141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir hvernig ríkisstjórnin hefur svikið samkomulag sem hún gerði vegna álagningar raforkuskatts með mjög ósvífnum hætti. Raunar er framganga ríkisstjórnarinnar í orku- og iðnaðarmálum mjög undarleg á mjög margan hátt. Við sjáum það meðal annars í fjárlagafrumvarpinu eina ferðina enn að gert er ráð fyrir heilmiklum tekjum af uppbyggingu iðnaðar, stóriðju ekki hvað síst, en svo eru ekki skapaðar þær forsendur sem eru nauðsynlegar til þess að sú uppbygging geti átt sér stað. Enda hafa spár um tekjur af stóriðjuframkvæmdum aldrei gengið eftir og ólíklegt að þær geri það á þessu ári, miðað við aðrar forsendur fjárlagafrumvarpsins.

Ég átti áhugaverðar samræður við hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson í gær varðandi aðkomu ríkisins að uppbyggingu iðnaðar á Íslandi og stórum fjárfestingarverkefnum. Mér þótti ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður var sammála mér um að ríkið gæti þurft að hafa aðkomu að slíkum verkefnum til að af þeim yrði. Jafnvel fjárfestingarverkefnum sem væru ekkert gríðarlega stór vegna þess að Íslands er ekki stórt land og tiltölulega lítið verkefni, sem skapar til dæmis einhverjum tugum atvinnu, getur haft mjög mikið að segja fyrir ákveðin byggðarlög.

Er hv. þingmaður sammála mér og hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni um að ríkið hafi hlutverki að gegna þarna og að það eigi að leggja meiri áherslu á það í fjárlögum að byggja upp þá innviði sem eru nauðsynlegir til þess að framkvæmdirnar fari a.m.k. af stað og að jafnvel í sumum tilvikum geti ríkið þurft að koma beint að málum, t.d. í gegnum Byggðastofnun með eiginfjárframlagi eða lánveitingu?