141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja ræðu mína á að harma að horfið sé frá því samkomulagi sem gert var um breytingar á svokölluðum safnliðum. Tekin var ákvörðun fyrir fjárlögin 2012 um að breyta safnliðunum og færa þá í annan búning en verið hefur, setja þá í faglegri búning, skulum við segja, sem reyndar margir hv. þingmenn gerðu athugasemdir við og höfðu efasemdir um. Ég var einn af þeim sem stóðu með þessum breytingum og taldi að þær væru skynsamlegar og við ættum að þróa þetta áfram. Ég gerði mér grein fyrir því að það væri ekki sjálfgefið að þetta yrði hnökralaust.

Nú kemur meiri hlutinn með beina tillögu inn í safnlið sem er auðvitað stílbrot miðað við það vinnulag sem ákveðið hafði verið. Þetta er ein slík tillaga sem ég ætla að nefna hér, en þær eru fleiri að mínu mati. Það er 15 millj. kr. framlag til svokallaðs Ríkarðssafns á Djúpavogi. Nú geri ég engar athugasemdir við að þetta safn fái fjármuni eins og önnur söfn, en fjárveitingin hefði auðvitað átt að fara í þann eðlilega farveg sem reiknað hafði verið með og á réttan lið. En þetta er brotið og þá er búið að eyðileggja það samkomulag sem gert var. Ég held að hv. þingmaður Oddný G. Harðardóttir hljóti að vera mjög svekkt yfir þessu, vegna þess að hún hélt utan um þetta sem þáverandi formaður hv. fjárlaganefndar og hélt meira að segja utan um málið eftir að hún hætti sem formaður fjárlaganefndar og varð þingflokksformaður. En þetta er gert svona og með því er verið að skemma samkomulagið að mínu viti.

Síðan er mjög merkilegt það sem verið er að setja inn í svokallaðar skapandi greinar. Mig langar að staldra við nokkur atriði sem snúa að því. Til að mynda er lagt til að 470 millj. kr. verði veittar til Kvikmyndasjóðs til eflingar á framlögum til skapandi greina. Þetta er eitt af verkefnum í fjárfestingaráætluninni. Fyrir er Kvikmyndamiðstöð Íslands með um 704 millj. kr. framlag og sértekjur upp á tæplega 32 millj. kr., þannig að framlög úr ríkissjóði til þessa eru um 672 millj. kr. Þetta er gríðarlega mikil hækkun. Síðan er að mínu viti viðurkennt það fjárstreymi sem orðið hefur út úr ríkissjóði vegna endurgreiðslna á framleiðslukostnaði við kvikmyndagerð, því lagðar eru til 450 millj. kr. til viðbótar þeim 400 millj. sem er gert er ráð fyrir til þessa í frumvarpinu. Fjárframlögin verða þannig 850 millj. kr. í það heila. Þetta undirstrikar það sem ég hef gagnrýnt mjög harðlega að í raun og veru er búið að taka fjárstjórnarvaldið frá Alþingi með því að hafa svo opnar heimildir og má í raun túlka þannig að sérlögin gangi framar fjárlögum.

Það er merkilegt að fletta í gegnum þessar tillögur. Hér er verið að dæla í alls konar gæluverkefni, eins og maður hefur sagt. Mjög mikið er sett í listir og sjóði tengda þeim. Stöldrum við sjóð sem nefndur er Útflutningssjóður tónlistar, hann var með 21 millj. kr. í fjárlögum og fær 20 millj. kr. í viðbót, er tvöfaldaður. Myndlistasjóður fær 45 millj. kr. sem var ekki í fjárlögum, hönnunarsjóður 45 millj. kr. sem var ekki í fjárlögum, handverkssjóður 15 millj. kr. sem var ekki í fjárlögum, bókmenntasjóður, bætt er við hann 70 millj. kr. Hann var með 42 millj. kr. í fjárlögum þannig að hann er kominn með 112 millj. kr. Síðan er það starfsemi atvinnuleikhópa, tónlistarsjóður og svo mætti lengi telja.

Þarna er verið að setja nokkra tugi ef ekki hundruð milljóna til viðbótar í þessa sjóði. Svo geta menn haft skoðun á því hversu skynsamlegt það er. Ég set ákveðinn varnagla við þetta. Á sama tíma og við setjum þessa stóru fjármuni hér inn er ekkert sett inn í menningarsamninga sveitarfélaga. Engu er bætt við þá. Þeir fá 230 millj. kr. Þeir hafa reynst mjög vel og þar er faglega staðið að verki því að í raun og veru er búið að færa úthlutunina í hendur heimamanna. En það er ekkert sett í þetta, akkúrat ekki neitt, heldur þessi verkefni.

Maður spyr sig auðvitað að því af hverju er verið að setja þessa hluti inn með fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, fyrir utan allt annað sem þar er inni sem ég geri alvarlegar athugasemdir við, þegar svo er komið að ekki er hægt að reka heilsugæslustöðvar úti á landsbyggðinni. Skýrasta dæmið er um það í mínum heimabæ, Snæfellsbæ, þar sem eru um 1.800 íbúar. Þar á að loka heilsugæslustöðinni aðra hvora helgi Hvað sparast við það? Eru það stórar tölur? Nei, það eru ekki stórar tölur því heilsugæslustöðin er opin þannig að læknirinn er einn á bakvakt. Það er því verið að spara mjög lítið, sem segir okkur auðvitað hvað búið er að ganga nærri heilbrigðisþjónustunni í niðurskurði. En á sama tíma förum við í þá vegferð sem ég var að draga athyglina að, dælum tugum milljóna í hana. Það þyrfti ekki annað en að skera niður pínulítið einn af þeim liðum til að hægt væri að hafa heilsugæslustöðina í Snæfellsbæ opna og það þyrfti ekki að loka henni aðra hvora helgi. Þar er íbúum gert að sækja þjónustu í heilsugæslustöðina í Grundarfirði. Það er auðvitað fínasta stöð, ekkert að henni, en þetta er um 30 kílómetra vegalengd og því miður eru veður oft válynd og ófærð þarna á milli. En þetta er forgangsröðunin eins og hún blasir við. Er það ekki eðlileg krafa íbúa þessa svæðis að fá sína grunnþjónustu? Á sama tíma og verið er að taka nokkur hundruð milljónir út úr sveitarfélaginu í formi auðlindagjalda er ekki hægt að veita íbúunum grunnþjónustu. Ég hef kallað eftir svörum hjá hv. þingmönnum Norðvesturkjördæmis og hjá ráðherrum um hvernig standi á þessu. Þetta er gert í samkomulagi við velferðarráðuneytið. Velferðarráðuneytið vissi af þessari vegferð áður en farið var í hana.

Hvaða þjónustu þurfa íbúar þessa sveitarfélags ef ekki grunnþjónustuna? Það er ekki hægt að túlka þetta öðruvísi en svo að stjórnvöld líti á þessa íbúa sem vinnudýr sem eigi að skapa tekjur í ríkissjóð. En hv. þingmenn stjórnarliðsins sem tala um glæsilegan árangur og að viðspyrna sé hafin og nú fái fólk að njóta uppbyggingarinnar, þeir láta ekki sjá sig í umræðunni þótt margoft hafi verið kallað eftir svörum frá þeim um þetta. Þeir koma hlaupandi inn í þingsalinn til að greiða atkvæði um lengd þingfundar, en þetta mun auðvitað elta þessa hv. þingmenn uppi því það verður ábyggilega snúið fyrir þá að útskýra fyrir kjósendum sínum á þessu svæði hvernig standi á því að við getum ekki sinnt grunnþjónustunni en setjum á sama tíma peninga í svona hluti.

Þetta er mjög dapurleg staða, virðulegi forseti. Við vitum alveg hvaða skilaboð þetta eru til samfélagsins og hvaða afleiðingar þau hafa. Við þurfum ekki annað en að rifja upp aðförina sem þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra Álfheiður Ingadóttir gerði að mörgum sjúkrastofnunum úti á landsbyggðinni með þeim brjáluðu tillögum sem lagðar voru fram. Þær voru hraktar á bak aftur en óttinn við að svona hlutir geti gerst er fyrir hendi. Það er staðreynd að fólk sem hefur átt kost á sambærilegum kjörum á Stór-Reykjavíkursvæðinu, þar sem ekki þarf að hafa áhyggjur af því að til að mynda Landspítalanum verði lokað, hefur flutt úr þessum sveitarfélögum, það hefur farið þaðan, vegna þess að það þarf öryggi. Það er hrætt við að þetta gerist aftur. Þetta eru auðvitað mjög slæm skilaboð og neyðarleg.

Fyrir utan svo það einelti sem snýr að skiptingu á fjármagni til þjóðgarðanna þriggja á Íslandi. Það er sérkapítuli út af fyrir sig. Ég hef ekki fengið neinar skýringar á því hvers vegna hv. þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa ekki gert alvarlegar athugasemdir við þessa skiptingu á fjármagninu. Það hafa ekki komið neinar skýringar á því. Hv. þingmenn koma hlaupandi eins og ég sagði áðan til að greiða atkvæði um lengd þingfundar, en þeir sjá ekki ástæðu til að verja grunnþjónustuna á þeim svæðum þar sem þeir eiga að þekkja til, en það er ekki víst að þeir geri það, og sjá ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þetta. En þetta mun elta þessa hv. þingmenn uppi því að þeir þurfa að útskýra fyrir íbúum þessa svæðis hvernig á því stendur að viðspyrnan sé ekki meiri en svo að ekki sé hægt að veita grunnþjónustu í viðkomandi sveitarfélagi.