141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í öllum rekstri eru eignir og skuldir oft mjög stórar og mismunurinn á því er eigið fé, það er 207 milljarðar hjá Landsvirkjun. Skuldirnar hljóta því óneitanlega að vera miklu hærri. Miðað við öll verkefni Landsvirkjunar, þá ég við Sogsvirkjanir og Þjórsárvirkjanir, þá er langt í frá að það sé allt saman afskrifað og skuldlaust. Landsvirkjun er bara risafyrirtæki með miklar skuldir og miklar eignir, en því miður eru skuldirnar allar með ríkisábyrgð. Það er miður. Eignin er eign ríkissjóðs. Ef illa fer, sem við vonum endilega að gerist ekki, tapar ríkissjóður 500 milljörðum eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni. Það má líka vel vera að við gjaldþrot svona stórs fyrirtækis mundu eignirnar verða verðlitlar eða verðminni, þannig að skuldbindingin getur orðið töluvert meiri sem lendir á skattgreiðendum.

Ég skil ekki af hverju íslenska ríkið fyrir hönd skattgreiðenda er að framleiða raforku til þess að rafgreina ál. Ég skil það ekki. Ef menn eru eitthvað hræddir við auðlindina sem er þarna á bak við er hægt að koma því þannig fyrir að aðskilja auðlindanotkunina og rekstur fyrirtækisins. Ég held að menn ættu að skoða þá hugmynd sem ég kom með í einni ræðunni að selja Landsvirkjun til 40 ára og síðan aftur og aftur og aftur. Það er hugmynd sem ég hef komið fram með. Þá mundi áhættan hverfa af íslenskum skattgreiðendum. Ég held menn þurfi að fara að skoða það.

Menn þurfa líka að fara að skoða áhættu skattgreiðenda af Landsbankanum sem er um 500 milljarðar. Kannski miklu, miklu meira ef illa færi. Þar er áhættan töluvert meiri en hjá Landsvirkjun, held ég. En allur rekstur, herra forseti, er með áhættu. Það þurfa menn að hafa í huga.

Ég kom einmitt inn á það sem hv. þingmaður sagði með veiðileyfagjaldið. Það byggjum við að sjálfsögðu á því að útgerðin haldi því háa verði sem hún hefur fengið um alla Evrópu. Í útgerðinni er geysimikil mannvit, mannauður. Eitt af því er til dæmis að hafa tekist að selja íslenskan fisk, gera hann að einni dýrustu vöru, matvöru, í Evrópu. En ef vandræði verða, til dæmis á Ítalíu og Spáni og alls staðar þar sem við erum með markaði, er það að sjálfsögðu það fyrsta sem menn draga saman, þ.e. kaup á munaðarvöru sem er þá íslenskur fiskur.