141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við tökum lífeyrisskuldbindingarnar og lífeyriskerfið til endurskoðunar frá grunni. Auðvitað sjáum við að þetta getur ekki gengið svona til lengdar, við verðum að taka á vandanum. Það er alveg lífsspursmál að mínu viti. Þetta er búið að standa allt of lengi, í gegnum ár og áratugi þó að á árum áður hafi oft verið greiddar hellingsupphæðir inn í þetta, en betur má ef duga skal. Við erum með vandamálin fyrir aftan okkur í tæpum 400 milljörðum, við erum þegar búin að safna upp hérna 60 milljörðum. Við megum ekki halda áfram á þessari braut.

Það er líka annað sem hefur verið að gerast, á undanförnum árum hefur ríkið yfirtekið lífeyrisskuldbindingar frá fjölmörgum fyrirtækjum, alveg sama hvort það eru sparisjóðir eða bankar eða hvað þetta allt saman er, það er einhvern veginn alltaf nóg svigrúm inni í lífeyrissjóði ríkisins. Nú þegar — (Gripið fram í: Bændasamtökin.) það kemur skýrt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ríkisreiknings 2010 álit hv. fjárlaganefndar á því hvernig eigi að gera þetta. Þennan hluta verður til dæmis að stoppa. Nú eru til að mynda áfallnar skuldbindingar upp á 17,3 milljarða frá stofnunum sem eru fyrir utan og teljast ekki eiginlegir ríkisaðilar. Einhvern veginn er þessi greiði aðgangur alltaf inni í lífeyrissjóðakerfi ríkisins. Þetta verður að stoppa. Á þessu tökum við mjög hart í hv. fjárlaganefnd, þetta er eitt skrefið sem verður að stíga. Það er ekki hægt að hleypa alltaf fleirum inn í ríkissjóðinn og vegna þessarar mismununar vex síðan alltaf skuldbindingin hjá ríkissjóði hinum megin til að standa undir skuldbindingum vegna ríkisábyrgðanna.

Við verðum að taka á þessu, og ekki seinna en strax.