141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef verulegar áhyggjur af því hvað ríkisstjórnin og stjórnarliðar hafa gengið langt í því að reyna að hefta umræðu í þinginu um ekki hvað síst mjög stór og mjög gölluð mál sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Við höfum, eins og hv. þingmaður nefndi, mjög oft fengið að heyra það, jafnvel á fyrsta degi umræðu um risastór mál, að við séum komin í málþóf. Við höfum þá verið að benda á hluti sem hafa í sumum tilvikum varðað hagsmuni samfélagsins sem nema mörg hundruð milljörðum kr., við höfum verið að tala um hluti sem varða lýðræðið og rétt fólks til þátttöku í stjórn landsins, við höfum verið að ræða sjálfa stjórnarskrána. Þegar við leyfum okkur að taka þátt í umræðu um þessi mál er strax farið að hrópa málþóf. Á sama tíma sleppa stjórnarliðar flestir hverjir því nánast alfarið að ræða málin. Þeir virðast líta svo á að umræðan í þinginu sé bara til trafala, þess vegna eigi stjórnarliðar ekki að taka þátt í umræðunni, það lengi hana bara, og svo megi setja allan mögulegan þrýsting á stjórnarandstöðuna til þess að reyna að þagga niður í henni, jafnvel ganga svo langt, eins og hæstv. atvinnuvegaráðherra gerði í morgun, að gefa í skyn að hætta sé á að fólk fái ekki greidd út laun um mánaðamótin næstu nema stjórnarandstaðan hætti að tala.

Þetta er náttúrlega alveg ótrúlega gróf tilraun til að þagga niður umræðu um þá stóru galla sem stjórnarandstaðan hefur bent á í þessu frumvarpi. Hvernig hefur farið með þau mál sem stjórnarandstaðan hefur verið sökuð um málþóf í áður? Þar hafa aldeilis komið í ljós risastórir gallar. Sem betur fer lét stjórnarandstaðan ekki hræða sig frá viðvörunum þá og við munum ekki gera það í þetta skipti heldur.