141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:32]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég læt mér í léttu rúmi liggja hvort ég er kallaður háttvirtur eða hæstvirtur, ég vil bara vera ég sjálfur í þessum efnum. Það er alveg klárt að ég á ekki samleið í þeim ákvörðunum að taka við fé frá Evrópusambandinu til að aðlaga og breyta íslenskri stjórnsýslu í þessu ferli. Það að vera komin með áform, eins og er í fjárlagafrumvarpinu, um milljarða króna til næstu þriggja, fjögra ára í aðlögunarferli að Evrópusambandinu er langt umfram það sem ríkisstjórnin lagði upp með á sínum tíma. Hún lagði upp með að Alþingi, þegar það samþykkti aðildarviðræður, skyldi ljúka viðræðum innan árs, sumir töluðu um ár. Þeir sem töluðu um lengsta tímann sögðu innan tveggja ára og þá tæki Alþingi og hugsanlega þjóðin, ef um væri að ræða einhverja samninga, afstöðu. En í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að samningarnir og þetta aðlögunarferli haldi áfram næstu ár, tvö, þrjú, fjögur ár. Alþingi þarf að taka á því og átta sig á hvað felst í þessum fjárlögum hvað það varðar.

Herra forseti. Ég kom hingað upp til að undirstrika það fyrst og fremst að í samræmi við stefnu flokks míns og sannfæringu mína hafnaði ég því sem ráðherra að taka við styrkjum og gullkálfum frá Evrópusambandinu til að aðlaga ráðuneyti og stofnanir þess að sambandinu sjálfu og það í miðju ferlinu sem er náttúrlega ekkert annað en bein aðlögun sem ég er ekki sammála.