141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013. Miðað við hversu mikil umræða hefur verið bæði hér í þessum sal og í samfélaginu um stöðu löggæslumála í landinu taldi ég að við mundum sjá í þessu frumvarpi eða þá við 2. umr. einhvers konar tillögur um að koma til móts við þann mikla rekstrarvanda og í rauninni vanda vegna þjónustuskerðingar við íbúana. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar sem hæstv. innanríkisráðherra hefur staðfest í þingræðu og koma fram í skýrslu innanríkisráðherra sem unnin var í samráði við ríkislögreglustjóra hafa 2,8 milljarðar, uppreiknaðir, verið skornir af löggæslunni í landinu á síðustu fjórum árum. Af þessu hef ég töluverðar áhyggjur vegna þess að auðvitað vitum við og þekkjum að það hefur þurft að skera niður en við þurfum alltaf að taka mið af því að ekki sé gengið of langt í þá átt að skerða öryggi borgaranna. Þar verður að horfa til þess að ganga ekki of nærri lögreglunni og við höfum farið yfir þá línu að mínu mati.

Þess vegna legg ég höfuðáherslu á að við í þinginu tökum okkur það fyrir hendur að laga þetta við þessa fjárlagagerð. Ég tel að til þess að reyna að svara fjárþörf lögreglunnar þurfi um það bil 550 milljónir til að gera ástandið ásættanlegra, en það þarf um 300 milljónir til að lögregluembættin geti haldið í horfinu. Tæplega 90 stöðugildi hafa tapast úr lögreglunni á síðustu árum og hjá sumum embættum hefur verið rætt um að segja upp lögreglumönnum til að mæta þessari stöðu. Það hefur verið í umræðunni hjá embættinu á Selfossi og af þessu hef ég auðvitað töluverðar áhyggjur.

Lögreglumönnum við embætti lögreglustjórans á Selfossi hefur fækkað úr 28 í 24 frá árinu 2007. Auk þess hefur aukavinna verið dregin saman um sem nemur 2,5 stöðugildum til viðbótar. Embættið hefur boðað að til að taka á rekstrarhalla embættisins þurfi að segja upp fjórum lögreglumönnum til viðbótar og þá yrðu þeir aðeins 20 eftir áramótin. Við þekkjum öll hér hversu stórt svæði og umfangsmikið verkefni þetta embætti hefur við að glíma.

Þá hefur starfandi lögreglumönnum fækkað úr níu í sjö við embætti lögreglustjórans á Hvolsvelli frá árinu 2007 og enginn lögreglumaður er nú staðsettur í Vík í Mýrdal. Íbúum hefur fjölgað á því svæði og auk þess vitum við að töluverður fjöldi landsmanna leggur leið sína austur í sveitir allan ársins hring til að dvelja þar í frístundahúsum sínum með tilheyrandi verkefnum fyrir lögregluna.

Ég tel að við eigum við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2013 að horfa sérstaklega til þess að reyna að leiðrétta eða færa örlítið til baka þær miklu skerðingar sem sú mikilvæga þjónusta sem lögreglan veitir hefur orðið fyrir í staðinn fyrir að taka einhvers konar kosningaskóflustungur sem valda því að við erum að taka ákvörðun um fjárveitingar fyrir næstu árin og leggja það fyrir komandi þing að klára þau verkefni sem núverandi ríkisstjórn ætlar sér að taka skóflustungur að fyrir kosningar.

Ef við kíkjum aðeins á stöðuna hjá lögreglunni á Suðurnesjum er það mjög stórt embætti sem hefur sætt mikilli sparnaðarkröfu eins og önnur embætti á landinu. Auk þess situr embættið uppi með gamlan halla upp á 186 millj. kr., en þrátt fyrir þá miklu niðurskurðarkröfu sem embættið hefur sætt hafa starfsmenn embættisins náð því samhliða niðurskurðinum að taka hluta af þessum halla og greiða hann niður, um tæpar 50 milljónir. Á sama tíma hafa verkefni embættisins tengd flugvellinum aukist verulega og það er aðeins horft til þess við 2. umr. fjárlaga. Það er ánægjulegt að menn sjái að þarna þurfi að bæta í. Hins vegar er ekki farið í það með þetta embætti frekar en nokkurt annað að reyna að leiðrétta og færa til baka þennan mikla niðurskurð sem starfsemin hefur sætt.

Mig langar bara að benda þetta í þessari umræðu. Við verðum að gera hér á breytingar á milli umræðna og ég vonast til þess að sjá áður en fjárlög verða samþykkt eftir 3. umr. framlag upp á að minnsta kosti 300 milljónir til að embættin geti haldið í horfinu. Það er algjör lágmarkskrafa og það verður að líta til þess. Við getum ekki horft upp á að til frekari uppsagna komi af hálfu embætta landsins. Það er of langt gengið ef fram heldur sem horfir, að embættin þurfi að fara í þær uppsagnir sem þau hafa boðað og þeim ekki gefinn neinn annar kostur til að halda sig innan fjárhagsáætlunar en að fara í að segja upp lögreglumönnum. Það er ekki ástand sem við getum boðið fólkinu í landinu upp á.

Herra forseti. Ég hef áður í þessari umræðu aðeins vikið að Íbúðalánasjóði. Það er athyglivert að fylgjast með umræðunni sem á sér nú stað, aðallega í fjölmiðlum, um Íbúðalánasjóð. Þar hefur meðal annars komið fram að þingmenn margra flokka hafa lýst því yfir að þeir eru sammála mér um að það þurfi að fara í heildarendurskoðun á sjóðnum. Það er ánægjulegt vegna þess að það ítrekar kannski það sem við vorum að kalla eftir í umræðunni um Íbúðalánasjóð í vor og ánægjulegt að menn eru tilbúnir að fara í þessa endurskoðun. Ég hef reyndar kallað eftir því að menn köstuðu fram þeim hugmyndum sem þeir hefðu — reyndar allir nema framsóknarmenn. Framsóknarmenn hafa talið að engu þurfi að breyta, þetta sé allt saman frábært. Það er eins og hæstv. atvinnuvegaráðherra sagði um fjárlagafrumvarpið í dag, að það væri alveg frábært og að hann hefði sjaldan augum litið betra fjárlagafrumvarp. Eins líta framsóknarmenn á Íbúðalánasjóð.

En er ekki rétt að við setjumst nú niður, fulltrúar allra flokka, og vindum okkur í það verkefni að endurskoða starfsemi og lagaumgjörðina utan um Íbúðalánasjóð? Er ekki komin ástæða til að gera það? Mig langar að beina þeirri fyrirspurn til formanns Framsóknarflokksins, sem ég sé að situr í salnum, hvort framsóknarmenn séu ekki tilbúnir að koma í þá vinnu með okkur hinum. Ég tel fulla þörf á því. Við verðum að læra af reynslunni og taka til þar sem þarf og hafa hugrekki til að viðurkenna þegar við höfum farið í ranga átt að einhverju leyti. Það getur ekki verið að starfsemi Íbúðalánasjóðs sé fullkomin frekar en að það fjárlagafrumvarp sem við erum að ræða sé frábært.

Herra forseti. Það á enn eftir að ræða þau frumvörp sem ég veit að bíða umræðu hér um tekjuhlið fjárlaganna. Það verður örugglega athygliverð umræða af því að annaðhvort þarf að fjármagna þessi kosningafjárlög á einhvern hátt eða endurskoða forgangsröðunina hjá ríkisstjórninni. Hefði ég skrifað þetta fjárlagafrumvarp hefði ég horft til öryggis borgaranna, reynt að færa til baka að einhverju leyti þann niðurskurð sem lögregluembættin hafa orðið fyrir vegna þess að þar er of langt gengið með tilliti til öryggis borgaranna. Ég mun beita mér fyrir því hér í þingsalnum að að minnsta kosti þessi 300 millj. kr. fjárþörf vegna lögregluembættanna, svo þau geti haldið í horfinu, verði tekin til alvarlegrar skoðunar á milli umræðna. Ég vonast svo sannarlega til þess að menn séu tilbúnir að skera á móti niður eitthvað af þessu fyrirhugaða kosningaplaggi ríkisstjórnarinnar og draga eitthvað úr þeim nýju verkefnum sem munu fela í sér enn meiri kostnað fyrir skattgreiðendur til framtíðar.