141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það skiptir miklu máli í þessari umræðu að það komist skýrt til skila af hálfu okkar stjórnarandstæðinga hvaða áhyggjur það eru sem við höfum af þessu frumvarpi, hvað það er sem við teljum að þurfi að breyta í meðförum nefndarinnar þegar 2. umr. er lokið. Þess vegna höfum við gefið okkur tíma í umræðuna, við teljum að mikilvægt sé að umræðan eigi sér stað, sjónarmiðin heyrist og auðvitað höfum við óskað eftir því að fá fram gagnrök og mótrök stjórnarliða þannig að það gæti farið fram hér rökræða sem síðan nýttist fjárlaganefndinni við vinnu hennar milli umræðna. Þannig að það væri hægt að bregðast við þeim athugasemdum sem fram hafa komið.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að það er ýmislegt sem hefur verið talið til varðandi forgangsröðun sem auðvitað kallar á nánari útskýringar og svör af hálfu stjórnarliða. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór ágætlega yfir nokkur mál sem ég hefði haldið að væri mjög gagnlegt að fá viðbrögð við, af því að lokum snýst þetta einmitt um forgangsröðun. Spurningin er um hvernig við verjum fjármunum hins opinbera, hinum sameiginlegu sjóðum okkar landsmanna. Í hvaða mál og málaflokka. Það er hægt að benda á, og það hefur verið gert í umræðunni, að hægt er að setja spurningarmerki við margar þær ákvarðanir sem birtast í frumvarpinu. Þar er mikilvægum stofnunum víða um landið gert að skera niður á meðan ýmis önnur starfsemi fær annaðhvort aukningu eða nýrri starfsemi er bætt við og svo framvegis.

Það sem ég vil gera hér að umræðuefni, og ítreka og hamra á og vona svo sannarlega að það sé hægt að bregðast við þessu af því að það skiptir máli, er að þegar horft er stóru myndina, á heildarmyndina þá er staðreynd að þetta frumvarp er verðbólguhvetjandi.

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að vera þannig. Það er hægt að stilla frumvarpinu upp með öðrum hætti. Það er hægt að gera það öðruvísi. Það þýðir auðvitað að draga þarf úr útgjöldunum, en það er hægt að gera það þannig að ekki þurfi að grípa til þeirra hækkana sem hér er lagt til og þar með koma í veg fyrir verðlagshækkanir sem koma óumflýjanlega vegna frumvarpsins. Á þetta hefur verið bent. Á þetta hefur Alþýðusamband Íslands bent, á þetta hafa Samtök atvinnulífsins bent og á þetta höfum við bent hér í þessum sal.

Virðulegi forseti. Ég hef engin svör heyrt. Engar athugasemdir frá stjórnarliðum, engar útskýringar. Af hverju skiptir þetta máli? Jú, þetta skiptir máli meðal annars vegna þess að hækkun á verðlagi vegna þessa frumvarps þýðir að lánin hjá heimilunum hækka. Það er beint samhengi þar á milli. Verðbólgan fer upp og þá fara verðtryggðu lánin líka upp. Það er vegna þess að fjárlagafrumvarpinu er stillt upp með þessum hætti.

Væri ekki nær að við sætum yfir þessu máli og einsettum okkur og tækjum ákvörðun um að við skiluðum af okkur fjárlagafrumvarpi sem leiddi ekki til hækkunar á vísitölu? Er það ósanngjörn krafa af hálfu stjórnarandstöðu? Er það einhvers konar öfgapólitík? Er verið að ganga fram af brún hengiflugsins í kröfugerðinni?

Virðulegi forseti. Nei, alveg augljóslega ekki. En þetta snýr að því að það sé vilji til þess hjá stjórnarliðinu að setjast niður og fara yfir frumvarpið og segja: Hvernig stillum við þetta af þannig að ekki komi til hækkana á verðlagi? Í það minnsta má segja að halda eigi því í eins miklu lágmarki og mögulegt er, ef ekki er hægt að koma í veg fyrir það alfarið.

Virðulegi forseti. Það er ekki bara sá sem hér stendur eða Sjálfstæðisflokkurinn sem talar fyrir þessu. Það á að hlusta eftir því þegar Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands benda á þetta aftur og aftur. Ég ætla að grípa niður í yfirlýsingar einmitt frá Samtökum atvinnulífsins. Ég ætla að lesa, virðulegi forseti með yðar leyfi: [Hlátur í þingsal.]

„Samkvæmt samningunum hækkuðu almenn laun um 4,25% 1. júní 2011 og um 3,5% 1. febrúar 2012. Samningarnir eru atvinnulífinu mjög dýrir og fela í sér mun meiri launahækkanir en í samkeppnislöndum Íslands. Lykilforsendur samninganna voru að blásið yrði til sóknar í atvinnumálum og umsvifin í efnahagslífinu aukin. Þeir byggðu á þeirri sýn að hagur fólks og fyrirtækja mundi batna með aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu og minna atvinnuleysi. Meginforsendurnar hafa því miður ekki gengið eftir en atvinnulífið hefur engu að síður staðið við sinn hlut samninganna.“

Svo er haldið áfram: „Ljóst var við undirritun kjarasamninganna þann 5. maí 2011 að án uppsveiflu í atvinnulífinu og aukins hagvaxtar væru samningarnir ávísun á verðbólgu og atvinnuleysi.“

Virðulegi forseti. Ég ætla að endurtaka þetta: „Ljóst var við undirritun kjarasamninganna þann 5. maí 2011 að án uppsveiflu í atvinnulífinu og aukins hagvaxtar væru samningarnir ávísun á verðbólgu og atvinnuleysi. Það er mikilvægt að stefna að því að ná þeim markmiðum sem aðilar settu sér við undirritun samninganna, það verður hins vegar ekki gert með því að hækka laun enn frekar og kynda þar með undir verðbólgunni.“

Þetta var yfirlýsing sem kom frá Samtökum atvinnulífsins 26. nóvember á þessu ári.

Virðulegi forseti. Þann 3. desember kom önnur yfirlýsing sem rétt er að veita athygli og hún er svona, með yðar leyfi: „Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að skattahækkanir í fjárlagafrumvarpinu, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, þrengi svigrúm fyrirtækja til að hækka laun þann 1. febrúar í samræmi við kjarasamninga. Jafnframt muni frumvarpið kynda undir verðbólgu með skaðlegum afleiðingum.“

Hér er síðan vitnað beint í framkvæmdastjórann: „„Nú á að auka útgjöld með nýjum sköttum á atvinnulífið. Boðskapurinn frá ríkisstjórninni er sá að nú sé hægt að byrja veisluna með útgjöldum til margvíslegra hluta á kostnað atvinnulífsins,“ segir Vilhjálmur í samtali við Morgunblaðið í dag“ o.s.frv.

Virðulegi forseti. Hér kemur það sem skiptir máli, með yðar leyfi: „… eina leiðin sem fyrirtæki hafi til að mæta þessum nýju sköttum sé að segja upp fólki eða hækka verð, með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu. Með því fari í hönd vítahringur sem ýti undir vaxtahækkanir.“

Virðulegur forseti. Það hefur verið rætt hér af hálfu stjórnarliða að það sé ómálefnalegt og óeðlilegt að stjórnarandstaðan tali í þessu máli.

Virðulegi forseti. Það er óeðlilegt og ómálefnalegt að bregðast ekki við þessum yfirlýsingum. Láta eins og hæstv. atvinnuvegaráðherra gerði í dag, að hér væri besta fjárlagafrumvarp allra tíma til umræðu og það væri alveg furðulegt að stjórnarandstaðan væri með þessa umræðu og tæki ekki þátt í fagnaðarlátunum.

Virðulegi forseti. Það er verið að benda á að fjárlagafrumvarpið sé verðbólguhvetjandi, það geti ýtt undir atvinnuleysi og það stefni kjarasamningum í hættu. Ja, það hefur nú verið haldinn þingfundur að minna tilefni heldur en þessu. Það hefur farið fram umræða hér í þingsalnum af minna tilefni heldur en þessu og það eru engin svör frá stjórnarliðum. Það eru engin svör um þetta mál. Það kann að vera að stjórnarliðar telji þetta skipta engu, þetta séu bara orð. Þetta séu bara einhver orð sem enginn þurfi að hlusta á því þau hafi enga merkingu, en þau hafa merkingu og sú merking er mjög raunveruleg. Hver er sú merking? Merkingin er fyrir fólkið sem er með lánin, sem þarf að borga meira af lánum sínum vegna þessa frumvarps. Það er merkingin fyrir fólkið sem ekki hefur atvinnu, sem þarf að bíða lengur eftir því að fá atvinnu vegna þessa frumvarps og það er merkingin fyrir þá sem setjast niður og reyna að semja um kaup og kjör og sem eiga erfiðara með að gera það vegna þessa frumvarps. Þessi orð hafa merkingu. Þessi mál hafa merkingu og það er óeðlilegt og rangt að gera athugasemdir við að stjórnarandstaðan reyni að fá fram rökræðu um þessa hluti (Forseti hringir.) þannig að hægt sé að breyta þeim í meðförum nefndarinnar, taka tillit til þeirra og koma með nýtt og (Forseti hringir.) betra fjárlagafrumvarp.