141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni sem nú er ávarpaður háttvirtur en ekki hæstvirtur. Vegna eindreginnar afstöðu sinnar var honum bolað úr ríkisstjórn. Vegna eindreginnar baráttu sinnar fyrir sjálfstæði Íslands og fullveldi er hann ekki lengur hæstv. ráðherra. Það er bara þannig og það er dapurlegt. Það er sérstaklega dapurlegt fyrir restina af hæstv. ráðherrum Vinstri grænna í ríkisstjórninni því að þeir sitja áfram og þeir þiggja þessa styrki eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar sem Björn Valur Gíslason, formaður og framsögumaður, ritar einn undir frá Vinstri grænum. Hann skrifar undir og Vinstri grænir sem eru í ríkisstjórn keyra aðlögunarviðræðurnar áfram og taka á móti öllum þessum styrkjum til að breyta og bæta ímynd Evrópusambandsins á meðal Íslendinga. Það er ljóst að forritari sem fær vinnu við Hagstofuna við að vinna upp heilmikið kerfi veit alveg hver borgar saltið í grautinn hjá honum.