141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er vissulega sammála því að það sé mjög aðkallandi að ræða þessi mál við hæstv. velferðarráðherra og í tengslum við fjárlagafrumvarpið vegna þess að það mun ráða því hvaða svigrúm menn hafa til að bregðast við vandanum í framhaldinu. Ég er ekki viss um að menn geri sér almennt grein fyrir því hversu alvarlegur vandinn er. Ef ekki verður brugðist við núna getur það haft áhrif mjög langt fram í tímann.

Við stöndum nú þegar frammi fyrir því að ekki útskrifast nógu margir hjúkrunarfræðingar og hefja störf á spítölum og heilbrigðisstofnunum til að hægt verði að manna allar þær stöður sem eru nauðsynlegar til þess að halda úti þeirri heilbrigðisþjónustu sem við teljum nauðsynlega. Þegar það bætist svo við að við missum fjöldann allan af hjúkrunarfræðingum ýmist úr landi, t.d. til starfa í Noregi, eða í önnur störf þá er kominn mjög alvarlegur skortur sem getur haft keðjuverkandi neikvæð áhrif á heilbrigðiskerfið. Þessu til viðbótar horfa menn nú fram á að hugsanlega hætti allt að 300 hjúkrunarfræðingar störfum nánast samtímis, eftir nýjustu tölum í dag, með þeim afleiðingum að Landspítalinn yrði í raun, eins og forstjóri hans sagði í fréttum í dag, óstarfhæfur. Þetta er því ekki bara spurning um að ræða einhverja kjaradeilu sem hægt er að velta áfram einhver ár í viðbót og skoða fyrir fjárlög ársins 2014 og 2015, heldur er þetta er spurning um það að ef ekki er tekið á þessum málum núna geta þau haft mjög skaðleg áhrif á heilbrigðisþjónustu á Íslandi til mjög langs tíma. (Forseti hringir.) Ég hefði haldið að hún væri nokkuð sem menn vildu almennt sameinast um að standa vörð um.