141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Já, það er einkennilegt hvað hinir og þessir eiga raunverulega greiðan aðgang inn í ríkissjóð, og þá ekki bara í gegnum lífeyrissjóðakerfið heldur, eins og ég hef farið yfir í ræðum mínum, hinir og þessir aðilar sem jafnvel eiga bara hlutdeild í fyrirtækjum sem ríkið á á móti þeim. Þar af leiðandi er komin ríkisábyrgð. Hvað er ákjósanlegra en að reka fyrirtæki með ríkisábyrgð? Það er sjaldgæft að ríki fari á hausinn.

Varðandi þetta gegnumstreymissjóðskerfi fæ ég ekki betur séð en að tæknilega og verklega séum við komin langleiðina með því að taka hér upp gegnumstreymissjóðskerfi alveg óvart vegna þess hvernig skattkerfið hefur verið sett við hliðina á lífeyrissjóðakerfinu. Þessi skerðingarákvæði eru orðin eins og þau eru núna. (Forseti hringir.) Þess vegna sé ég ekki annað en að þetta kerfi sé nánast (Forseti hringir.) komið óvart á stofn hér á landi án þess að (Forseti hringir.) nokkur hafi farið yfir það hvort það eigi að vera eða ekki.