141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi gera eitt atriði, sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, að umtalsefni í þessu andsvari. Það voru þau sjónarmið sem hann lét í ljósi varðandi löggæslumálin, að það væri mat hans og félaga hans í Framsóknarflokknum að sennilega væri þörfin fyrir viðbótarfjármagn til löggæslunnar 500 milljónir en ekki 300 milljónir eins og nokkuð hefur verið rætt um. Ég get tekið undir það. Ég vildi aðeins inna hv. þingmann eftir því hvort hann sé sammála mér um að ekki sé einvörðungu þörf á að bæta stöðu embættanna vítt og breitt um landið. Við erum væntanlega sammála um að það sé raunverulega nauðsyn, sérstaklega á stöðum þar sem fámennt lið hefur miklu hlutverki að gegna á stórum svæðum, eins og í heimabyggð hv. þingmanns þar sem um er að ræða, fyrir utan íbúafjöldann og mikið landflæmi, gríðarlega mikinn ferðamannastraum. Umferðin er mikil og íbúatalan ein ekki góður mælikvarði á þörfina fyrir löggæslu.

Ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti, hvort hv. þingmaður getur ekki verið sammála mér um að þrátt fyrir að stærri löggæsluumdæmin, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu, búi að sumu leyti við betri aðstæður til að taka á sig högg eins og orðið hafa á síðustu árum, sparnað og fækkun mannskaps, sé engu að síður þörf á að bæta þar úr með sama hætti og vítt og breitt um landið.