141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert óeðlilegt að menn spyrji hvort blekkingaleikur sé í gangi, þ.e. að bæði sé verið að fela eins margar og víðtækar tillögur frá 1. umr., þ.e. grunnplagginu um fjárlagafrumvarpið, og koma með svo margar breytingartillögur við 2. umr. og lýsa því svo yfir að von sé á fleiri breytingartillögum við 3. umr. Þá hlýtur það plagg sem menn fóru upphaflega af stað með, og voru feiknalega ánægðir með, að vera orðið gjörbreytt þegar menn breyta þessu sjálfir með þessum víðtæka hætti.

Það má líka velta því fyrir sér hvort allar þær tillögur sem þar hafa komið inn — og það hefur nú komið fram hér í umræðunni í dag og fyrri daga, meðal annars frá þeim einstaka þingmönnum sem sitja í fjárlaganefnd, sem við hv. þingmenn gerum ekki, að þeir kannist ekki við að slík umræða fari fram um einstaka liði. Það hlýtur að vera ámælisvert og kallar á meiri umræðu hér í þingsal og ætti að verða til þess að menn fengju fleiri svör frá stjórnarmeirihlutanum eða oft og tíðum hæstv. ráðherrum þaðan sem hugmyndirnar virðast sprottnar.

Varðandi herkostnaðinn, sem við nefndum í sambandi við veiðigjaldið, þá er það líka sláandi, og rétt að ítreka það sem ég nefndi, að í nýlegu svari sem ég fékk frá hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra varðandi störf, bæði hjá Fiskistofu og Hafrannsóknastofnun, og mögulegan tilflutning þeirra út á land, þá var ekkert slíkt á döfinni þrátt fyrir að starfsemin sé mikil víða úti á landi. Við höfum ekkert rætt um það hversu óskynsamlegt það er að fara í þennan herleiðangur og hversu alvarlegar afleiðingar það hefur fyrir atvinnugreinina.