141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var ágætisumræða sem hér átti sér stað og gott að það er komið fram að jafnvel framsóknarmenn eru tilbúnir til að setjast niður og ræða stöðu sjóðsins og framtíðarhorfur. En af því að hv. þingmaður fór að tala um sterka sparisjóði á landsbyggðinni á Norðurlöndunum, þá voru þeir auðvitað til hér á Íslandi líka. Engu að síður voru menn ekkert á því, þ.e. framsóknarmenn, að endurskoða stöðu Íbúðalánasjóðs. Við hljótum að ætla að horfa til framtíðar varðandi sjóðinn. Við hljótum að ætla okkur að byggja upp sterkt Ísland og byggja upp land þar sem er raunhæfur og eðlilegur fasteignamarkaður. Við hljótum þá að ætla að skoða hvernig við viljum að ríkið og þar af leiðandi skattgreiðendur allir skipti sér af og komi að þeim málum. Það hljótum við að ætla okkur að gera. Ég fagna því að hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins hafi hér lýst því yfir að jafnvel framsóknarmenn séu tilbúnir til að setjast niður og ræða málin. Það er upphafið að góðum hlutum og ég tel einfaldlega að við ættum að vinda okkur í það fyrst allir eru komnir um borð.