141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:29]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Mig langar að gera að umtalsefni hér í þriðju ræðu minni við þessa umræðu — sem hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra býsnaðist yfir að væri orðin allt of löng eins og við munum við upphaf þingfundar í morgun og kvartaði yfir því að við þyrftum að ræða svo mikið þetta frumvarp sem væri besta frumvarp sem ríkisstjórnin hefði lagt fram í sinni valdatíð. Hann dásamaði frumvarpið og sagði það væri nánast hallalaust og honum fannst við algjörlega óalandi og óferjandi vegna þess að við vorum að gera athugasemdir við það og þurftum að ræða það í hörgul.

Ég vil gera athugasemd við það, herra forseti. Ég vil gera athugasemd við að hæstv. ráðherra hafi ekkert tekið til máls um fjárlagafrumvarpið. Mér finnst það skjóta skökku við, sérstaklega þegar það liggur fyrir að hér eru ýmis mál sem heyra undir hans ráðuneyti og ekki síður skuldbindingar sem hann í sínu fyrra embætti sem fjármálaráðherra gerði og er verið að svíkja hér í þessu fjárlagafrumvarpi. Ég spurði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í fyrstu ræðu minni út í nokkur þessara atriða, en ég hefði gjarnan viljað — og hefði talið að hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem af heilagri vandlætingu kemur hér og segir okkur að nú sé komið nóg, þetta fjárlagafrumvarp sé útrætt — að hann gæti til dæmis komið og frætt okkur aðeins um svikin, meðal annars varðandi álagningu raforkuskatts, sem varð forstjóra Norðuráls tilefni til margra blaðsíðna umsagnar. Ég ætla að fá að grípa niður í þá umsögn vegna þess að mér finnst algjörlega með ólíkindum að hægt sé að leggja fram fjárlagafrumvarp með forsendum sem fara á skjön við vinnubrögð sem mönnum þykja eðlileg.

Áður en ég kem að umsögn Norðuráls vil ég vísa í orðaskipti hv. þm. formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, við hæstv. forsætisráðherra þann 18. október síðastliðinn þegar Bjarni Benediktsson innti hæstv. forsætisráðherra um hvers vegna verið væri að framlengja skatt sem gert hefði verið samkomulag um að ætti að vera tímabundinn. Árið 2009 þegar samningurinn var gerður voru það orkufyrirtækin sem tóku á sig þennan skatt, ekki síst vegna þess að þá var stemningin þannig að við þurftum öll að standa saman til að koma okkur upp úr því ástandi sem við vorum í og með sameiginlegu átaki gætum við það. Það var gert samkomulag um orkuskatt sem átti að renna út árið 2012. Nú kemur fjárlagafrumvarpið fram, áform ríkisstjórnarinnar koma í ljós og þessi skattur er framlengdur til ársins 2016. Þetta eru engar smáupphæðir, þetta eru fleiri, fleiri milljarðar.

Hv. þingmaður Bjarni Benediktsson spurði hæstv. forsætisráðherra að þessu. Hæstv. forsætisráðherra segir, með leyfi forseta, að það sé nú alveg rétt að það hafi verið gerð yfirlýsing við aðila vinnumarkaðarins, það sé rétt hjá hv. þingmanni. Síðar í ræðu hæstv. forsætisráðherra segir:

„Það hefur legið fyrir að stjórnvöld hafa ekki talið sig bundin af yfirlýsingunni um það hvernig tekjuöflun yrði háttað að loknum gildistímanum. Það vil ég ítreka, að loknum gildistímanum sem tiltekinn var í yfirlýsingunni. Þannig felur lögfesting skattsins nú í sér nýja ákvörðun um tekjuöflun fyrir ríkissjóð með raforkuskattinum.“

Það sem hæstv. forsætisráðherra sagði var að það sem átti að vera tímabundið og til bráðabirgða stóðst, en svo var tekin ný ákvörðun. Það er ekki brot á neinu samkomulagi vegna þess að það var ekkert verið að framlengja á meðan samkomulaginu stóð, heldur var tekin ný ákvörðun, herra forseti. Hvers lags vitleysa er þetta eiginlega?

Ég gríp nú niður í umsögn Norðuráls sem gerir alvarlegar athugasemdir við áform ríkisstjórnar Íslands í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár um framlengingu sérstaks raforkuskatts og segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Verði áformin að veruleika er gengið þvert á skýrar samningsskuldbindingar ríkisstjórnar Íslands við Norðurál og fleiri stórnotendur raforku.“

Síðan ætla ég að rekja — nú er tími minn að renna út mjög hratt. Ég ætla að stikla á mjög stóru og rekja einungis það sem Norðurál telur á sér brotið með. Það er hér, með leyfi forseta:

„Athugasemdir Norðuráls við framangreint fjárlagafrumvarp 2013 og áætlanir um álagningu raforkuskatts […] Norðurál gerir alvarlegar athugasemdir við þessi áform og telur brýnt að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi þessar fyrirætlanir ríkisstjórnar Íslands.“

Hvað er verið að svíkja? Það er verið að svíkja fyrirhugaða skattlagningu raforku, það er alvarlegur forsendubrestur á samkomulagi aðila frá 7. desember 2009. Fyrirhuguð skattlagning á raforku er brot á ákvæðum fjárfestingarsamnings vegna álvers á Grundartanga. Það er brot á 3. mgr. 11. gr. fjárfestingarsamnings. Síðan er það einnig brot á 1. mgr. 16. gr. fjárfestingarsamnings. Fyrirhuguð skattlagning raforku er brot á ákvæðum fjárfestingarsamnings vegna álvers í Helguvík. Þar er það brot á 4. mgr. 9. gr. og 5. mgr. 7. gr. þess fjárfestingarsamnings. Síðan er annað brot rakið með sama samning. Síðan eru rakin áhrif samkomulagsaðila á skuldbindingar ríkisstjórnar Íslands samkvæmt fjárfestingarsamningnum vegna Helguvíkur og Grundartanga.

Þetta er langur svikalisti, herra forseti. Í niðurlagi umsagnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Ljóst þykir að komi áform í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 um álagningu raforkuskatts til framkvæmda, mun það fela í sér brot á samningsskuldbindingum ríkisstjórnar Íslands samkvæmt sameiginlegri yfirlýsingu dags. 7. desember 2009, sem og skuldbindingum ríkisstjórnarinnar sem felast í fjárfestingarsamningnum við Norðurál.“

Punkturinn er þessi, herra forseti:

Í fjárlagafrumvarpinu eru milljarðar áætlaðir af tekjum sem forsvarsmenn í íslensku atvinnulífi færa fyrir góð rök að séu fengnar vegna svika og brota á samkomulagi sem gerð hafa verið við ríkisstjórn Íslands. Þessa sömu ríkisstjórn og hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra er ráðherra í, sem kom hér í dag og býsnaðist yfir því að það þyrfti að ræða þetta fjárlagafrumvarp. Ja, svei, ég segi nú ekki annað.

Ef hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra telur sig geta stöðvað okkur í að gagnrýna og færa rök fyrir því að þetta fjárlagafrumvarp sé algjörlega byggt á sandi — það er verið að sópa undir teppið öllum erfiðum málum, geyma þau fram í 3. umr. eða jafnvel þar til eftir kosningar, það er verið að gefa hér innihaldslaus loforð um verkefni sem eru fjármögnuð inn í framtíðina af tekjum sem aldrei munu koma í kassann, svo er verið að svíkja gert samkomulag og mörg samkomulög sem gerð hafa verið við atvinnulífið. (Forseti hringir.) Ég tel hneisuna (Forseti hringir.) vera þá að hæstv. ráðherra skuli ekki koma (Forseti hringir.) og standa fyrir máli sínu.