágar. Trúlega væri hægt að tengja öll lögbýli landsins og alla byggðakjarna fyrir 4–6 milljarða. Það þyrfti ekki að gerast í einni hendingu. Það gæti verið verkefni sem menn tækju sér á fimm eða tíu árum og upphæðirnar sem ríkisvaldið þyrfti að setja inn í það væru einhver hundruð milljóna í Fjarskiptasjóð. Aðrir aðilar gætu líka komið að því, sveitarfélögin og auðvitað fyrirtækin sjálf, sem mundu sjá sér hag í því að byggja upp þá þjónustu. Þar með væri kominn möguleiki til þess.

Tillaga meiri hlutans um rafnetsvæðingu samfélagsins er upp á um 200 millj. kr. Þar virðist fyrst og fremst vera horft á innviði í stofnunum á höfuðborgarsvæðinu í staðinn fyrir að sýna það í forgangsröðuninni að hægt væri með mjög einföldum hætti að byggja upp kerfi þar sem allir landsmenn sætu við sama borð í þessum efnum, fyrir ótrúlega lága fjárhæð, þó að 4–6 milljarðar séu vissulega há upphæð.

Það finnst mér skorta á í forgangsröðun verkefna hjá ríkisstjórninni; annars vegar vegna þau verkefni sem alls ekki eru nefnd í þessu plaggi og ég hef nefnt hér nokkur, og hins vegar hvernig menn hafa forgangsröðunina, þ.e. setja verulega fjármuni í Háskóla Íslands og Listaháskólann en enga aðra háskóla. Þó að það sé ekki fallegur leikur að egna saman ólíkum hópum er það engu að síður tilfellið þegar maður flettir nefndaráliti meiri hlutans. Menningargeirinn fær allverulega fjármuni í frumvarpinu og breytingartillögunum en íþróttahreyfingin öll fær minna. Við fulltrúar flokkanna vorum boðaðir á fund í síðustu viku af ÍSÍ og Ólympíusambandinu og aðildarfélögunum sem standa að því. Þar var bent á að sú starfsemi væri komin að fótum fram meðal annars vegna þess að þeir sem áður gátu styrkt þá starfsemi, einkaaðilar, stórfyrirtæki, geta það ekki í dag. Nú er mun harðara í búi þar. Eins er það með sveitarfélögin sem hafa þó allflest unnið markvisst að uppbyggingu íþróttamannvirkja en kannski átt erfiðara með að koma beint að rekstrinum. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar lendir á fólkinu, hjá fjölskyldunum, hún bitnar harðast á þeim sem minnst hafa á milli handanna. Hún bitnar harðast á þeim sem skuldsettir eru og eiga nokkur börn því að það kostar vissulega að taka þátt í íþróttastarfinu.

Það er sláandi að sjá að þar er verulegur munur á þó að vissulega sé verið að reyna að setja fjármuni þarna inn, bæði inn í Afrekssjóð og Ferðasjóðinn, sem er jákvætt. En upphæðirnar og tillögufjöldinn er svolítið sláandi þegar maður flettir frumvarpinu.

Fram kemur í áliti 2. minni hlutans að ýmsir áhættuþættir eru fram undan og ekki er ólíklegt að endurmeta þurfi þau markmið sem ríkisstjórnin setur sér í sínum bestu og frábærustu fjárlögum að eigin mati. Skuldahlutfall ríkisins er mjög hátt og við greiðum 84 milljarða í vexti. Ef til eru fjármunir til að fara í verkefni sem ríkisstjórnin kallar fjárfestingarverkefni, hefði þá ekki verið skynsamlegra að nota þá fjármuni til að lækka erlendar skuldir þjóðarbúsins? Það er líka mjög sérkennilegt að fjalla um fjárlög ríkisins og skuldahlutfall ríkissjóðs þegar við vitum ekki enn hverjar erlendar skuldir þjóðarbúsins eru. Þó að þær falli auðvitað ekki allar á ríkið hafa þær bein áhrif á ýmsa þætti í ríkisrekstrinum.

Bent hefur verið á að ýmislegt komi ekki fram í frumvarpinu, til að mynda mjög erfið staða Íbúðalánasjóðs, sem ég ætla aðeins að koma inn á á eftir ef ég hef tíma, staða Hörpu og erfið fjármögnun á nýjum Landspítala. Ég hef áður nefnt ófrágengin vandamál hvað varðar löggæsluna og heilbrigðiskerfið. Í sambandi við heilbrigðiskerfið höfum við framsóknarmenn bent á að vandinn sem við stöndum frammi fyrir núna varðandi uppsagnir hjúkrunarfræðinga sé nokkuð sem við gátum séð fyrir.

Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar kemur fram í því að ekki er tekið á þeim vanda. Ekki er sett aukið fjármagn eða gerð gangskör í að jafna kynbundinn launamun, en hjúkrunarfræðingar eru jú kvennastétt, og líka hreinlega til að bregðast við þeim vanda sem uppi er á heilbrigðisstofnunum ef við förum að missa hjúkrunarfræðinga úr landi í stórum stíl. Komið hefur fram að hjúkrunarfræðingar eru eftirsóttir starfskraftar í öðrum löndum, þeir eru með góða, fjölbreytta menntun og er mikil eftirspurn eftir þeim erlendis. Þar eru starfskjörin allmiklu betri en hér, alla vega nú um stundir. Það eru sláandi staðreyndir sem sýna forgangsröðunina hjá ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð en sleppir algjörlega að fjalla um þessi mál.

Ég sé að það gengur nokkuð hratt á tíma minn þannig að ég ætla aðeins að fjalla um þær breytingar sem verða á útgjöldum, á gjaldaumræðunni. Þar er um verulega fjármuni að ræða, útgjöld hækka um tæplega 8 milljarða og eru það mjög góð mál og sum hver nauðsynleg sem njóta þess, eins og framlög til tækjakaupa hjá Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Það er mjög nauðsynlegt að hækka framlög til þeirra hluta og eins að hækka framlag til framhaldsskólanna vegna erfiðrar rekstrarstöðu. Það eru hins vegar allt hlutir sem við framsóknarmenn höfum bent á á liðnum árum. Við höfum lagt fram ítarlegar tillögur þar að lútandi við hver einustu fjárlög en á þær hefur aldrei verið hlustað. Nú er hluti af því að koma fram. Þegar allt er að fara fram af hengifluginu á að bæta í. Við bentum á að það hefði mátt gera fyrr og menn vissu hvert þeir stefndu áður en þeir stöðvuðust á bjargbrúninni.

Gagnrýnt hefur verið að við framsóknarmenn höfum ekki lagt fram tillögur að þessu sinni. Við höfum hins vegar bent á að við höfum lagt þessar tillögur fram ítrekað síðastliðin þrjú ár og á þær hefur aldrei verið hlustað. Núna er komið að lokum kjörtímabilsins. Þetta er síðasta fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar og við höfum setið hjá til við fjárlagagerðina. Það er spurning hvort við göngum ekki skrefinu lengra núna og höfnum þessum fjárlögum einfaldlega vegna þess að aldrei hefur verið haft neitt samráð við stjórnarandstöðuna. Aldrei hefur verið hlustað á tillögur okkar og má spyrja sig til hvers við erum að leggja fram tillögur sem verða bara til þess að lengja hér atkvæðagreiðslu þegar þar að kemur.

Aðalatriðið er kannski það að ef menn ætla að ná vitrænni umræðu um fjárlögin verður að hafa samráð við stjórnarandstöðuna frá upphafi, hún verður að hafa fullkomið aðgengi að gögnum til þess að menn sitji allir við sama borð og taki ákvarðanir saman. Það er gert þannig á hinum Norðurlöndunum, það er gert þannig í sveitarfélögunum á Íslandi. Af hverju er (Forseti hringir.) þá ekki hægt að gera það í ríkisstjórninni (Forseti hringir.) sem kennir sig við norræna velferð?