141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma aðeins inn á það síðasta sem hv. þingmaður nefndi hér áðan. Nú er það þannig að lögin um veiðigjöld voru samþykkt í vor. Þá var möguleiki á því, úr því að það lá þá fyrir, að kostnaðurinn við að innleiða þessi veiðigjöld væri að minnsta kosti 40 millj. kr., að ráða þyrfti að minnsta kosti fjóra sérfræðinga við Fiskistofu. Fiskistofa er þannig uppbyggð að hún er með starfsstöðvar úti um allt land. Í tíð fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Árna M. Mathiesens, var starfsemin þar aukin með því að fiskveiðieftirlitið var fært út á landsbyggðina. Þarna eru starfsstöðvar sem hefðu auðveldlega getað tekið við þessu verkefni sem nú er búið að ákveða og setja niður og er þegar farið af stað í höfuðstöðvum Fiskistofu í Hafnarfirði.

Það hefði verið augljóst mál að ákveða það strax í vor að setja þessa starfsemi niður úti á landsbyggðinni, t.d. til að vega upp á móti því að verið er að skera niður þessar litlu stofnanir vítt og breitt um landið, opna þá möguleika á því að búa til einhverja aðra viðspyrnu í stað þess niðurskurðar sem þessar stofnanir (Forseti hringir.) úti um landið þurfa nú að lúta.