141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræðan um löggæsluna hefur verið mjög áhugaverð. Ég held að þetta sé enn eitt dæmið um það sem ég hef gert að umtalsefni í dag, þ.e. hvernig menn eru svolítið að blekkja sig í gegnum þessi fjárlög. Menn láta eins og þeir taki ekki eftir því að búið er að ganga svo nærri einstökum stofnunum að ef ganga á áfram þann sama veg í niðurskurði, og ég tala nú ekki um að bæta þar í, mun það hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þá verða menn að taka þá pólitísku afstöðu til málsins að viðurkenna að ef áfram verður haldið á þessari braut mun það hafa afleiðingar, menn eiga þá bara að horfast í augu við það.

Það er áhugavert að setja þetta allt saman í samhengi. Hv. þingmaður nefndi áðan kostnaðinn, herkostnaðinn, vegna álagningar hinna nýju veiðigjalda, 40 millj. kr. sem eiga að fara til Fiskistofu, að minnsta kosti eins og þar segir. Þó er ekki allt upptalið vegna þess að ekki er gert ráð fyrir kostnaði sem þegar er fallinn til vegna þess að gerðar voru breytingar á veiðigjaldafrumvarpinu, sem ég veit að hv. þingmaður þekkir mjög vel, sitjandi í atvinnuveganefnd, sem fólu það meðal annars í sér að fara þyrfti í meiri vinnu vegna endurgreiðslu vegna vaxtagjalda og þess háttar. Ekki er gert ráð fyrir því í þessu og síðan 30 millj. kr. vegna veiðigjaldsnefndarinnar sjálfrar. Þetta eru 70 millj. kr.

Ef við setjum þetta nú í samhengi við löggæsluna, sem hv. þingmaður nefndi, þá skoðaði ég það að minni sýslumannsembætti á landsbyggðinni fá um 25–30 millj. kr. Við erum að tala um heildarrekstur tveggja til þriggja sýslumannsembætta á ári sem nú á að verja til að standa straum af herkostnaðinum út af veiðigjöldunum. Nú er hins vegar lögð mikil áhersla á að sameina þessi sýslumannsembætti vegna þess að það á að spara svo óskaplega mikinn pening að fækka þessum litlu embættum sem fá 20–30 millj. kr. á ári. Þegar við skoðum þetta í samhengi við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, (Forseti hringir.) um aukningu stjórnsýslunnar á höfuðborgarsvæðinu, þá er það náttúrlega mjög hjákátlegt.