141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:28]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek rækilega undir það með hv. þingmanni að þetta eru á köflum hálfgerð ESB-fjárlög, það er hárrétt. Það er alveg sérstakt að þarna skuli vera lögð til aðlögunarvinna með fjármagni frá Evrópusambandinu til næstu ára, við sem ætluðum bara að hætta þessu. Umboð þessarar ríkisstjórnar rennur brátt út og þar með samningsumboðið.

Það sem ég ætlaði aðallega að segja varðandi ráðherra Vinstri grænna og þessa fjárstyrki frá Evrópusambandinu til að undirbúa og aðlaga íslenska stjórnsýslu fyrir Evrópusambandið er að það skal skýrt tekið fram að sá sem hér stendur hafnaði því algjörlega á meðan hann var ráðherra að taka við fjármagni frá Evrópusambandinu til að aðlaga stofnanir og stjórnsýslu (Gripið fram í.) landbúnaðarráðuneytisins og stofnana þess. Hart var að mér sótt og þess krafist að ég tæki við slíkum styrkjum en ég hafnaði því til að það sé alveg ljóst.

Eitt er að sækja um aðild að Evrópusambandinu, eins og gert var, en þá stöndum við líka í þeim samningum af fullri reisn og á okkar forsendum án þess að þiggja fjármuni frá Evrópusambandinu til að reka þessa samningagerð og laga íslenska stjórnsýslu að Evrópusambandinu áður en samningum er lokið. Eins og hv. þingmaður veit er ég náttúrlega alfarið á móti því að við séum í þessu ferli og sækjum um aðild, en það var ákvörðun Alþingis. Það var ekki ákvörðun Alþingis á þeim tíma að við skyldum þiggja fé til að breyta íslenskri stjórnsýslu í aðlögunarferlinu og þess vegna hafnaði ég því og vil koma því skýrt á framfæri í þessari umræðu.