141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Í framhaldi af þeim orðaskiptum sem urðu hér og í framhaldi af því í ræðu hv. þingmanns að við værum hér að tala um þetta mikilvæga mál fram á nætur og ekkert tillit tekið til þess sem við erum að segja langar mig að spyrja hv. þingmann út í það. Nú er mikið kvartað yfir vinnubrögðum Alþingis og menn sýna mótmæli sín á ýmsa vegu, með missmekklegum aðferðum. Þessi ræðustóll hér á að vera vettvangur skoðanaskipta en á hann ekki líka að vera vettvangur skoðanaskipta sem leiða til einhverra framfara?

Hér er mikið gagnrýnt að við tölum lengi en ég tek undir með hv. þingmanni, mér finnst ekkert tillit tekið til þess sem við erum að segja. Hæstv. fjármálaráðherra kom að minni beiðni í salinn þegar ég flutti mína fyrstu ræðu og sat undir henni. Ég spurði margra spurninga sem hún tók samviskusamlega niður en ég hef enn ekki fengið nein svör. Ég veit satt að segja ekki hvenær ég má eiga von á svörum frá hæstv. ráðherra.

Ég spyr hv. þingmann um skoðanir hans á þessu. Höfum við einhver önnur tæki í stjórnarandstöðunni til að benda á þá verulegu ágalla sem eru á frumvarpinu og til að krefja framkvæmdarvaldið um svör við athugasemdum okkar og ábendingum?