141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram að ræða frumvarp til fjárlaga 2013. Ég komst ekki alveg yfir allt í ræðu minni fyrr í dag varðandi ríkisábyrgðir og áhættuskuldbindingar og langar mig að ljúka því sem ég átti ósagt. Ég átti eftir að taka fyrir kaflann Aðrar óbeinar skuldbindingar ríkissjóðs. Undir þann lið falla samstarfsverkefni ríkissjóðs og einkaaðila sem geta falið í sér fjárhagsáhættu fyrir ríkissjóð þótt engin ríkisábyrgð hvíli á verkefnunum. Þau verkefni eru þannig að þau fela vanalega í sér litla beina fjárhagsáhættu fyrir ríkissjóð en þó geta komið upp aðstæður þar sem verkefni þurfa fjármagn umfram það sem áætlað er samkvæmt fjárlögum. Ég hef nú kallað þá leið grísku leiðina því verið er að færa verkefni sem raunverulega eiga að vera á hendi ríkisins í hverju tilfelli út fyrir ríkisfjármálarammann og setja þau í nokkurs konar einkaferli. Gott dæmi um verkefni sem falla undir það eru til dæmis tónlistarhúsið Harpan, Vaðlaheiðargöng og bygging nýs Landspítala. Fangelsið á Hólmsheiði gæti fallið undir þarna eftir því hvernig verkefninu vindur fram. Mér skilst að hæstv. innanríkisráðherra hafi verið mjög mótfallinn því að það færi í einkaframkvæmd og út af því er nú gert ráð fyrir einum milljarði til fangelsisins samkvæmt breytingartillögunum sem liggja fyrir.

Það er haft hér með til að benda á hvernig verkefni þetta eru. Svo er bent á í fjárlagafrumvarpinu, sem mér þykir nokkuð merkilegt, það sem er kallað ýmsar óbeinar skuldbindingar ríkissjóðs og má flokka sem ólögbundnar áhættuskuldbindingar. Hvað skyldi vera þar til umræðu? Jú, sjálft Icesave-dómsmálið. Verið er að setja inn í fjárlagafrumvarpið þann skilning ríkisstjórnarinnar og raunverulega þá undirskrift sem var farið fram með á sínum tíma þegar ríkisstjórnin lagðist á hnén fyrir Evrópusambandinu og hét því að standa skil á Icesave-dómsmálinu hvernig sem það færi. Þar með viðurkenndi ríkisstjórnin á sínum tíma að Íslendingar væru viljugir til að borga hina svokölluðu skuld ef til þess kæmi að við töpuðum dómsmálinu.

Þrátt fyrir það er krafan ólögvarin eins og við fórum svo oft yfir. Í frumvarpinu kemur fram að í kjölfar kæru Eftirlitsstofnunar EFTA á hendur íslenskum stjórnvöldum kunni niðurstaðan að hafa áhrif á stöðu ríkissjóðs. Því er ég algjörlega mótfallin því EFTA-dómstóllinn getur ekki dæmt okkur til skaðabóta sem ríkið skal standa í skilum með heldur getur dómurinn einungis fallið þannig að við höfum á einhvern hátt greiðsluskyldu. Svo ber Hollendingum og Bretum að reka málið fyrir íslenskum dómstólum.

Það kemur hérna fram að dómur í málinu skapar ekki beina greiðsluskyldu fyrir ríkissjóð og er ekki aðfararhæfur sem slíkur og málið fjalli eingöngu um það hvort stjórnvöld hafi gerst brotleg við skuldbindingar sínar á grundvelli EES-samningsins. En svo stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Dómsniðurstaðan kann engu að síður að hafa verulega þýðingu fyrir það, hverjar endanlegar lyktir þessa deilumáls kunna að verða og þar með fyrir mögulegan kostnað ríkissjóðs. Málshöfðun ESA lýtur að tveimur atriðum: Annars vegar því hvort stjórnvöldum beri skylda til að tryggja að innstæðutryggingarsjóðir geti staðið við skuldbindingar um tryggingu innstæðna að tilteknu lágmarki, og hins vegar að því hvort jafnræðis hafi verið gætt milli innstæðueigenda á Íslandi og annars staðar.“

Svo stendur:

„Óvíst er um dómsniðurstöðuna og hvaða þýðingu hún kann að hafa í fjárhagslegu tilliti.“ Svo segir að ef dómsniðurstaðan verður hagstæð gæti kostnaður af málinu orðið lítill eða enginn en verði niðurstaðan hins vegar íslenskum stjórnvöldum í óhag mun endanlegur kostnaður ríkissjóðs vera háður ýmsum skilyrðum.

Virðulegi forseti. Mér finnst svolítið merkilegt að það skuli vera tekið inn í frumvarpið því eins og við vitum hefur þróun og eignasafn Landsbankans verið þannig að allar líkur eru til að rúmlega fáist upp í forgangskröfur, forgangskröfur sem urðu að forgangskröfum við setningu neyðarlaganna. Verið er að setja að mínu mati á löggiltan pappír að því máli verði við haldið til að viðurkenning ríkisstjórnarinnar á því að greiða, og þeim samning sem var gert við Evrópusambandið varðandi það, yrði haldið til haga og samþykkt í þessu fjárlagafrumvarpi.

Það er gaman að rifja upp að fyrstu Icesave-samningarnir áttu að kosta okkur 35 milljarða á ári í vaxtagreiðslur. Það átti að vera sjö ára greiðsluskjól. Virðulegi forseti, ég er að rifja upp hinn svokallaða Svavarssamning. Vaxtagreiðslur eru 85 milljarða á ári og hefðum við bætt við þeim 35 milljörðum sem Íslendingar áttu að taka á sig vegna vaxtagreiðslna af Icesave-skuldbindingunni þá litu nú fjárlögin öðruvísi út því vaxtagreiðslur ríkissjóðs væru um 120 milljarðar.

Sem betur fer tókst að forða því tjóni sem var í uppsiglingu með Icesave-skuldbindingunni, Icesave-klafann. Veit ég ekki hvar þessi ríkisstjórn stæði hefði verið gengið að fyrsta Icesave-samningnum eins og lagt var til. Það varð ég að rifja upp í ljósi sögunnar, virðulegi forseti.

Svo að allt öðru. Þær breytingartillögur sem liggja fyrir, og sem ég er mjög undrandi á að ekki skuli vera minnst á í því stóra og mikla fjárlagafrumvarpi, er beint tekjutap ríkisins vegna samdráttar á virðisaukaskatti af innlendum vörum og þjónustu. Ég ásamt átta öðrum þingmönnum hef lagt fram beiðni um skýrslu þar sem við förum fram á skýringuna á því að það vanti u.þ.b. 25 milljarða inn í virðisaukaskattskerfið frá árinu 2009 til ársins 2011 og hvað hugsanlega valdi því. Nú hefur sú beiðni um skýrslu verið send til ráðuneytisins og þar kemur til kasta þingsins, að hún fáist rædd hér. Líklega kemur hæstv. fjármálaráðherra til með að svara þeim spurningum og hver skýringin sé á því að orðið hafi svona mikið tekjutap á því árabili og hvað sé raunverulega verið að gera í því í ráðuneytinu, hvort ekki sé verið að endurskoða virðisaukaskattslögin með tilliti til þess.

Ég hef svo sem ekki fengið nein svör. Ég hef borið fram munnlega fyrirspurn hér til þáverandi fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar. Það kom nú ekki á óvart að það voru engin svör við spurningum mínum heldur var snúið út úr þeim og þess vegna er skýrslubeiðnin komin fram sem formlegt plagg í þinginu.

Virðulegi forseti. Ég ætla að enda þetta á jákvæðu nótunum. Í ljósi þessa sem ég var að tala um varðandi gatið í virðisaukaskattskerfinu ætla ég að fagna því að ríkisstjórnin hefur séð sóma sinn í því að hækka fjárveitingu til skattrannsókna. Ríkisskattstjóri fær tæpar 20 milljónir til að framlengja átak í skatteftirliti og skattrannsóknum og svo fær skattrannsóknarstjóri ríkisins 36 millj. kr. aukaframlag til þess að ráðast í enn frekari rannsóknir og til að herða skatteftirlitið.

Ég segi alltaf: Þegar grunur er um tekjutap ríkisins á einhverjum stað eiga rannsóknaraðilar rétt á sér eins og í því tilfelli. Með því að eyða pening í rannsóknaraðila er jafnvel verið að skila enn meiri og margföldum hagnaði til baka. Það eru rannsóknaraðilarnir sem geta komist að því hvar er gat á lögunum og lagt til að þau verði bætt. Þess vegna líka ef um skattundanskot eða skattsniðgöngu er að ræða er hægt að sækja þá peninga á ný.

Virðulegi forseti. Tíminn líður hratt. Ég vildi enda á þeim jákvæðu nótum því ég tel að því fjármagni sé vel varið. Ég kem til með að styðja breytingartillöguna um ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra ríkisins vegna nauðsynjar þess að koma í veg fyrir leka í skattkerfi landsmanna. Oft var þörf en nú er nauðsyn að byrja á því að koma í veg fyrir (Forseti hringir.) leka svo ekki séu skattundanskot, áður en farið er að leggja á nýja (Forseti hringir.) skatta.