141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það verður ekki hjá því komist nú í upphafi þessarar ræðu um fjárlögin að gera athugasemdir við þá umræðu sem hæstv. atvinnuvegaráðherra setti af stað í morgun, fyrst í fjölmiðlum og svo hér í ræðustól þar sem hann sagði nánast berum orðum að hætta væri á því að ekki yrði hægt að greiða ríkisstarfsmönnum út laun 1. janúar vegna þeirrar umræðu sem fer fram hér. Þar þykir mér býsna langt seilst í þeim tilraunum sem við höfum séð á undanförnum dögum til að þagga niður umræðu um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Strax á fyrsta degi aðalumræðunnar um kosningafjárlög ríkisstjórnarinnar var byrjað að hrópa „málþóf“. Svo sáum við hér heldur dapurlega uppákomu þar sem tveir þingmenn — ja, ég þarf ekki að rifja upp mótmælagöngu tveggja þingmanna fyrir framan sjónvarpsmyndavélina fyrir stuttu, en þegar það dugði ekki til þess að hræða þingmenn frá því að ræða fjárlagafrumvarpið var bætt í með þeim dæmalausa áróðri um að hætta væri á því að fólk fengi ekki greidd laun ef þingmenn hættu ekki strax að ræða fjárlögin. Bent var á að fjárlög hefðu oft verið rædd miklu lengur en þetta, mun lengur fram í desembermánuð án þess að það hefði sett launagreiðslur í uppnám. Ég læt þá ábendingu nægja til þess að sýna fram á hversu fráleitur málflutningurinn er. En það var ekki hægt annað en að gera athugasemd við þetta. Við höfum séð fréttaflutning af því þegar stjórnarliðar koma upp og fullyrða alls konar hluti sem standast enga skoðun, eins og að það sé einsdæmi að svo lengi hafi verið rætt um fjárlögin þó að nú sé byrjun desember og jafnvel að hætta sé á að laun verði ekki greidd út. Þetta er vitleysa.

Þá að frumvarpinu sjálfu. Í dag höfum við heyrt fréttir af enn einni uppfærslunni á mati Seðlabankans á skuldum þjóðarbúsins. Nú gerir Seðlabankinn ráð fyrir því að skuldir þjóðarbúsins nemi 13 þús. milljörðum, heildarskuldir þjóðarbúsins með þrotabúum bankanna, en ef þau eru tekin út fyrir sviga séu raunskuldir þjóðarbúsins 1.100 milljarðar. Þetta er gríðarlega mikil skekkja. Þó að þetta séu ekki allt skuldir ríkisins hefur skuldastaðan engu að síður áhrif á getu ríkisins til að greiða af skuldum sínum við útlönd vegna þess að ríkið keppir við fyrirtæki og sveitarfélög um þann gjaldeyri sem rennur úr landinu til að greiða af þessum skuldum.

Þetta minnir enn betur á það sem ég gerði að umtalsefni í fyrstu ræðu minni um fjárlagafrumvarpið, þ.e. mikilvægi þess að á þessum tímapunkti fjárfesti menn í gjaldeyrisskapandi greinum eða geri að minnsta kosti atvinnugreinum sem skapa gjaldeyri kleift að fjárfesta og standi ekki í vegi fyrir slíkri fjárfestingu. Eitt dæmi um slíkt er fyrirhuguð stóriðja á Bakka við Húsavík sem strandar nú á því að ríkið virðist ekki ætla að ráðast í nauðsynlegar endurbætur á innviðum, svo sem hafnarmannvirkjum, a.m.k. ekki um sinn. Þetta bætist við ýmsar aðgerðir sem núverandi ríkisstjórn hefur ráðist í til að þvælast fyrir fyrirhuguðum verkefnum á Bakka og er auðvitað mjög varasöm nálgun þegar þjóðarbúið skuldar 1.100 milljarða í erlendri mynt. Þarna hefði maður viljað sjá algjöran viðsnúning. Ég vonast til þess að fyrir 3. umr. um þetta mál verði bætt úr, að menn sýni það í verki með fjárlagafrumvarpi ársins 2013 að ríkið ætli að ýta undir gjaldeyrissköpun og aukna verðmætasköpun í landinu. Það er sannarlega ekki vanþörf á því.

Við höfum á sama tíma séð að ástandið á alþjóðlegum mörkuðum fer versnandi. Menn hafa nefnt að verð á fiskmörkuðum fari lækkandi. Það mun enn auka þörfina fyrir nýja framleiðslu á gjaldeyrisskapandi útflutningsvörum. Við höfum líka orðið þess vör að ríkið virðist ekki vera í stakk búið til þess að fjármagna grunnþjónustu í landinu. Það er ekki bara að ekki sé ráðist í nauðsynlega fjárfestingu í innviðum heldur skortir mikið á að hægt sé að halda uppi eðlilegri þjónustu, undirstöðuþjónustu eins og löggæslu og heilbrigðisþjónustu.

Enn í dag berast fregnir af því alvarlega ástandi sem nú er ríkjandi á Landspítalanum, ekki hvað síst vegna mikillar óánægju hjúkrunarfræðinga með stöðu sína. Þeim er enn er haldið í óvissu um kjör sín, það er ekki enn búið að klára þá stofnanasamninga sem gert var ráð fyrir fyrir meira en ári síðan þegar hæstv. ráðherra gerði kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga. Á þessu ári hafa á þriðja hundrað hjúkrunarfræðinga sagt upp störfum á Landspítalanum þó að sem betur fer hafi þær uppsagnir ekki allar tekið gildi, en ef þær gera það þá fáum við að heyra það í fréttum í dag eða í kvöld og þá verður Landspítalinn í raun óstarfhæfur. Á sama tíma og menn horfa fram á þessa stöðu er verið að spá í að ráðast í miklar byggingarframkvæmdir til að stækka spítalann sem tekst ekki einu sinni að halda í starfsmenn sína, svo ekki sé minnst á stöðu mála varðandi tækjakost spítalans.

Þetta eru dæmi um það hversu skökk forgangsröðunin er, þau gætu varla verið skýrari. Með öðrum orðum þá þurfa að verða umtalsverðar breytingar á þessu frumvarpi fyrir 3. umr. og það er ástæðan fyrir því að ég og fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar erum enn að benda á hversu alvarlegt málið er þrátt fyrir hræðsluáróður stjórnarliða. Reyndar leyfi ég mér að halda því fram að ef ríkisstjórnin eða fulltrúar hennar hefðu tekið þátt í umræðunni hér og tekið eitthvert mark á þeim ábendingum sem komið hafa frá stjórnarandstöðunni í umræðunni þá væri henni lokið, málið væri aftur komið til nefndar og við værum að bíða eftir 3. umr. En þegar stjórnarandstæðingar eru látnir tala fram á nætur og verða þess á engan hátt varir að ríkisstjórnin taki á nokkurn hátt eftir þeim ábendingum sem þeir hafa fram að færa er ekki annað hægt en að reyna áfram að leiða mönnum fyrir sjónir hversu alvarlegir ágallar eru á frumvarpinu.

Það hefur töluvert verið talað um hversu verðbólguhvetjandi fjárlagafrumvarpið er og forseti ASÍ er á meðal þeirra sem hafa bent á hættuna sem í því felst. En það er bara viðbót við þau gríðarlegu verðbólguhvetjandi áhrif sem við höfum horft upp á á undanförnum árum, m.a. vegna síendurtekinna skattahækkana á algengar neysluvörur, vörur sem hafa áhrif á vísitöluna sem lánin eru reiknuð út frá. Enn stefnir í áframhaldandi áhrif af því tagi með þessu fjárlagafrumvarpi þannig að ríkisstjórnin, sem hefur ekki myndað þá skjaldborg um heimilin sem átti að vera eitt af meginverkefnum hennar, hefur þvert á móti hvað eftir annað skilað fjárlögum sem eru til þess fallin að hækka lán heimilanna í landinu, hækka skuldirnar. Þetta frumvarp er sem fyrr segir engin undantekning í því.

Hér er ég búinn að nefna nokkur mjög alvarleg atriði sem verður að bregðast við áður en gengið er frá þessum fjárlögum, þ.e. þörfin fyrir að stuðla að aukinni framleiðslu og gjaldeyrissköpun, aukinni fjárfestingu, til að bregðast við mjög alvarlegum gjaldeyrisskorti og fjárfestingu sem er í sögulegu lágmarki, þörfin á því að styðja innviðina, hvort heldur sem er mannvirki eins og nauðsynlegar hafnarframkvæmdir til þess að hægt sé að ráðast í atvinnuuppbygginu eða innviðina sem felast í löggæslu, heilbrigðisþjónustu og slíku, og það er mikilvægi þess (Forseti hringir.) að draga úr verðbólguhvetjandi áhrifum frumvarpsins.