141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð nú að hryggja hv. þingmann ef hann hefur túlkað orð mín áðan þannig að ég sé talsmaður þess að ríkið eigi að standa í stórfelldri atvinnuuppbyggingu þar sem einkaaðilar eru fyrir. Ég er ekki sammála því. Það sem ég tel — og það var ágætisgreining hv. þingmanns á því hvernig aðkoma ríkisins getur verið með þrennum hætti, að þvælast fyrir, að skapa frið og stöðugleika eða koma beint að. Ég held nefnilega að annar liðurinn, að skapa frið og stöðugleika — að skapa þannig skilyrði að einkaaðilar geti spriklað innan rammans og nýtt krafta sína, hætt fjármagni sínu vegna þess að þeir vita að rekstrarumhverfið er öruggt og að það verði staðið við gerða samninga eins og ég var að vísa til í ræðu minni hérna áðan. Samningar eru samningar og reglum er ekki breytt í miðri á, í miðjum klíðum, eins og við höfum horft á hérna á síðasta kjörtímabili, með hvaða afleiðingum? Jú, þeim afleiðingum að nú er Ísland, sem var þekkt fyrir pólitískan stöðugleika, komið í flokk með ríkjum sem við viljum helst ekki miða okkur við þegar kemur að pólitísku óþægindaálagi, þegar fyrirtæki leita sér fjármögnunar. Það er ekkert skrýtið. Það er ekkert skrýtið þegar maður hefur séð afrekaskrá þessarar ríkisstjórnar sem hefur brotið hvern samninginn á fætur öðrum, breytt reglum hægri vinstri út um allt eftir eigin geðþótta og ráðherrar í ríkisstjórninni verið dæmdir ítrekað í Hæstarétti, eins og hæstv. umhverfisráðherra fyrir meðferð sína á (Forseti hringir.) virkjunarframkvæmdum í neðri hluta Þjórsár. Það er ekki umhverfi (Forseti hringir.) sem heillar og laðar til sín erlenda eða innlenda (Forseti hringir.) fjárfesta.